Nýjasta virkjanaæðið: Eftirsókn eftir vindi og sæstreng.

Nýlega notaði forstjóri Orku náttúrunnar orðið "virkjanaæði" um það ástand, sem ríkti hér á landi í orkumálum. 

Nú stingur nýjasta tegund þess upp kollinum: Risavaxin vindorkuver. 

Stórbrotnar hugmyndir um þau spretta ekki upp af tilviljun. Nokkur áhrifaatriði má nefna: 

1.

Óheyrilegar háar orkutölur og eftir því gróðavon. Stærsta vindorkuver heims á að rísa vestarlega í Kína, langt inni á meginlandi Asíu og geta afkastað 20 þúsund megavöttum, sem er álíka mikið og 30 Kárahnjúkavirkjanir.

Vindorkuverið, sem fyrir liggur í viljayfirlýsingu sveitarstjórnar Dalabyggðar og eigenda jarðarinnar Hróðnýjarstaða, skammt frá Búðardal, að skuli verða sett á skipulagið þarna, á að hafa allt að 130 megavatta uppsett afl.

Það er litlu minna en afl stórvirkjunarinnar Blönduvirkjunar, sem er 150 megavött. Landvernd minnist á "sambærileg svæði" og verndarsvæði og þessi 40 mastra skógur af 150 metra háum möstrum á Hróðnýjarstöðum mun sjást frá mestallri Hvammssveit í því héraði landsins sem býr yfir hvað mestum sagnaslóðum. 

Vindorkugarðar voru fegraðir mjög á fundi í Dalabúð á dögunum, hávaðinn í myllunum sagður ekki meiri en frá ísskáp og þegar horft væri lóðrétt niður á myllurnar, sýndust þær mjög smáar!  

2. 

Virkjanasprengja.  Virkjanahugmyndir, jafnvel á virkjunarkostum í verndarflokki, hrúgast inn í tugum.  Fyrir liggur yfirlýsing forstjóra Landsvirkjunar á aðalfundi fyrirtækisins fyrir þremur árum um að fyrir árið 2025 verði búið að tvöfalda raforkuframleiðslu Íslands frá því sem nú er. Það þýðir, að 2025 framleiddum við tíu sinnum meiri raforku en við þurfum til okkar eigin heimila og fyrirtækja. Les: Stóriðja. 

3. 

Sæstrengur. Forstjóri Landsvirkjunar sagði líka á fyrrnefndum fundi að það væri ekki spurning um hvort, heldur hvenær lagður yrði sæstrengur milli Íslands og Skotlands. 

Þetta tengist þeim ágalla vindorkuvera að vera afllaus í logni og sæstrengur hefði gríðarlega þýðingu fyrir stórfella vindorkuvæðingu Íslands, því að þá yrði hægt að selja vindorku til Evrópu hvenær sem væri, sem er mikill munur miðað við það að geta aðeins selt Landsvirkjun takmarkað magn sem passar við sveiflujöfnun í lónum hennar.  

Allt tal um að hægt yrði að safna á rafhlöður orku vindorkuvera á við margar Kárahnjúkavirkjanir er út í hött, svo mikið af rafhlöðum þarf til að geyma svona mikla orku. Til samanburðar má nefna að rafbílavæðing landsins felur aðeins í sér um að ræða örfá prósent af orkuframleiðslu landsins og samt er rætt um vandamál varðandi rafgeymana sem þarf fyrir bílana. 

 


mbl.is Vindorkuver rísi ekki á verndarsvæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tökum Kanann á þetta: Hver græðir?

"Hver hagnast? Hver græðir?" spurðu Rómverjar þegar glöggva þurfti sig á málum og upplýsa þau. 

Banaríska útgáfan er: "Follow the money." Rekið slóð peninganna. 

Hver græðir á sölu stórvirkra skotvopna eins og notuð voru við fjöldamorðin í Flórída og Las Vegas: 

Svar: Vopnaframleiðendur, vopnasalar og byssugleðimenn. 

Hver græðir á því ef að krafan verður að kennarar og lögreglumenn við skólana verði vopnaðir jafn afkastamiklum hríðskotabyssum og fjöldadráparar, af því að augljóst var að lögreglumaður fyrir utan skólann hefði gengið út í opinn dauðann á móti yfirburðum fjöldamorðingjans í vopnaburði?

Svar: Vopnaframleiðendur, vopnasalar og byssugleðimenn. 

Höldum áfram með "follow the money": 

Hver græðir á því að öflug samtök vopnaframleiðenda, vopnaslar og samtök skotglaðra byssueigenda moka jafnvirði milljarða íslenskra króna í að styrkja bandaríska stjórnmálamenn fjárhagslega: 

Svar: Spilltir þingmenn. 

Og þar með er slóðin komin á gamalkunnugt svið: Hið baneitraða samband stjórnmála og viðskipta. Spillt stjórnmál í sinni grimmustu mynd. 

En siðblindan í öllu sést síðan á því, að fulltrúi byssuglaðra sakar þá, sem vilja hamla gegn þessu brjálæði um að draga málið niður í pólitískt svað.  


mbl.is Aðhafðist ekkert er árásin var í gangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjár ástæður og víða örtröð.

Sagan af holunni í Mosfellsbæ og örtröð á verkstæðum vegna sprunginna dekkja er ekkert einsdæmi þessa umhleypingadaga. 

Ég átti leið á dekkjaverkstæði í miðri Reykjavík á mánudag og þriðjudag og þar var örtröð bílstjóra með sprungin dekk eftir að hafa lent í holum. 

Ástæðurnar eru nokkrar: 

1.

Tískan, harður húsbóndi.  Bílaeigendur láta blekkjast af auglýsingum um ágæti þess að felgur séu stórar og halda að það þýði þykkari dekk.

En þetta er öfugt, stærri felgum hefur fylgt að dekkin verði lægri og breiðari, þannig að hér á árum áður, þegar hæð dekkja frá götu upp í felgu var í kringum 16 sentimetrar á meðalstórum bílum, er þessi hæð dottin niður í minna en 10 sentimetra. Dekk sem er af stærðinni 175/55-15, þ. e. 15 tommu felga og dekk sem er 17,5 sentimetra breitt, tæplega 7 tommur, líta töff út, en þá gleymist að talan 55, þýðir hlutfallið á milli breiddar og hæðar dekksins er 55 á móti 100, þ.e, 175x55 eru 9,5 sentimetrar.

Ytra ummál dekks á svona 15 tommu felgu er 15 plús 7,5 tommur eða 22,5 tommur. 

Til samanburðar var dekk á 13 tommu felgu af stærðinni 6,40 x 13 eða 25,8 tommur. Og dekkið 6,4 tommu hátt frá jörð upp í felgu, en aðeins 3,8 tommur frá jörðu upp í felgu á stærðinni 175x55.    

2. 

Skammsýnis sparnaður við það að hafa malbikið aðeins 5 sm þykkt. Til samanburðar er malbikið á flugbrautum Reykjavíkurflugvallar 10 sentimetra þykkt. 

3. 

Önnur skammsýni, lélegt efni í slitlaginu. 


mbl.is Tugir bíla skemmdust í sömu holu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband