Var "maðurinn með stálhjartað" með heimskan heila?

Reinhardt Heydrich, einn af helstu forystumanna nasista, var mótsagnakenndur. 

Heydrich lagði mikið upp úr útliti sínu og líkamlegri færni, og lýstu sumir aðdáendur atgervis hans honum á þann veg, að hann hafi verið goðum líkur.  

Margir telja hann hafa verið eitt mesta illmennið meðal forystumanna nazista í Seinni heimsstyrjöldinni, og þurfti nú talsvert til að taka að sér áð skipuleggja og framkvæma útrýmingu Gyðinga. 

Það hefur líklega verið rótin af lýsingu Hitlers á honum: "Maðurinn með stálhjartað." 

Annað viðurnefni, "Heili Himmlers" bendir í svipaða átt, en Hitler átti eftir að líta heila Heydrichs öðrum augum, eftir að hann frétti af drápinu á honum. 

Nokkrir andófsmenn í Tékklandi veittu honum fyrirsát þar sem hann kom akandi á sveitavegi í opnum blæjubíl sínum. Heydrich fór út úr bílnum og hugðist fara í skotbardaga við umsátursmennina, en þeir vörpuðu handsprengju að honum og særðu hann til ólífis. 

Þegar Hiter frétti af þessum örlögum, varð honum að orði, að aðeins heimskingi hefði getað brugðist við eins og Heydrich gerði, í einhverjum misskildum hetjuskap ofurskyttunnar, því að Heydrich var þekktur fyrir skotfimi sína.  

Um skotfimina vitnaði Agnar Koefoed-Hansen í endurminningum sínum, en hann þekkti vegna flugmannsferils síns hjá Lufthansa marga í innsta hring nasista. 

Í einu teiti stóð til að hann og Heydrich færu í einvígi í skotfimi, en Heydrich kom ekki til leiks. 

Agnar ráðlagði íslensku ríkistjórninni 1939 að hafna ósk Hitlers um aðstöðu fyrir þýskar flugvélar á Íslandi, og reyndist sú ráðgjöf giftudrjúg, þótt víða erlendis undruðust margir að Íslendingar skyldu neita Hitler á meðan flestar þjóðir þorðu ekki annað en að láta eftir óskum hans. 

 

 


mbl.is Gröf „heila Himmlers“ opnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga öll þessi vandræði við línur í jörðu?

Sérkennileg umræða far nú fram á samskiptamiðlum og víðar um rafmagnsbilanirnar, sem enn hrjá fólk á norðanverðu landinu. Enn er því haldið fram að andstaða við lagningu nýrra lína í dreifikerfinu hafi valdið vanrækslunni á því að leggja betri línur, meira að segja átt þátt í banaslysi í Sölvadal. 

Og við útkomu skýrslu um jarðstrengi er alhæft um það, að engin leið sé að leggja þá og allt verði að vera ofanjarðar.  

Við slíkar ályktanir er skautað yfir þann mismun sem er á risalínum fyrir stóriðjuna og smærri línum fyrir almenna dreifikerfið. 

Nýlega er búið að leggja síðarnefndu gerðina 67 kílómetra í Kerlingarfjöll, án þess að nokkur vandkvæði hafi verið á.   

Einu álitaefnin um línur norðanlands hafa verið um stóriðjulínuna Blöndulínu 3. 

Hún kom ekkert við sögu og kemur ekkert við sögu í vandræðunum núna, heldur línur, sem liggja út til neyteda og ekki hefur verið amast við einfaldlega vegna þess að það hefur enginn áhugi verið hjá "fyrirtækjum þjóðarinnar" til þess að endurbæta þær, heldur hefur lagning stóriðjulína verið í algjörum forgangi. 

Í útvarpinu í dag og að hluta til á tengdri frétt á mbl. is er dramatísk lýsing á því hve "allt kerfið er viðkvæmt", og er selta, sem sest hefur á línurnar aðallega nefnd sem vandamál, af því að ef vatn kemst í ákveðið samband við seltuna, fer allt í bál og brand. 

Og þá vaknar spurningin:  Eiga öll þessi vandræði við línur í jörðu? 


mbl.is „Allt kerfið er viðkvæmt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn stærra áfall en þegar Comet brást?

De Havilland Comet var fyrsta farþegaþota sögunnar, sem hóf áætlunarflug. Síðan urðu nokkur mannskæð slys, sem ollu því að vélin flaug ekki í fullu öryggi að nýju fyrr en sex árum síðar og Bandaríkjamenn náðu forystunni af Bretum í smíði farþegaþotna, sem þeir hafa haldið síðan. 

Allar tölur varðandi Boeing 737 Max eru margfalt stærri, stærsta flugvélapöntun sögunnar, 5000 stykki, sem nú gæti verið að snúast upp í andhverfu sína. 

Með rannsókninni á orsökum flugslysanna á Comet urðu þáttaskil í rannsókn flugslysa, sem hefur skilað því ótrúlega öryggi, sem nútíma farþegaflug býður upp á, en er nú í húfi varðandi nauðsyn þess að Max málið verði krufið eins vel niður í kjölinn og Comet-málið var fyrir 60 árum. 

Á þessari bloggsíðu var strax í upphafi spurt um það, hvort tilfærsla hinna þungu og stóru þotuhreyfla á Max væri í raun það sem þyrfti að breyta á þann hátt, að ekki þyrfti hið hátimbraða tölvustýrða kerfi, sem brást í flugslysunun tveimur. 

Það blasir við leikmanni, að þegar Airbus 320 neo er borin saman við Boeing 737 Max, þarf önnur þotan svona tölvukerfi en ekki hin. 

Þegar sagt er að kerfin hafi ekki brugðist, heldur flugmennirnir á 737 Max, hefur verið horft framhjá því, að flugmenn eru mannlegar verur en ekki róbótar.  

 

 


mbl.is Mun Boeing stöðva framleiðslu 737 MAX?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband