Aldargamall ferill í skipun dómara athyglisverður.

Í Sovétríkjunu sálugu var það skilyrði sett við val dómara að viðkomandi yrði að vera félagi í Kommúnistaflokknum.  Svipuð heljartök voru viðhöfð í öðrum kommúnistaríkjum. 

Á Íslandi hefur það verið á könnu dómsmálaráðherranna í heila öld að skipa hæstaréttardómarana. 

Og hverjir hafa þá verið dómsmálaráðherrar? 

Það er fróðlegt sem þá kemur upp. 

Stærsti flokkkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn hefur ævinlega komið sinni ár þannig fyrir borð við stjórnarmyndanir sem hann hefur tekið þátt í, að hann fengi dómsmálaráðuneytið. 

Ef um stjórnarsamstarf með Framsóknarmönnum einum hefur verið að ræða, hefur komið til greina að gefa það eftir, en alls ekki verið til umræðu að kratar, "kommar" eða, hin síðari ár Píratar eða aðrir yrðu svo mikið sem nefndir.   

Undantekningar eru áberandi fáar. Á tíma ríkisstjórna undir forystu Framsóknarmanna 1927 til 1942 höfðu þeir að vísu ráðuneytið. Enginn flokkur var með ráðuneytið á tíma utanþingsstjórnarinnar 1942-44. 

En 1944 hófst gósentíð Sjallanna. Fyrsta skeið hennar stóð til 1956, en í vinstri stjórninni 1956-1958 var Framsókn auðvitað með dómsmálin. 

Minnihlutastjórn krata 1958-1959 hafði að vísu dómsmálaráðuneytið, en stjórnin varð að reiða sig á stuðning Sjalla, sem önduðu ofan í hálsmálið á ráðherranum. 

Siðan kom næsta gósentíð 1959-1971 og á tíma vinstri stjórnar 1971-1974 var sama í gildi og í tíma vinstri stjórnarinnar 1956-1958, að Framsókn var með dómsmálin. 

Þegar síðuhafi var í lagadeild HÍ 1961-64 var einn krati þar við nám og einn Framsóknarmaður. Að mestu leyti var deildin hins vegar eins og uppeldisstöð fyrir komandi lögfræðingahjörð Sjálfstæðisflokksins. 

Höldum áfram. 

1974-1978 var enn hægri slagsíðan í gildi, og í skammlífri vinstri stjórn 1978-1979 pössuðu Framsóknarmenn upp á þetta mikilvæga ráðuneyti. 

Minnihlutastjórn krata 1979-1980 var háð stuðningi Sjálfstæðisflokksins sem andaði ofan í hálsmál Vilmundar Gylfasonar. 

1980 til 2009, í 29 ár, einokaði Sjálfstæðisflokkurinn dómsmálaráðneytið og voru að minnsta kosti tvær skipanir hæstaréttardómara afar umdeildar og það ekki að ástæðulausu. 

Jóhönnnustjórnin 2009 til 2013 var að vísu smá hlé á hinu hálf sovéska kerfi, en síðan hafa Sjallar haft dómsmálin í þremur ríkisstjórnum í röð. 

Alls hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í stjórn í 73 ár síðustu 100 árin, eða álíka langan tíma og kommúnistaflokkurinn fór með dómsvaldið í Sovétríkjunum. 

Allan tímann hefur hann til hins ítrasta reynt að liggja eins og ormur á gulli á þeim áhrifum sem yfirráð yfir dómsmálaráðuneytinu gefa. 

Niðurstaðan af því að renna augum yfir valdaferilinn sem er að verða aldargamall ætti að gefa tilefni til að spyrja spurninga um það, hvort þessi eindæma slagsíða sé og hafi verið eðlileg og hvort að það geti hugsanlega verið ástæða fyrir MDE að fara fram á að tekið sé upp sjálfstæði dómsvaldsins á Íslandi gagnvart framkvæmdavaldinu.  

 


mbl.is MDE seilist langt í túlkun á íslenskum rétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langvarandi misskilningur varðandi ESB og Evrópusamstarf.

Í umræðunni um Mannréttindadómstóls Evrópu hefur enn einu sinni skotið upp langvarandi misskilningi varðandi ESB og aðrar stofnanir sem kenndar eru við Evrópu, sem erfitt virðist að kveða niður. 

Einkum ber á þessu hjá þeim sem hafa allt á hornum sér varðandi samband og samvinnu Íslendinga við Evrópu og vilja slíkt feigt. 

Þar má til dæmis heyra því haldið fram, að með Brexit hafi Bretar losað sig við allt samband við Mannréttindadómstólinn og að hægt sé að gera slíkt á mun fleiri sviðum, svo sem í tengslum við Evrópuráðið. 

Þetta er alrangt og hefur verið það í þau sjötíu ár sem liðin eru Evrópuráðið var stofnsett, mörgum árum á undan ESB og með miklu fleiri aðildarþjóðum. 

Sem dæmi um fjölbreytt samstarf Evrópuþjóða án þess að ESB komi nærri, má nefna svonefnt Evrópuþing dreifbýlisins, sem byggist á samstarfi hátt á fimmta tug þjóða allt frá þjóðunum í norðvesturhluta álfunnar og austur fyrir Svartahaf. 

 

 


mbl.is Dómstóllinn sitji á þeirri hillu sem hann á heima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vita menn ekki hvar Hádegismóar eru?

Hér á síðunni hefur of oft þurft að benda á það hve landafræðikunnáttu fjölmiðlafólks virðist oft áfátt. 

Nefnd hafa verið dæmi eins og það að Sandskeið sé á Hellisheiði og Syðri Fjallabaksleið á Fimmvörðuhálsi. 

Oft er svona vitleysa upprunnin hjá fólki, sem vinnur hjá stofnunum  við að hafa samband við fjölmiðla, og ét þá hver fjölmiðillinn vitleysuna upp eftir öðrum. 

Nýjasta dæmið er skondið. Sagt er í tengdri frétt í dag að brú yfir Vesturlandsveg sé á móts við Hádegismóa! 

Má það furðu gegna að slíku sé haldið fram í fjölmiðli á Hádegismóum til móts við Suðurlandsveg og meira en tveggja kílómetra fjarlægð frá Vesturlandsvegi, að Hádegismóar séu við Vesturlandsveg. 

 


mbl.is Ók upp undir brú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. desember 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband