Stór myndaskilti við íslensku skriðjöklana?

Fyrst Nýfundnalendingar geta grætt á bráðnun borgarísjaka og frætt ferðamenn í leiðinni um áhrif loftslagsbreytinga er svipað mögulegt hér á landi; stór myndaskilti við íslenska skriðjökla, sem sýna hve gríðarlega þeir hafa skroppið saman á ótrúlega fáum árum.  

Sem dæmi má nefna Gígjökul á Þórsmerkurleið, Sólheimajökul, Skaftafellsjökul, og Breiðamerkurjökul. 

Allir þessir staðir er þegar vinsælir ferðamannastaðir og verða enn áhugaverðari ef þessi stórbrotna eyðingarsaga þeirra er dregin fram á staðnum.  


mbl.is Fylgjast með dauðateygjum borgaríssins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sífellt fleiri staðreyndir varðandi loftslagsbreytingar.

Það er fróðlegt að lesa viðtengda frétt á mbl.is nú rétt í þessu, sem er enn ein viðbótin við samfelldar fréttir af svipuðu tagi í sumar, en allar sýna glögglega á hvaða róli loftslag og veðurfar á jörðinni er með æ hlýjari árum á heimsvísu og öfgarnar í veðrinu æ meiri. 

Langmestu skógareldar sögunnar í Svíþjóð í fyrra, en í Síberíu í ár. 

Til að andmæla þessu sjást ýmsar kúnstugar tilraunir hér á blogginu, svo sem með því að leita uppi eina staðinn í Evrópu í hitabylgjunni, sem var með minna en 30 stiga hita, en það var á ysta útnára meginlandsins, Bretagneskaganum. 

Var sú hitatala, 25 stig, tekin sem sönnun um hinn raunverulega hita í álfunni, þar sem hitametin féllu í hrönnum um allar jarðir og það oftar en einu sinni á mörgum stöðum, allt upp í 43ja stiga hita. 

Í dag reynir annar bloggsíðuhafi að drepa málinu á dreif með birtingu ófullkomins línurit um sólbletti á síðasta árþúsundi, en á línuritið vantar síðustu tíu ár. 


mbl.is Synt um götur Óslóar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lærdómsrík hátíðarhöld vestra.

Ameríkumenn, bæði Bandaríkjamenn og Kanadamenn, hafa löngum lagt sig fram um að gera útihátíðahöld sín sem allra veglegust, fjölmennust, og ekki síst almennust. 

Bærinn Gimli er á stærð við Selfoss, en skrúðgangan þar á Íslendingadaginn hefur verið margfalt stærri og almennari en lengst af hefur þekkist hér á landi. 

Allir, einstaklingar, félög, hljómsveitir, fyrirtæki, stofnanir og starfsstéttir koma með vagna sína og fulltrúa í skrúðgönguna miklu.  

Meira að segja koma bændur úr nágrannabyggðum á dráttarvélum sínum og með fólk í heyvögnum til þess að setja lit á gönguna. 

Ennþá eiga hátíðarhöld 17. júní hér heima talsvert eftir til þess að standa jafnfætis Íslendingunum vestra, en Menningarnótt og Gleðiganga hafa sótt í sig veðrið síðustu áratugi. 

 


mbl.is Lilja á Íslendingadeginum í Norður-Dakóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Því minna flygildi, því nær því að fljúga eins og fugl.

Fyrstu tilraunir mannsins til þess að fljúga með eigin vöðvaafli eins og fugl voru dæmdar til að mistakast. Líkamsbygging mannsins er einfaldlega ekki hönnuð af skaparans hálfu fyrir flug. 

Hljóðlaust loftbelgsflug eins og síðuhafi hefur prófað á litlum loftbelg, kemst nær flugi fuglanna og er einstaklega ánægjuleg upplifun.

Ef hægt væri að hafa loftbelginn minni myndi það nálgast flug fuglanna betur. 

Minnstu vélknúnu, opnu örfisin (ultralight) gefa margfalt meiri tilfinningu fyrir flugi fugla en litlar flugvélar, en hávaðinn í hreyflinum er helsta hindrunin. 

Það er samt magnað þegar fisin eru svona lítil, aðeins 115 kílóa þung, hvað þau eru næm fyrir minnstu ókyrrð í lofti.

Til dæmis þegar stór fugl flýgur þvert í veg fyrir fisið, og fisið tekur á sig hnút ef flogið er í gegnum kjölfar fuglsins. 

Svifvængir komast einna næst flugi fuglanna þegar flugmennirnir komast í uppstreymi lofts eins og við Úlfarsfell og Kamba, þar sem eru meira að segja skilgreind loftrými fyrir þá. 

Svifvængirnir eru nokkurs konar afbrigði af fallhlífum og geta verið knúnir áfram af litlum hreyflum á baki flugmannsins en einnig hægt að svífa á þeim eins og svifflugum og halda þá jafnvel hæð, klifra eða gera fleiri kúnstir ef komist er í uppstreymi. 

Þessir vængir og hreyfillinn eru svo létt, að engan lendingarbúnað þarf; flugmaðurinn hleypur í loftið eins og gæs eða álft og lendir eins og hver annar fugl. 

Flugbretti Franky Zapata er líklega það næsta sem hægt er að komast því að fljúga eins og fugl. 

Því veldur hin einstaka smæð flygildisins, sem er svo lítið, að það sést varla. 


mbl.is Fór yfir Ermarsundið á flugbretti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. ágúst 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband