Dæmi um fáránleika málsins: Fjórir ómögulegir möguleikar.

Vitanlega var tímamótadómur Hæstaréttar í gær gríðarlegur sigur fyrir réttlætið. Hitt er umhugsunarefni af hverju þessi sigur var svona mikill. 

Það var þvi miður vegna þess hve ranglætið var mikið og langvarandi. 

Já, það var vegna þess að hið óskaplega ranglæti hafði viðgengist í næstum 43 ár, allt frá þvi að rannsókn hófst á Geirfinnsmálinu með svo mörgum lögbrotum af hálfu hins íslenska "réttarríkis", að úr varð býsna löng upptalning á lagabrotunum hjá Ragnari Aðalsteinssyni í sjónvarpi í gærkvöldi. 

Þessi 43 ár hjá þjóð okkar verða einn svartasti bletturinn í Íslandssögu síðustu aldar, skapaður af smæð þjóðar návígis, kunningsskapar og vensla. 

Persónulegt dæmi um fáránleika málsins er eftirfarandi úr ranni fjölmiðlunar, sem var fífluð þessi ár. 

 

1976 var ég nýráðinn fastur fréttamaður og kominn í þularhlutverk. 

Þetta var á árum Walters Cronkite, sem sagði gjarnan: "That´s the way it is."

Sem þýddi, að viðkomandi fréttamaður þurfti að vera handviss um að segja satt og rétt frá,  beint í augun á þjóðinni, með svip og augnaráði ítrasta trúverðugleika. 

Þetta þýddi að ég og aðrir fréttaþulir vorum ítrekað í þessari stöðu í aðal æsifréttum þessara tíma. 

Eftir heilmikinn blaðamannafund um árangur rannsóknarinnar var sest í fréttasettið, horft beint í augu þjóðarinnar og lesin með ítrasta trúverðugleika í augnaráði og svip nákvæm lýsing á morðinu á Geirfinni í Dráttarbrautinni í Keflavík og horft beint í augu þjóðarinnar á meðan. 

Eftir nokkrar vikur þurfti síðan að setjast aftur í fréttasettið til að endurtaka leikinn og "halda andlitinu" með Walter Cronkite í huga. 

En þá brá svo við að hin "endanlega" lýsing á atburðunum í Dráttarbrautinni var allt önnur og algerlega ný svo að varla stóð steinn yfir steini í fyrri lýsingunni. Og þetta varð að lesa án þess að depla auga, horfa beint í augu allrar þjóðarinnar með ítrasta trúverðugleika í augnaráði og svip. Halda andlitinu.  

Svipaður leikur var að vísu leikinn mörgum sinnum í umfjöllun um Guðmundar- og Geirfinnsmálið, en þessi tvö nefndu atvik eru eftirminnilegust, því að þegar kafað var ofan í "trúverðugleikann" komu upp fjórir möguleikar: 

1. Fyrri atburðarásin var lygi en síðari atburðarásin sannleikur. 

2. Síðari atburðarásin var lygi en fyrri atburðarásin sannleikur. 

3. Báðar atburðarásirnar voru blanda af lygi og sannleika. 

4. Þetta var allt saman tóm steypa og bull. 

Fjórir ómögulegir möguleikar?  Nei, sá síðasti var kannski sá eini sem gekk upp, - strax fyrir 40 árum. Hvers vegna tók 40 ár að viðurkenna það? 

Nefna má mörg fleiri atriði, þar sem fréttamenn urðu að taka á öllu sínu til að halda andlitinu við frásagnir, eins og þegar Toyota fólksbíll var við hús við Hamarsbraut með vélina að framan og farangursgeymslu að aftan og bílstjóra sitjandi í framsæti á meðan borinn var poki með líki Guðmundar Einarssonar að afturenda bílsins til að setja það þar ofaní, næstum án þess að bílstjórinn yrði þess var, - þessi bíll varð allt í einu eins gerbreyttur og hugsast gat,  varð allt einu orðinn að Volkswagen Bjöllu með vélina afturí og enga farangursgeymslu þar, og ekki heldur brúklega farangursgeymslu frammi í, og þess vegna urðu líkburðarmennirnir að leggja framsætisbakið fram og troðast framhjá bílstjóranum til að drösla líkinu í aftursæti Bjöllunar. 

Hvort tveggja, Toyotan og Bjallan, talið heilagur sannleikur þegar frá því var sagt. 

Bæði Magnús Leopoldsson og Einar Bollason, saklausir menn, sögðu eftir á, að eftir 100 daga gæsluvarðhald hefðu þeir verið komnir á fremsta hlunn með að játa, af því að það var búið að brjóta þá svo mikið niður, að allt var tilvinnandi til að komast út úr víti fangelsisins og ná vopnum sínum. Þá hlytu allir að sjá að þær gætu ekki annað en verið saklausir. 

Báðum flaug líka í hug að það gæti ekki verið mögulegt að þeir hefðu verið fangelsaðir nema þeir hefðu gert eitthvað, sem þeir myndu ekki eftir. 

Og reyndu að finna út hvað það hefði getað verið. 

Þeir voru svo bjargarlausir, að það kom til greina að játa til þess að komast út og fá þar tækifæri til að sýna fram á að þeir gætu ekki verið sekir. 

Lýsing Guðjóns Skarphéðinssonar á svipuðu fyrirbæri hjá honum er sláandi. 

Tíu fangelsaðir einstaklingar, sem mannréttindi voru brotin á, náðu sér aldrei eftir þessar hremmingar. 

Og enn stendur útaf rán á veski og penna Geirfinns og rangar sakargiftir þriggja einstaklinga, sem voru augljóslega af nákvæmlega sama toga og annað í því, sem haft var eftir þeim eftir harðræðis yfirheyrslur. 


mbl.is Óþarfi að búa til tap úr sigrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar óttinn nær að magnast eða er beislaður.

Ótti er tilfinning sem auðveldlega getur leitt fólk mjög langt, jafnvel svo langt að það sé kveikjan að þjóðarmorði eins og það, sem hefur verið í gangi gegn Rohingjum í Mianmar. 

Með umfangsmikilli notkun facebook var því sáð, að Rohingjar væri skipulagður hópur múslima, að stórum hlutum komnir frá Bangladesh, sem ætlaði að taka völdin í landinu og það leiddi síðan til þess að hafin var ofsóknarherferð gegn þeim af her, lögreglu og fleirum, sem hefur leitt til stórfelldra morða og ofbeldis gegn þeim. 

Speglar á bíl, sem rekast utan í tvö börn í Svíþjóð verður að stórfelldu hryðjuverki, þar sem bíl er vísvitandi ekið af múslima inn í hóp hundrað barna.

Í framhaldinu er blásin upp þögn og þöggun fjölmiðla og meint yfirhylming þeirra yfir hinni svívirðilegu árás hmúslimska hryðjuverkamanns. 

Ótti, sem greip um sig í þjóðfélögum vesturlanda á áttunda áratugnum var ein af undirrótum Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, sem verið var að afgreiða seint og um síðir í gær. 

Fréttir af hryðjuverkum og starfsemi hryðjuverkahópa á borð við Bader-Meinhoff í Vestur-Þýskalandi gerði unga hippa og jafnvel smákrimma að stórhættulegu glæpahyski, sem ógnaði samfélaginu. 

Daginn, sem fréttist um hryðjuverkaárás Anders Behring Breivik í Osló, skrifaði einn bloggskrifari ítrekað fram á kvöld um það, hvers kyns hætta stafaði af þeim stórvirka múslimska morðingja, sem væri þar að verki, og að þetta sýndi, hver ógn væri nú almennt í uppsiglingu af völdum múslima. 

Enn í dag segir sami skrifari, að alls staðar í öllum löndum, þar sem múslimar séu, séu þeir uppspretta hryðjuverka. 

Það er líka þekkt fyrirbæri að til þess að ná undir sig miklum völdum, leita "sterkir" valdamenn að sameiginlegum óvini þjóðar sinnar sem ógnun, sem verði að standa gegn undir sterkri forystu. 

Óttinn við utanaðkomandi ógn hefur oft verið nýttur til þess að ná fram atriðum eins og hervæðingu. 

Slíkur gagnkvæmur ótti fer nú vaxandi í sambúð Rússa við Vesturlönd.  


mbl.is Óhapp breytist í hryðjuverkaárás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir Elon Musk inn í svipað og Preston Tucker?

Elon Musk og Preston Tucker eiga það sameiginlegt að hafa átt þá hugsjón að koma tímamótabíl á markaðinn. 

Elon á undanförnum árum, en Tucker á árinu 1948. Tucker ´48 á ská aftan frá

Stóru bílaframleiðendurnir bandarísku höfðu gríðarleg ítök hjá þingi og stjórn og efndu til herferðar gegn Tucker á mörgum vígstöðvum l948.  

Ástæðan var einföld, þegar litið er á bílinn, sem bar nafn Tuckers.

Tucker fékk snilldarhönnuð, Tremulis að nafni til að hanna bíl, sem var hlaðinn nýjungum, sem langflestar voru langt á undan samtíðinni.Tucker 48 á hlið

Má þar nefna svo sem undralága loftmótstöðu, öryggisbúnað, sjálfstæða fjöðrun á öllum hjólum, mikið rými og hámarkshraða og einstaklega góðir aksturseiginleikar sakir lágs þyngdarpunkts, sem gerðu aðra bíla næstum hlægilega. 

Bíllinn var að vísu með vélina afturí sem ekki reyndist verða að framtíðarmúsík, en þetta var flöt "boxer"vél með loftkælinu.

En 51 eintak, sem tókst að framleiða, var hvert um sig gullmoli. Tucker 48 (2)

Með því að kæra Tucker fyrir svik, sem kostaði hann nokkurra ára málaferli og stöðvaði framleiðslu bíla hans, tókst stóru bílaframleiðendunum að kæfa framleiðsluna á Tucker í fæðingu. 

Tucker vann að lokum sigur í málaferlunum og var sýknaður, en skaðinn var skeður fyrir hann. 

Hann sagði við lok réttarhaldanna, að ef Bandaríkjamenn ætluðu að halda áfram á braut svona afturhalds og spillingar myndu hinar sigruðu þjóðir í stríðinu, Þjóðverjar og Japanir, bruna fram úr þeim á sviði bílaframleiðslu. 

Þegar þessi orð voru sögð, höfðu Bandaríkjamenn yfirburðastöðu í bílaframleiðslu heimsins með meira en tiu sinnum stærri bílaflota en nokkur önnur þjóð og framleiddu einir fleiri bíla en allar aðrar þjóðir heims samanlagt. 

Tucker uppskar dúndurhlátur í réttarsalnum fyrir spádóminn um væntanlega sigurgöngu Þjóðverja, Japana og annarra "aumra" þjóða",  þvílík fjarstæða þótti þetta tal hans. 

Það fór hins vegar svo að Þjóðverjar og Japanir fór fram úr Bandaríkjamönnum á þessu sviði og á síðustuu árum framleiða Kínverjar meira en tvöfalt fleiri bíla en Kanarnir.  


mbl.is Musk kærður fyrir svik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. september 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband