Útsýnið af Víkurskarði til vesturs hlýtur að hafa gildi.

Er hugsanlegt að menn hafi misst af einu atriði, þegar þeir áætluðu hve margir myndu aka í gegnum Vaðlaheiðargöng: Útsýnið á vesturleiðinni sem tapast við það að fara í gegnum göngin?

Lítum á málið. Þegar bílstjórar koma í gegnum Ljósavatnsskarð á leið til Akureyrar eiga þeir tvo möguleika:

Að beygja til vinstri, aka í gegnum Vaðlaheiðargöng og koma út úr þeim gegnt Akureyri

- eða -

að aka til hægri út Fnjóskadal og um Víkurskarð yfir til Eyjafjarðar. 

Það tekur að vísu um tíu mínútum lengri tíma að aka um Víkurskarð, en þeim mínútum er vel varið vegna þess mikla útsýnis, sem fólk fær við að koma niður af skarðinu Eyjafjarðarmegin og fá að horfa yfir endilangan hinn fagra Eyjafjörð, í stað þess að missa af þessu mikla útsýni eins og þeir sem koma út úr göngunum gegnt Akureyri. 

Þessir 16 aukakílómetrar kosta að vísu peninga í aksturskostnaði, en á móti kemur að sloppið er við það að borga fyrir að aka í gegnum göngin. Jafnvel þótt miðað sé við tímagjald bíla opinberra starfsmanna er útkoman ca núll krónur. 

Ef aðeins er miðað við hlaupandi kostnað, er helmingi minni bílkostnaður fólginn í því að aka um Víkurskarð en göngin. 

Gallinn við Vaðlaheiðargöng, eins mikilvæg og þau eru fyrir öruggar samgöngur á veturna, er sá, miðað við ábatann af akstri gegnum Hvalfjarðargöng, er ábatinn 60 prósent minni; það græðast 16 kílómetrar við að fara í gegnum Vaðlaheiðina, en 40 kílómetrar við að fara undir Hvalfjörðinn.  

 


mbl.is Tekjur af göngunum undir áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðstæður varðandi jarðakaup útlendinga hafa breyst síðan 1994.

Þegar Íslendingar gerðust aðilar að EES-samningnum heyrðust aðvörunarraddir þess efnis, að íslenskar jarðir gætu komist í hundraðatali undir eignarhald útlendinga. 

Var bent á það að jafnvel ESB-þjóðin Danir hefðu fengið samþykkt það undantekningarákvæði gagnvart sumarbústöðum og jörðum í Danmörku þegar Danir gengu í ESB, að það væri alfarið á valdi Dana hvort slíkt yrði leyft. 

Hér heima var hins vegar bent á það, að ekki gilti það sama um Ísland og Danmörku. Ísland væri tvö þúsund kílómetra frá meginlandi Evrópu, en Danmörk skammt frá Þýskalandi.

Sumarhitinn á Íslandi væri um fimm stigum hærri en í Danmörku. 

Svo fór að fjarlægð Íslands og svalt veðurfar áttu vafalaust þátt í því að hrakspár varðandi stórfelld jarðakaup útlendinga rættust ekki. 

En hin síðari ár hefur þetta breyst. Veðurfar hefur hlýnað, og nú er gildi íslenskrar náttúru er orðið heimsþekkt. 

Danir fengu sín ákvæði um eignarhald útlendinga, oft kölluð sumarbústaðaákvæðin, samþykkt án þess að í því fælist sú skoðun að útlendingar færu endilega verr með landið en heimamenn. Hins vegar yrði samt að hafa ástandið í heild undir innlendri stjórn. 

Ummæli Einars Þveræings um það hvort gefa ætti Noregskonungi Grímsey eru athyglisverð í þessu sambandi. Einar sagði, að að sönnu væri þáverandi Noregskonungur hinn vænsti maður, en enginn vissi hins vegar neitt hvernig því yrði háttað hjá arftökum hans. 

Og á þessi rök Einars var fallist. 

Svipuð rök mátti hafa uppi við samþykki EES-samningsins. Þótt óttinn við stórfelld jarðakaup útlendinga virtist ástæðulaus 1994, vissi enginn með vissu þá, hvort aðstæður yrðu óbreyttar aldarfjórðungi síðar.  


mbl.is Vill kaupa eyjuna Vigur í Djúpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sogin og rannsóknarleyfin.

Það eru ekki aðeins erlendir ferðamenn sem ganga sums staðar illa um landið.

Hin undur litfagra náttúruperla Sogin, sem eru gil við suðurenda Trölladyngju á Reykjanesskaga, á ekki jafningja á Suðvesturlandi, og þarf að fara austur á Landmannalaugasvæðið til að finna annað eins. 

Svipaða litafegurð er að finna innst í Hengladölum, en ekki á eins myndrænu og stóru svæði. 

Nýjustu umhverfisskemmdir í Sogunum af völdum vélhjóla eru dapurleg tíðindi og sama að segja um skemmdir í Sveinsgili eystra. 

En Sogin eru hluti af heild sem nær frá Höskuldarvöllum og yfir til Djúpavatns. 

Úr Sogunum rennur Sogalækur meðfram suðurhlíð Trölladyngju og við lækinn skerst lítill en fallegur gróinn gígur inn í hlíðina með látlausum rústum lítils sels í miðjum flötum gígbotninum. 

Meðan þetta svæði var ósnortið var það ánægja margra að ganga á grónum bakka Sogalækjarins upp í mynni Soganna og fara síðan upp á hálsinn milli Soganna og Djúpavatns til þess að skoða þetta einstaklega fallega gil ofan frá. 

Slíkt þar helst að gera í sólskini því að þá myndast björt útgæslun frá fosfórsamböndum í gilinu, sem raunar fangast ekki á myndir teknar með venjulegum myndavélum. 

Fyrir um tveimur áratugum fékk HS orka rannsóknarleyfi á Trölladyngjusvæðinu og nýtti það til þess að leggja upphleyptan verktakaveg beint í gegnum gönguslóðina á bakka Sogalækjarins. 

Vegurinn var lagður til þess að komast að með stórvirk tæki til þess að saga 3000 fermetra borplan inn í mosavaxna hlíðina við gilkjaft Soganna og valda með því miklum umhverfisspjöllum, langt umfram allar skynsamlegar þarfir. 

Vel hefði verið hægt að hafa borplanið nokkur hundruð metrum fjær og leggja veginn ekki í gegnum dýrmæta gönguleið. 

Fyrir þrettán árum ollu vélhjólamenn nokkrum spjöllum hinu megin við hálsinn og voru fluttar fréttir í sjónvarpi af því þar sem þáverandi umhverfisráðherra kom á staðinn. 

Ráðherranum var sagt á staðnum frá margfalt verri spjöllum af völdum HS orku í hálftíma göngufæri en kvaðst ekki hafa tima til að fara þangað. 

Nú eru enn framin umhverfisspjöll með vélhjólum á þessu svæði og aftur er því sleppt að fjalla um verk HS orku, sem hefur fengið rannsóknarleyfi vegna Hvalárvirkjunar og virðist ætla að fara þar eins um og við Sogin.  


mbl.is Segja ferðamenn ganga betur um
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband