Þarf kannski að bíða í nokkra áratugi eins og gert var með tóbakið?

Tóbaksframleiðendur og aðrir, sem högnuðust á framleiðslu og sölu tóbaks áttu ekki í miklum erfiðleikum með það fyrir um 60 árum að koma fram með gögn, sem sýndu, að tóbaksreykingar væru hollar en ekki óhollar. 

Það tók meira en 40 ár að komast að skaðsemi tóbaksreykinga, en meira að segja vísindamenn, sem kvaddir voru fyrir þingnefndir sóru og sárt við lögðu að tóbakið væri skaðlaust. 

Nú vaknar spurningin hvort það þurfi að bíða í nokkra áratugi með rafretturnar eins og með tóbakið. 


mbl.is Tengja rafrettur við sjaldgæfan lungnajúkdóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhrifamesta línuritið: Olíuöldin.

Dæmi um forsögulegar aldir í sögu mannkynsins, sem hafa dregið nafn af því hráefni, sem markaði upphaf þeirra, eru steinöld og bronsöld. Olíuöldin, framleiðsla

Á síðustu öldum er líklegt að orkugjafar geti gefið slíku nafn, svo sem olían. 

Á línuritinu hér við hliðina er olíuframleiðsla/olíunotkun jarðarbúa sýnd frá árinu 1900-2100, eða í 200 ár. 

Notkunin eftir 2020 er byggð á ágiskunartölum, þar sem tekið er með í reikninginn hve miklar olíubirgðir eru í jörðu og hve hagkvæmt er að nýta þær. 

Þarna sést að nú er olíunotkunin sjö sinnum meiri en árið 1950, og verður sjöfalt minni á ný árið 2100. 

Það er ekkert langt þangað til, 80 ár, uþb mannsaldur, eða jafnlangur tími og liðinn er síðan 1940 þegar notkunin var tíu sinnum minni en nú. 

Meginlínan lítur út eins og hátt hátt og bratt fjall, sem rís af jafnsléttu. 

Af því að maðurinn á sér tugþúsunda ára forsögu á jörðinni, en olían kom ekki að neinu ráði við sögu í orkugjafasögu jarðarbúa fyrr en fyrir um einni öld, er línurit, sem dregið er upp um orkunotkun jarðarbúa frá upphafi mannkynssögunnar eins og ógnarstór pjótsoddur þegar hann er settur á láréttan skala, sem spannar feril mannkynsins, og eins og snarbrattur fjallsindur á láréttum skala yfir þann tíma sem er liðinn frá upphafi iðnbyltingar fyrir um 250 árum. 

Og svo er vísindunum fyrir að þakka, að vitað er með nægilegri vissu hvernig þessi olíuöld mun enda; framleiðslan mun hrapa hratt þegar líður á 21. öldina, þannig að þegar litið er yfir sögu mannkynsins rís þetta linuritsspjót upp eins og hrikaleg sprenging á sekúndubroti, miðað við árþúsundin mörgu. 

Alveg burtséð frá hlýnun loftslags er þetta stóra verkefnið, sem bíður mannkynsins, því að engin ein orkulind getur komið í stað olíunnar, ekki einu sinni kjarnorkan, sem er í rauninni ekki endurnýjanleg orka, vegna þess að úraníum er takmörkuð auðlind. 


mbl.is Sekúndubrot að klúðra málum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Í lagi - ekki í lagi..."

Tölur um tæki og fólk byggjast yfirleitt á því að telja fjölda viðkomandi fyrirbrigða og nota þær. 

En í raun fer því fjarri að þessar tölur séu endanlegar, því að oftast er stór hluti þeirra annað hvort ónothæfur eða ekki í óaðfinnanlegu ástandi.  

Þannig verður eigandi þyrlna að gera ráð fyrir því að enda þótt hann eigi fjórar þyrlur, geti það komið fyrir í rekstrinum að aðeins ein þeirra sér nothæf og tiltæk. 

Það, að einhver kvilli hrjái, tímabundið eða alltaf, þarf þó ekki að þýða það að viðkomandi sé óvinnufær; það fer eftir atvikum og eðli máls. 

Fyrir nokkrum árum vakti athygli sú frétt um herstyrk Þjóðverja, að minnilhuti herflugvéla þeirra væri í nothæfu ástandi, og svipað á við um flest svið athafna manna, líka færni þeirra sjálfra. 

Um það getur gilt svipað og var í gamla Hafnarfjarðarbrandaranum um bifreiðaskoðun þar í bæ, þar sem stöðvaður var bíll til þess að gera skyndikönnun á ástandi ljósabúnaðar. 

Annar lögreglumaðurinn stóð fyrir framan bílinn, lét hinn standa fyrir aftan bílinn til að tékka á stefnuljósunum um leið og bílstjórinn var látinn gefa stefnuljós. 

Lögreglumaðurinn, sem stóð fyrir aftan bílinn gaf greið og nákvæm svör um ástand stefnuljósanna: 

"Í lagi - ekki í lagi - í lagi - ekki í lagi..." 


mbl.is Heilsubrestur hrjáir fjórðung þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný tækni getur skapað nýjar ógnir.

Á myndbandi einu á Youtube fer bílaskoðari einn í vikulanga tilraun með að nota Tesla 3. 

Í lokin talar hann fjálgur um tíu einstæðar tækninýjungar í þessum eina bíl, sem hugsanlega verði innan tíðar hægt að stjórna mannlausum úr fjarlægu landi.  

Engir speglar eru á bílnum, heldur sýna myndavélar það, sem helst þarf að sjá, en undratækið er þó skjárinn í miðju bílsins, þar sem bílstjórinn getur séð stöðu hans jafnóðum í flókinni og þéttri umferð á fjölförnum gatnamótum og brugðist við því, eða jafnvel látið bílinn sjálfan leysa dæmið.  

Einn af dýrustu BMW bílunum býður upp á lygilega þjónustu, svo sem að eigandinn komi þreyttur heim eftir vinnu, staulist út úr bílnum til að komast beint inn í hús sitt, en noti um leið app á símanum til þess að bíllinn sjái sjálfur um afganginn, fari í gang, opin bílskúrsdyrnar, aki inn og stansi þar, loki dyrunum á eftir sér og drepi sjálfur á sér og læsi sér og dyrunum um leið og ljósið er slökkt. 

Öll þessi rosalega tölvutækni nútímans býr því miður ekki yfir góðum eiginleikum, heldur óttast jafnvel þjóðaröryggisnefndir á borð við þá norsku það, að óprúttnir aðilar geti hvorki meira né minna ógnað þjóðaröryggi með því að smokra sér inn í þennan villta heim tölvuforrita og sjálvirkni. 

Þar með þurfi að banna umferð Tesla bíla og kannski líka sumar dýrustu gerðir annarra bíla nálægt hernaðarlega mikilvægum stöðum og herbúnaði. 


mbl.is Segja Tesla ógn við þjóðaröryggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband