"Eitthvað annað" var til allan tímann.

Það er athyglisvert að skoða greiningu útlendinga á því sem verið hefur að gerast á Íslandi síðustu áratugina.

Það minnir á þá áratugi, sem íslenskir ráðamenn lögðu sívaxandi áhersla á stóriðju sem það eina sem gæti "bjargað" Íslandi og einstökum landshlutum þess, var jafnframt lögð vaxandi áhersla á að tala niður allt annað, sem gæti komið til greina í staðinn eða samhliða stóriðjunni. 

Með því að ráðamenn sendu 1995 sérstakan betlisbækling til helstu stóriðjufyrirtækja heims með loforðum um lægsta orkuverð í heimi, lægra en fátækustu þróunarlönd gátu boðið og "sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum",  var þessi stefna keyrð til hins ítrasta. 

Til varð skammaryrðið "eitthvað annað" sem fáfengilegt hjal "öfgafulls afturhaldsfólks, sem væri á móti rafmagni, á móti atvinnuuppbyggingu og vildi fara aftur inn í torfkofana."

Síðuhafi var í blaðagrein sagður hafa "barist um langan aldur með öllum tiltækum ráðum gegn mannlífi og atvinnuppbyggingu," orðinn elliært skar og útbrunninn. 

Eitt af því allra fáfengilegasta samkvæmt þessum áróðri var fánýti alls tals um minnstu möguleika landsins sem ferðamannalands. 

Nú hafa árin 2011 til þessa dags heldur betur sýnt að "eitthvað annað" var ekki aðeins til allan tímann, heldur hefur einstaklega langa og mikla efnahagsuppsveiflu og atvinnusköpun mátt rekja til ferðaþjónustunnar.  

Nú eru menn afar uppteknir við það, að stefnt sé í hrun með samdrætti ferðaþjónustu, sem óx með stjarnfræðilegum hraða frá 2011. 

Þá getur verið hollt að líta á, að þrátt fyrir samdráttinn er ferðaþjónustan þó stærri nú en hún var á árinu 2016 þegar hún var orðin svo stór, að menn töluðu þá réttilega um ævintýralega stærð, margfalt stærri en aðeins fáum árum fyrr. 


mbl.is Sprenging í komu ferðamanna útskýrð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki fór eins og "eitthvað annað" liðið hélt fram, að álver og virkjanir kæmu í veg fyrir alla uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Ferðamenn mundu ekki vilja koma til lands þar sem stórar virkjanir væru, álver og málmbræðslur.

Enda var "eitthvað annað" liðið óneitanlega öfgafullt afturhaldsfólk sem var á móti rafmagni, á móti atvinnuuppbyggingu og vildi fara aftur inn í torfkofana. Og síðuhafi barist lengi, og berst enn, með öllum tiltækum ráðum gegn mannlífi, atvinnuuppbyggingu og störfum sem borga töluvert yfir lágmarkslaunum. Að halda einhverju öðru fram er sögufölsun. 

Ferðaþjónustan stóð ekki til boða og það var ekki hægt að bíða og reikna með því að eldgos gerði okkur fræg og að hún mundi springa út eftir 15 ár. Auk þess sem hún hefur aðallega verið á suðvestur horni landsins en ekki fyrir austan þar sem störf og uppbyggingu vantaði strax. Og hrunið verður eðlilega, og bítur hvassast, aðallega á suðvesturhorni landsins.

Það mætti e.t.v. bursta rykið af helstu tillögum  "eitthvað annað" liðsins og leggja til að atvinnulausir Reykvíkingar verði sendir í vettlingaprjón og fjallagrasatínslu.

Hábeinn (IP-tala skráð) 7.6.2019 kl. 11:55

2 Smámynd: Þórhallur Pálsson

Sú kenning að stóriðjan skaðaði ferðaþjónustuna hefur afsannast með afgerandi hætti.  Við getum verið fegin að hafa ekki öll eggin í einni körfu, því þegar samdráttur verður í einni atvinnugrein er önnur stöðug.
Það væri líka gaman að sjá meðaltal tekna stóriðjustarfsmanna annars vegar og starfsmanna í ferðaþjónustu hins vegar.
Sjö undanfarin ár hef ég tekið á móti ferðamönnum við Kárahnjúkastíflu (á vettvangi "glæpsins").  Þangað hafa komið um tíu þúsund ferðamenn á hverju sumri þessi sjö ár og hefur ekkert dregið úr því. Nær allir sem þangað koma eru til þess komnir að skoða mannvirkið.  Ég man ekki eftir nema e.t.v tveimur til þremur sem hneyksluðust á því sem fyrir augu bar. Þvert á móti sýndi fólk þessum mannvirkjum áhuga og lauk upp lofsorði yfir því hversu vel og vandlega þarna var unnið.
Öll mannvirki sem ekki voru nauðsynleg vegna virkjunarinnar hafa verið fjarlægð.
Sama er ekki hægt að segja um þriggja brauta einkaflugvöll á Sauðármelum !

Þórhallur Pálsson, 7.6.2019 kl. 12:39

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Einkaflugvöllurinn" er ekki meira "mannvirki" en það, að hann er algerlega náttúrugerður og hefur gegnt heitinu "flugvöllur" í bráðum 90 ár eftir að Agnar Koefoed-Hansen tjáði Halldóri bónda á Brú áhuga sinn á því að merkja þar nothæfan flugvöll. 

Ég fékk samþykki hjá tíu mismunandi stofnunum og umsaganaraðilum til þess að merkja þarna flugbrautir á flugvelli, sem er af nákvæmlega sama toga og vellir við Herðubreiðarlindir, Kerlingarfjöll, Veiðivötn og Nýjadal, svo að taldir séu aðrir viðurkenndir og alþjóðlega skráðir lendingarstaðir á hálendinu. 

Sauðárflugvöllur er nothæfur flugvöllur fyrir allar flugvélar sem eru notaðar í innanlandsflugi, kom sér vel fyrir marga í sambandi við Holuhraungosið og hefði geta nýst þegar slökkva varð á báðum hreyflum Fokker-vélar þarna yfir svæðinu og búa farþega undir nauðlendingu 2007, en þá var völlurinn ekki skráður. 

Ómar Ragnarsson, 7.6.2019 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband