Lengi lifir nærsýnin.

Það þarf ekki viðamikla rannsókn til þess að komast að þeirri niðurstöðu að Íslendingar hafi notið góðs af miklum vexti þjóðartekna á síðasta áratug. 

En það er mikil einföldun að þakka það hlýnun loftslags jarðar þegar við blasir að megnið af þessum uppgangi er að þakka fordæmalausum vexti ferðaþjónustu, sem í upphafi byggðist á einu töfraorði: Eyjafjallajökull.  

Eldgosið þar kom Íslandi á varir alls mannkynsins og til þess að hnykkja á hinni gríðarlegu kynningu, sem Ísland hlaut, varð annað og ekki síður skætt eldgos árið eftir. 

Hlýnun eða kólnun loftslags hafði ekkert með þetta að gera, heldur var það fyrst og fremst hið einstæða samspil elds og íss auk sérstöðu hins eldvirka Íslands sem skóp stórauknar tekjur landsmanna. 

Hluti af þeirri ímynd, sem hægt var að "selja" fólst í jöklum landsins, og ef litið er aðeins lengra fram í tímann mun tapið af hvarfi jökla á borð við Snæfellsjökul ekki verða bætt. 

Í "niðurstöðum vísindalegrar rannsóknar háskóla" felst hrópandi mótsögn við hið alþjóðlega orð, sem notað er um háskóla: "University", sem felur í sér víðsýni og djúpa hugsun, alls óskylda því að dæmalaus uppgangur ferðaþjónustunnar á Íslandi sé hlýnun loftslags að þakka. 

Það er dæmi um mikla nærsýni í stað víðsýni, að öllu skipti fyrir hverja þjóð að einblína á tærnar á sjálfri sér og taka allra þrengstu skammtímahagsmuni fram fyrir miklu stærri hagsmuni, sem felast meðal annars í því að takast á við þverrandi auðlindir vegna rányrkju, bruðls og græðgi jarðarbúa. 


mbl.is Íslendingar hagnast á hnatthlýnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki batnar það í MAX-málinu. Viðbrögð Icelandair verða áhugaverð.

Leitun er að flugfélagi utan Ameríku, sem hefur haldið meiri tryggð við flugvélaframleiðanda en Icelandair hefur gert gagnvart Boeing-verksmiðjunum. 

Sú tryggð átti sér ákveðið upphaf í fyrstu þotum Flugfélags Íslands, sem voru af gerðinni Boeing 727, og enda þótt Icelandair flygi á tímabili þotum af gerðinni DC-8 63, sem Loftleiðir höfðu notað, og væru á tímabili með DC-10 í huga, urðu farsælar þotur af gerðinni Boeing 757 fyrir valinu við framtíðarendurnýjun flotans á tíunda áratugnum. 

Senn eru liðnir þrír áratugir einlægrar tryggðar Icelandair við Boeing þar sem ekki hefur verið litið við þotum aðal keppinautarins, Airbus, þótt margir álitlegir kostir hafi verið í boði.  

Nú hefur verið gefið út hjá Icelandair að í alvöru verði skoðað að hverfa alveg frá Boeing-stefnunni og opnað á það að fara yfir á Airbus vegna MAX hneykslisins, sem verður æ verra með hverri viku. 

Þetta eru eðlileg viðbrögð hjá Icelandair, jafnvel þótt á endanum verði notast við vélar frá bæði Boeing og Airbus, því að engin ástæða fyrir Icelandair annað en að selja sig dýrt og gefa ekkert eftir í viðskiptunum við Boeing.  

Í fréttum af því að Icelandair taki Boeing 767 og eina 757 á leigu í stað MAX vélanna, er ekki minnst á það mikla tap sem félagið verður fyrir vegna mun meiri eldsneytiseyðslu þessara véla heldur en á Boeing MAX 8 og Airbus 320neo. 

Þetta óhagræði leggst ofan á annað tjón sem missir MAX-vélanna hefur í för með sér. 

Það er skiljanlegt að vera ekki að mála ástandið of dökkum litum, því að þetta tjón telur í efnahagsreikningnum sem er býsna rauðlitaður um þessar mundir. 

Hjá Boeing reyna menn allt hvað þeir geta að firra stjórnendur ábyrgð, þótt vitað sé, að ákvörðun um að slaka á ítrustu kröfum um öryggi ofar öllu öðru hjá Boeing og setja markaðsmálin framar ef nauðsynlegt væri, var tekin í innsta hring þegar árið 1998. 

Þegar MAX-vandræðin bætast nú ofan á 787 vandræðín hér um árið, og undanbrögð ár aftur í tímann eru afhjúpuð, eru það ansi skilningssljóir stjórnendur sem þráast enn við að taka af djörfung á vandanum og fatta ekki, að ekkert er neitt í líkingu við traust, sem æðsta keppikefli í flugi. 

 


mbl.is Þögðu um gallann í meira en ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. maí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband