Alveg hliðstætt við ölvun en viðgengst í raun.

Vinur minn ók fyrr í vetur að gatnamótum og stöðvaði bíl sinn, vegna rauðs umferðarljóss. 

Hann sá þegar hann leit í baksýnisspegil að bíll kom á miklum hraða aftan að hónum í nokkur hundruð metra fjarlægð og nálgaðist hratt. 

Án þess að vinur minn fengi nokkra rönd við reist ók þessi aðvífandi bíll beint aftan á hann, eyðilagði bílinn í hörðum árekstri og veitti vini mínum hálsáverka, svo að hann gekk með hálskraga á eftir. 

Frænka mín lenti í sams konar árekstri fyrir nokkrum árum og axlarbrotnaði svo illa, að hún glímdi við afleiðingarnar í meira en ár á eftir og nær sér sennilega aldrei. 

Sjálfur var ég á rafreiðhjóli í upphafi árs og mætti þar manni á rafreiðhjóli, sem tók fyrirvaralaust upp á því að sveigja í veg fyrir mig, svo að ég axlarbrotnaði og skaddaðist á hné í árekstrinum. Hann hafði verið að lesa á mæli án þess að fylgjast hjólastígnum framundan. 

Þetta er ný og hraðvaxandi orsök umferðarslysa hér á landi og það er bara yppt öxlum yfir því, þótt verið sé að myndast við einhverja sekt. 

Og meira að segja því andmælt í athugasemd hér á síðunni að athugun Samgöngustofu á þessum nýja vanda sýni, að þessi orsök alvarlegra slysa og banaslysa sé orðin tíðari en slík slys af völdum ölvuaraksturs.

Öðru máli gegnir greinilega í Bretlandi. Þar er stórstjarnan David Beckham staðinn að notkun farsíma undir stýri án þess að nokkurt slys hljótist af, en missir ökuréttindin í hálft ár.

Þetta var að vísu vegna þess, að hann fékk sex punkta fyrir þetta brot, og hafði áður fengið sex punkta fyrir hraðakstur, 95 km hraða í stað 30, en 12 punktar samtals leiða af sér ökuleyfissviptingu í Bretlandi. 

Spurningar vakna um það, af hverju sé ekki takið harðara á og fylgst betur með snjallsímanotkun undir stýri hér á landi. 

Og hvers vegna harðari viðurlög liggi við ölvunarakstri en sjallsímanotkun, þótt snjallsímanotkunin sé engu skárri, jafnvel verri.  

 


Gamla sagan um ugluna og ostbitann. "Fallega ... flugið tók..."

Á æskuárum las maður ævintýrið um ugluna, sem tók að sér að skipta ostbita á milli tveggja dýra, sem rifust um hann, og hafði uglan þá aðferð að hefja skiptastarfið með því að skipta bitanum í tvo misstóra bita. 

Við þetta jókst ósættið, svo að uglan bauðst til að skipta bitanum aftur. 

Hún tók væna sneið af stærri bitanum til að minnka hann, en stakk jafnframt það sem hún sneyddi af og stakk upp í sig. 

Aftur varð ósætti um skiptinguna, svo að uglan gerði aðra tilraun og notaði á ný sömu aðferð og fyrr, að taka sneið af þeim bita sem nú var orðinn stærri og stinga afgangs bitanum upp í sig. 

Enn varð ósætti og aftur lék uglan sama leikinn nokkrum sinnum þangað til sáralítið var orðið eftir af upprunalega ostbitanum. 

Þá var dýrunum nóg boðið og kröfðust þess að fá bitann til sín. 

En því neitaði uglan; sagðist eiga kröfu á launum fyrir skiptastarfið og stakk því sem eftir var upp í sig. 

Fáir íslenskir skiptastjórar komast svona langt, en ef þeir eru iðnir við að fá skiptamál í hendurnar á löngum ferli, gætu þeir notað afbrigði af aðferð uglunnar. 

Um miðja síðustu öld kom sýslumaður nokkur sér upp stærsta bókasafni landsins í einkaeigu, og var pískrað um það og dylgjað hvernig hann hefði farið að við að safna bókunum, allt ósannað í því efni.

Þegar hann hvarf loks á vit feðgra sinna varð samt til visa, sem varð landsfleyg, svohljóðandi, nema að í stað nafns eru hér settir stafirnir Xx:  

 

Fallega Xx flugið tók; 

fór um himna kliður. 

Lykla-Pétur lífsins bók 

læsti í skyndi niður. 

 

Við fráfall þekkts vinar míns og flugstjóra um síðustu aldamót, sem hét sama eigin nafni og sýslumaðurinn, kom síðuhafa í hug svipuð vísa, af því að talað var um flug í skiptastjóravísunni. 

Flugstjórinn hafði skrifað metsölubók um ævintýralega ævi sína þar sem hann komst á ótrúlegan hátt lifandi í gegnum þátttöku í Orrustunni um Bretland jafnframt því að ganga hressilega um gleðinnar dyr, enda var þessi flugstjóri einhver mest heillandi persónuleiki sem ég hef kynnst.  Vísan er svona: 

 

Fallega Xx flugið jók

í faðm á eilífðinni. 

Lykla-Pétur ljóskur tók 

og læsti í skyndi inni. 

 

Mér fannst ekki hægt að lofa þessari vísu um flugmann að verða til nema láta vísuhöfundinn sjálfan fá svipaða umsögn í eftirmælavísu um veikleika hans sjálfs þegar hann sneri tánum upp: 

 

Fallega Ómar flugið tók; 

fór um himna kliður. 

Lykla-Pétur Prins og Kók

í panik læsti niður.  


mbl.is Ófremdarástand vegna eftirlitsleysis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. maí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband