Hálft hreindýr út úr vélinni.

Þeir, sem voru á ferð fyrir austan Fagurhólsmýri í Öræfasveit ágústdag einn 1986 hljóta að hafa efast um að þeir hefðu eðlilega sjón ef þeir litu til himins og sáu litla tveggja hreyfla flugvél fljúga í vesturátt fyrir norðan veginn með aftari hluta hreindýrs hangandi út um farangursdyr vélarinnar. TF-HOF

En þetta gerðist nú samt þrátt fyrir að talið væri að búið væri að tryggja það örugglega að hreindýrið væri svo kyrfilega njörvað niður inni í vélinni, að það gæti ekki losað sig. 

Einnig átti að vara útilokað að dýrið gæti opnað farangursdyrnar innan frá, auk þess sem þessar dyr voru fremur litlar, undir aftasta glugganum. 

En það gerðist samt, og það í 7000 feta hæð yfir sunnanverðum Vatnajökli yfir efri hluta Breiðamerkurjökuls nálægt Mávabyggðum. 

Á einhvern óskiljanlegan hátt tókst hreindýrinu, sem var raunar stálpaður kálfur og hafði verið á 200 ára afmælissýningu Reykjavíkurborgar, að krækja harðri klaufinni á öðrum afturfæti sínum í fals hurðarlæsingarinnar og sparka hurðinni upp, með þeim afleiðingum, að aftari hluti dýrsins sogaðist út svo að fæturnir sprikluðu utan við vélina!  

Lent var heilu og höldu á flugvellinum á Fagurhólsmýri og gengið svo tryggilega frá bæði dýri og hurð þar að það haggaðist ekki á leiðinni þaðan austur á flugvöllinn á Djúpavogi. 

Hreindýrið var frá Eyjólfsstöðum í Berufirði, og unglingsstúlka frá bænum sat í framsæti fyrir framan dýrið, en þrjú sæti ar aftan við höfðu verið tekin úr vélinni til að rýma fyrir hinum óvenjulega farþega. 


mbl.is Flugmaðurinn hálfur út úr vélinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brekkur og vindur í Danmörku? Já.

Íslendingar hafa um langan aldur nærst á því að tala niður til Dana varðandi það, að hvergi sé að finna mishæð í Danmörku. Möns Klint

En í slíku tali felst alhæfing, sem ekki stenst eins og sést á frétt um íslensk hjólreiðaungmenni í keppni á Jótlandi þar sem yfriðnóg er af brekkum og vindi. 

Þótt Himmelbjerget sé kannski dálítið spaugilegt nafn, er hæð þess og fleiri jótlenskra hæða, svo sem Ejer Bavnehoj, 157 - 173 metrar yfir sjávarmál. 

Það samanburðar er Helgafell nálægt Stykkishólmi 73 metrar, og hinn ógurlegi "fjallvegur" Ódrjúgsháls í Gufudalssveit 160 metrar. 

Vegagerðin skilgreinir veginn um hálsinn milli Víkur í Mýrdal og Mýrdals sem "fjallveg" og nefnir hann Reynisfjall, þótt hann sé aðeins 113 metra hár yfir sjávarmál.  

Hið þverhnípta Mönsbjarg á eyjunni Mön nær 143ja metra hæð, er sjö kílómetra langt og mun hærra en hið rómaða íslenska Krýsuvíkurbjarg, sem meira að segja heitir Háaberg á einum stað.  

Flestir, sem koma á Látrabjarg, nenna ekki að ganga nema upp á ysta hluta þess við Barðið, og bjargið er aðeins um 100 metra hátt þverhnípi þarna yst.  


mbl.is Mikið af brekkum, vindi og hraða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið í húfi.

Eftir því sem læknavísindunum fleygir fram fjölgar þeim álitamálum, sem upp koma með aukinni upplýsingagjöf. 

Fyrir rúmlega 30 árum stóð fjölskylda mín frammi fyrir því að gefa víðtækar persónulegar upplýsingar til nýstofnaðrar stofnunar í erfðafræðum í Bretlandi. 

Ástæðan var erfðagalli sem uppgötvaðist við það að fyrsta barnabarn okkar Helgu fæddist með banvænan galla, sem fram að því hafði ekki verið álitinn arfgengur.

En nú blasti við að tilfellin í fjölskyldunni voru of mörg til þess að hægt væri að afgreiða þau sem tilviljanir.

Þótti þetta tilfelli það merkilegt og mikilsvert, að þegar þessi merka stofnun var opnuð, var okkur, afa og ömmu hins látna barns, boðið að verða viðstödd, auk sonar okkar, þegar Sara Ferguson opnaði stofnunina.  

Ég komst ekki vegna anna og Þorfinnur sonur minn fór í minn stað. 

Þótt líkamsgallinn væri augljóslega aðeins kominn frá öðru okkar, sem vorum afi og amma, varð það niðurstaða okkar að við skyldum gefa allar upplýsingar, sem krafist yrði, beggja vegna frá. 

Við gerðum það eins vel og unnt var vegna þess, að við töldum svo mikið í húfi, að hugsanleg óþægindi okkar yrðu að víkja, minni hagsmunir að víkja fyrir meiri. 

Æ síðan hefur hið merka starf Kára Stefánssonar, sem síðar kom til, notið velvilja okkar. 

Eins og fyrir rúmlega 30 árum, er mikið í húfi.  


mbl.is Áhyggjur af lítilli umferð um síðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband