Skyldleiki við Heklu? Bárðarbunga líklegri?

Skjálftinn sem varð 30 kílómetra fyrir norðvestan Surtsey varð í raun um 20 kílómetrum fyrir vestan Þrídranga, sem eru ystu útvörður Vestmannaeyja í vestri. 

Surstey liggur á sjálfri aðalsprungu eyjanna, sem liggur í gegnum megin eyjaklasanna sjálfan með stefnu frá Eyjafjallajökli. 

Er nafn jökulsins vel við hæfi. 

Skjálftastaðurinn nú er það vestarlega, að sé miðað við megin stefnuna NA-SV ætti þessi staður allt eins og að falla undir stefnu á Heklu. 

Hekla er fyrir nokkrum misserum búin að þenjast talsvert út fyrir stöðu sína fyrir gosið 2000 og er, miðað við aðdraganda fyrri gosa á síðari hluta 20. aldar, því líkleg til að gjósa hvenær sem er með sínum afar litla fyrirvara. 

En ekkert sérstakt hefur verið að sjá við fjallið og því spurning hvort skjálftastaðurinn nú sé eitthvað sem kallast á við línuna í heild. 

Eða hvort einhver tengsl séu við hið þekkta jarðskálftasvæði á Suðurlandi. 

Um þetta skortir síðuhafa þekkingu. 

En sé skimað lengra til norðausturs, allt til hinnar mikilfenglegu Bárðarbungu, er annað uppi á teningnum.  

Þar eru myndarlegir skjálftar án gosóróa með reglulegu millibili. 

Og Öræfajökull er í útþenslu, sem á sér ekki hliðstæðu á síðari tímum, og engar hliðstæður að finna við fyrri gos hvað mælingar snertir, frekar en um Eyjafjallajökul 1999-2010.

Síðan er það tíminn sem er að koma á rusk í Grímsvötnum. 

En ætli Bárðarbunga gæti ekki verið að komast í fremstu stöðu?


mbl.is Jörð skalf við Surtsey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Golfiðkendur eru hluti af stærri hópi. Stytting vinnutíma?

Átakspunktarnir í stóra klukkumálinu eru farnir að skýrast.

1.

Annars vegar er um að ræða áhrif núverandi stillingar á lýðheilsu fólks á tímabilinu frá nóvember til febrúar, samtals fjóra skammdegismánuði. 

Stærstu og viðkvæmustu hóparnir er ungt námsfólk sem verður meira fyrir barðinu á kolskakkri klukku en aðrir, skekkju upp á  1 klst 40 mín seinkun hádegis í febrúarbyrjun í Reykjavík, en á svæðinu vestan Þjórsár, Langjökuls og Hrútafjarðar búa 80 prósent þjóðarinnar.

Stórir hópar fólks þurfa líka á góðu þreki að halda strax í byrjun vinnudagsins í stað þess að vera að reyna að vinna upp slen eftir ófullnægjandi svefn og áhrif myrkursins. 

Til að gera ástandið enn verra vill svo óheppilega til, að einmitt á þessu skammdegistímmabili færist hádegið sjálft og þar með birtutíminn til um heilan hálftíma og það í verri áttina. 

2.

Hins vegar er um að ræða hóp, sem hefur stækkað mikið á síðustu árum, útivistarfólk og ferðafólk. Fyrir þetta fólk skiptir mestu máli að sól sé sem hæst á lofti síðdegis. Sólarhæðin ein skiptir miklu máli um hita og aðstæður vegna þess hve norðarlega landið liggur. Það getur skipt máli um lýðheilsu að iðkendur utanhússíþrótta og útilífs hafi sem drýgstan tíma á þessu tímabili ársins. 

Þótt það sé rétt hjá helstu sérfræðingum í sólargangi að vökutími í björtu í skammdeginu lengist minna samtals við seinkun klukkunnar en ef hún væri látin vera óbreytt, er hinn viðkvæmi tími, sem vinnst á morgnana líklega dýrmætari en sá sem vinnst á kvöldin. En þetta er að sjálfsögðu álitamál. 

 

Eina sjáanlega leiðin til að sætta þessi tvö ólíku sjónarmið er að taka á ný upp tvær stillingar á ári og seinka klukkunni yfir vetrartímann. Þetta hafa margar þjóðir gert, en eru sumar orðnar jafnþreyttar á því og við vorum fyrir hálfri öld, þegar "hringlið með klukkuna" var í gildi og hafður sérstakur sumartími, sem síðar varð að eina tímanum, sem notaður hefur verið hér. 

Sú spurning vaknar, úr því að nú stendur yfir kjaradeila, hvort ákvörðun um styttingu vinnutíma gæti orðið hluti af lokalausn. 

Þetta mál snertir hvern einasta mann mikið og það þarfnast afar víðtækrar og gagngerðrar skoðunar. 


mbl.is Gæti leikið golfiðkendur grátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. mars 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband