Það verða að vera reglur.

"Ordnung muss sein", "það verða að vera reglur," segja Þjóðverjar og hafa stundum þótt ganga full langt í því. "Við látum engan yfir okkur ráða" hefur hins vegar lengi verið sungið í vinsælu íslensku lagi um Þorskastríðið fyrsta. 

Stundum hefur verið sagt um Svía og Norðmenn, að í Svíþjóð sé allt bannað, nema það sé leyft, en í Noregi sé allt leyft, nema það sé bannað. 

Sennilega ætti þetta frekar við Norðmenn annars vegar og Íslendinga hins vegar. 

Þegar utanvegaakstur hefur verið til umræðu á samfélagsmiðlum, hefur það sjónarmið furðu oft verið viðrað að vegna þess hve mikið sé af ósnortnum söndum og öðru víðerni á Íslandi, sé bara allt í lagi að allir fái að aka hvar sem þeim sýnist. 

"Þetta eru bara sandar" er oft sagt. 

Þetta er ákaflega íslensk sjónarmið þegar það er borið saman við þær reglur sem gilda á hliðstæðum svæðum erlendis. 

Í frægasta jeppaþjóðgarði Bandaríkjanna, Giljalöndum (Canyonlands) sem liggur skammt frá bænum Moab, Mekka jeppakarla þar í landi, er net jeppaslóða sem eru alls 1600 kílómetra langir. 

Það þætti ekki mikið á okkar landi, þar sem talið er að slóðarnir séu meira en 20 þúsund kílómetra langir alls. 

En í "landi frelsisins" ("..land of the free.." í þjóðsöng Banda´rikjamanna) er strangt bann við akstri utan slóðanna í Giljalöndum. 

Og þetta gildir í öllum bandarísku þjóðgörðunum. 

Og engum manni dettur í hug að óhlýðnast. Ég gerði það að gamni mínu, þegar við Helga vorum þarna um síðustu aldamót að spyrja, af hverju ekki mætti aka á landi, sem sýndist bara vera sandauðn og gróðurlítið land. 

Undrunarsvipur kom á starfsmanninn þegar hann svaraði: "Ef allir þjóðgarðsgestir, 730 þúsund á hverju ári, fá alltaf að aka hvar sem þeim sýnist, verður allt útsparkað alls staðar, upplífunin af sérstæðri náttúru svæðisins og hinu ósnortna víðerni þar með eyðilögð og víða verða unnin óbætanleg spjöll."

Hann sagði þetta í þannig tóni, að ég varð skömmustulegur, en lét mig hafa það að spyrja svona eins og kjáni, af því að

"þar sem enginn þekkir mann /

þar er gott að vera /

því að allan andskotann /

er þar hægt að gera."


mbl.is „Þetta er bara ömurlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilu hverfin virðast langtímum saman án löggæslu.

Í því útverfi þar sem ég bý núna, minnist ég þess ekki að hafa séð lögreglu á ferli í almennu eftirliti. 

Í fyrrakvöld átti ég leið um torgið Spöngina þegar myrkur var dottið á og kom þá léttklæddur, hjálmlaus maður á ljóslausu fretandi vélhjóli á fullri ferð og fór mikinn um hverfið og vakti hættu og ónæði fyrir þá, sem voru á ferð. 

Svona lagað, auk ýmissa spellvirkja, gerist iðulega í hinu stóra Grafarvogshverfi án þess að vart verði við nein viðbrögð lögreglu, þrátt fyrir kvartanir. 

Á bloggsíðu einni má sjá í morgun líkum leitt að því að "óvinir bílsins" hafi staðið fyrir íkveikju í bílum við Öskju og að um sé að ræða "skipulögð samtök gegn bílum, sem í þessu tilfelli hafi ekki farið í strætó til spellvirkja sinna.

Það er ansi billegt að dæma notendur almenningssamgangna fyrirfram fyrir þetta, með orðum eins og þeim, að hér sé um hagsmunaaðila sem andi að sér súrefni og hafi ekki farið í strætó til verksins, en þetta er svo sem í stíl við sum önnur skrif á samfélagsmiðlum, þar sem alhæft er um hvílíkir bölvaldar hjólafólk sé í umferðinni. 

Það nýjasta hér á blogginu er krafa um að foreldrar spellvirkjanna, sem séu vinstri sinnað fólk sé tekið fyrir verknaðinn, því að þetta hljóti að hafa verið börn vinstra fólks.

Ekki dettur mér í hug að taka upp hanskann fyrir svarta sauði meðal hjólreiðafólks en ansi langt er seilst ef það á fyrirfram að fara að ýja að einhverjum samtökum þeirra, sem ekki nota einkabíl, um bílaíkveikjur. 

Hvað hjólafólkið áhrærir hefur mátt sjá því haldið fram fullum fetum, að allt hjólafólk, sem hjóli á marktum gangbrautum yfir akbrautir, sé í órétti og beri skylda til að fara af baai og leiða hjólin. 

Og því bætt við að hjólafólkið skapi með þessum yfirgangi svo mikla hættu, að bílstjórar þurfi að fara taka á sig rögg og sýna því hvers sé mátturinn og dýrðin þar sem leiðir skerast. 

Ég hef leitað til tveggja af helstu umferðarsérfræðingum okkar um álit á þessari kenningu og þeim ber saman um að þessi kenning um frekju hjólreiðafólks eigi sér enga stoð í umferðarlögum. 

Og sérkennilegt er að sjá skrifað um að langlíklegast sé að "óvinir bílsins", hugsanlega hjólafólk eða notendur strætisvagna, sé að hrinda af stað bílabrennum í hatri sínu á bílum. 

Hver maður á hjóli er nefnilega augljóslega vinur einkabílsins að því leyti, að ef viðkomandi hjólamaður væri á einkabíl, myndi hann taka rými í umferðinni, sem hann hefur gefið eftir fyrir ökumann eins einkabíls og þannig stuðlað að því að létta á umferðarþunganum. 


mbl.is Kveikt í bílum við Öskju í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband