Hver maður á hjóli með ökuréttindi á bíl skapar rými fyrir einn bíl.

Greinilegt er af samræðum síðuhafa á vespuhjóli sínu við ýmsa bílstjóra, sem verða á vegi hans, sýna, að mjög skortir á að allir hafi hugsað samspil bíla og hjóla í umferðinni til fulls.Vélhjól í Barcelona

Sum af þessum samtölum hafa farið fram á þann veg, að bílstjóri, sem bíður eftir grænu ljósi á gatnamótum, þar sem ég hef beðið samhliða honum eftir grænu ljósi, hefur rúllað niður hliðarglugga og skammast yfir veru minni og skipað mér að hunskast aftast í bílaröðina fyrir aftan okkur. Þar beri mér að vera. 

Ég hef svarað þessu á þann veg að vespan (Honda PCX 125 cc) sé fullgild í umferðinni á við bíl, geti farið á hverjum löglegum hraða sem er um vegakerfið og sé tryggð til fullnustu. Vélhjólastæði í Barcelona

Þar að auki hafi vélhjólamaður, sem fer þannig í gegnum umferðina að hann trufli ekki nokkurn mann né raski stöðu hans í raun orðið til þess að skapa rými fyrir einn bíl. 

Ef vélhjólamaðurinn væri á bíl, myndi hann taka upp fullt rými fyrir þann bíl. 

Ekki þarf annað en að vera á ferð í erlendri borg, eins og síðuhafi er nú, til að sjá hvílík gagnsemi fyrir umferðina í heild felst í því að ekki séu allir á ferð á fullstórum bíl. 

Víða má sjá sérstök stæði fyrir vélhjól, þar sem fimm vélhjól taka álíka mikið rými og einn bíll. Vélhjól í Barcelona (2)

Í raun á hið sama við ef maður með réttindi til aksturs bíl ferðast reiðhjóli, rafreiðhjóli, rafmagns- eða bensínknúinni vespu um hjólastíga með 25 km hámarkshraða, ekur ekki á bíl sínum, heldur á ökutæki utan bílvegakerfisins. 

Af þeim sökum er full ástæða til að bæta stígakerfið, sem víða er bæði lélegt, ófullkomið og óhentugt þótt miklar framfarir hafi orðið í lagningu hjólastíga. 

Þess má geta að á leið í bíl um hraðbraut við Lyon í Frakklandi fyrir nokkrum árum, varð klukkustundar töf við borgina vegna umferðarþungans sem þar var. 

Til gamans og fróðleiks kastaði ég tölu á vélhjól sem smokruðu sér í gegnum þröngina í hálftíma, og voru hjólin 78 með rúmlega 100 manns. 

Ef þetta fólk hefði ekki valið þennan ferðamóta, hefðu verið 78 fleiri bílar í kösinni og töfin lengri. 

 


mbl.is Leggja 2,4 kílómetra af hjólastígum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstaða Íslands blasir við á kortinu.

Sérstaða Íslands gagnvart öðrum löndum, bæði vestan hafs og austan, blasir við þegar litið er á kortið. 

Það er sjálfsagt mál að Ísland taki þátt í hverju því alþjóðasamstarfi, sem nauðsyn ber til. 

En það má ekki hundsa sérstöðuna, og ef það er leyfilegt að fara fram á samninga vegna sérstöðu Íslands, á að gera það hiklaust, og þarf ekki að fyrirverða sig neitt fyrir það. 

Allt of lítið hefur verið um það að kanna þessa sérstöðu sem best og kynna hana sem víðast. 

Eitt lítið dæmi eru samgöngur.

Helsti alþjóðaflugvöllur Íslands er um 1300 kílómetra eða meira frá sambærilegum flugvöllum erlendis. 

Í Evrópu er hvarvetna hægt að reikna með varaflugvelli í margfalt minni fjarlægð. 

Það skapar sérstöðu okkar. 

Íslendingurinn getur ekki hlaupið upp í hraðlest til Evrópu né öfugt. 

Langt mál er að fjalla um þetta. 

En nú verður að taka þann slag loksins almennilega á þeim fjölmörgu sviðum, þar sem sérstaða okkar er óumdeilanleg.  

Þótt það verði að viðurkennast að oft hafi menn teygt sig ansi langt þegar þeir hafa talað um "séríslenskar aðstæður", er nauðsynlegt að kryfa hvert mál sem best til mergjar og komast að sem traustastri niðurstöðu. 


mbl.is Verið að samþykkja óheft flæði raforku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Eitthvað annað" var til allan tímann.

Það er athyglisvert að skoða greiningu útlendinga á því sem verið hefur að gerast á Íslandi síðustu áratugina.

Það minnir á þá áratugi, sem íslenskir ráðamenn lögðu sívaxandi áhersla á stóriðju sem það eina sem gæti "bjargað" Íslandi og einstökum landshlutum þess, var jafnframt lögð vaxandi áhersla á að tala niður allt annað, sem gæti komið til greina í staðinn eða samhliða stóriðjunni. 

Með því að ráðamenn sendu 1995 sérstakan betlisbækling til helstu stóriðjufyrirtækja heims með loforðum um lægsta orkuverð í heimi, lægra en fátækustu þróunarlönd gátu boðið og "sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum",  var þessi stefna keyrð til hins ítrasta. 

Til varð skammaryrðið "eitthvað annað" sem fáfengilegt hjal "öfgafulls afturhaldsfólks, sem væri á móti rafmagni, á móti atvinnuuppbyggingu og vildi fara aftur inn í torfkofana."

Síðuhafi var í blaðagrein sagður hafa "barist um langan aldur með öllum tiltækum ráðum gegn mannlífi og atvinnuppbyggingu," orðinn elliært skar og útbrunninn. 

Eitt af því allra fáfengilegasta samkvæmt þessum áróðri var fánýti alls tals um minnstu möguleika landsins sem ferðamannalands. 

Nú hafa árin 2011 til þessa dags heldur betur sýnt að "eitthvað annað" var ekki aðeins til allan tímann, heldur hefur einstaklega langa og mikla efnahagsuppsveiflu og atvinnusköpun mátt rekja til ferðaþjónustunnar.  

Nú eru menn afar uppteknir við það, að stefnt sé í hrun með samdrætti ferðaþjónustu, sem óx með stjarnfræðilegum hraða frá 2011. 

Þá getur verið hollt að líta á, að þrátt fyrir samdráttinn er ferðaþjónustan þó stærri nú en hún var á árinu 2016 þegar hún var orðin svo stór, að menn töluðu þá réttilega um ævintýralega stærð, margfalt stærri en aðeins fáum árum fyrr. 


mbl.is Sprenging í komu ferðamanna útskýrð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband