Hér þarf að vanda til verka.

Ef ég man rétt hefur það verið uppi á borðinu að breikkun Þingvallavegar um 1,5 metra myndi nægja til að auka þar umferðaröryggi nægilega mikið til að fækka slysum, sem hafa orðið á veginum. 

Þetta eru aðeins 0,75 metrar hvorum megin og sýnist því kannski ekki mikið. 

En samt er eðlilegt að afar vel sé vandað til verka miðað við það að þetta er ekki aðeins vegur, sem er á svæði á heimsminjaskrá UNESCO, heldur er hann hluti af vegakerfi helgasta staðar þjóðarinnar. 

Málið kemur því allri þjóðinni við og ef þessi 0,75 sentimetra breikkun er ekki meira en svo, að hægt sé að koma henni við, hefði það verið sjálfsagt og eðlilegt að framkvæmdin færi í mat á umhverfisáhrifum, svo að allir, sem málið varðar, ættu kost á að taka afstöðu til hennar á grunni vönduðustu gagna. 

Nú kemur allt í einu upp, að vaða eigi í þessa framkvæmd án þess að fram fari mat á umhverfisáhrifum og þar með án þess að eigandi vegarins, þjóðin, fái að kynna sér málið. 

Þegar Landvernd bendir á þetta, má heyra kunnugleg ramakvein um það að þau samtök séu ævinlega að "eyðileggja fyrir" og "koma illu af stað." 

Nær væri að spyrja um ábyrgð þeirra, sem keyra svona mál af stað án þess að fara rétt að. 

Og ekki í fyrsta skipti. 

Ég get ímyndað mér að margir telji ólíklegt að 75 sentimetra breikkun á vegöxlum hvorum megin gangi alveg upp. 

En málið er aðeins flóknara en það, því að það verður að liggja fyrir hvað það er og hve mikið sem fara mun undir fláann út af vegöxlunum og hvort 1,5 metrunum sé alls staðar skipt jafnt á milli kantanna. 


mbl.is Heil miðlína stöðvi framúrakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira en tíu kílómetra langt lón - og síðan fjörður.

Línurnar, sem sýna samfellda minnkun og hop Breiðamerkurjökuls í meira en hálfa öld, eru í hrópandi ósamræmi við hávær andmæli þeirra, sem bera á móti hlýnun loftslags.Vatnajökull, Háskólabíó 

Ekkert hefur enn komið fram sem bendir til annars en að spá, sem sett var fram á kvöldfundi Verkfræðingafélaga Íslands fyrir 30 árum, muni rætast. 

Hún var sú, að smám sama og jafnt og þétt myndi jökullinn hopa og lækka og lónið lengjast og dýpka uns það næði meira en tíu kílómetra inn í land. 

Og á endanum myndi hið mjóa eiði, sem aðskilur ströndina og suðurenda lónsins, rofna vegna minnkandi framburðar jökulaurs, sem jökullinni skóflar upp og áður fór allur beint í hafið. 

Þar með myndi Þjóðvegur eitt rofna og í staðinn yrði kominn fjörður á grænlenska vísu með fljótandi ísjökum, sem yrðu til trafala fyrir ferjusamgöngur yfir lónið í stað hringvegarins. 

Á mögnuðum fundi í Háskólabíói í fyrrakvöld sýndi Magnús Tumi Guðmundsson sýnina um lónið/fjörðinn langa leið inn með fjöllunum austan við jökulinn. 

Á meðfylgjandi mynd er hann í ræðustóli vinstra megin á myndinni með mynd af Grímsvötnum á tjaldinu, tekinni eftir gos í byrjun aldarinnar. 

Eitt getur sett strik í þennan reikning varðandi myndun stórs og djúps fjarðar, en það er landris á Suðausturlandi vegna léttara fargs jökulsins, sem myndi hækka ströndina sjálfa eitthvað. 

Spurningin er hvort það landris muni koma í veg fyrir myndun opins fjarðar. 

Til þess að vinna gegn rofi hringvegarins og háspennulínunnar hefur verið bent á nauðsyn þess að búa til nýtt og miklu lengra útfall úr lóninu austar á sandinum, þar sem áin Stemma hvarf fyrir um tuttugu árum. 


mbl.is 150 metrar horfnir þar sem mest er
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. apríl 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband