Þúsundir nota ekki bílbelti og fjöldi lötrar enn út við vinstri vegarbrún.

Nú nálgast sá tími þegar hálf öld er liðin frá því að bílbelti fóru að ryðja sér til rúms erlendis og síðar hér. 

Eftir mikla baráttu við fordóma tókst að koma hér á skyldu til að nota beltin, en það dróst þó allt of lengi.

Skipt var yfir í hægri umferð fyrir 52 árum. 

Engu að síður blasir víða við, að enn þann dag í dag er eins og að sumir bílstjórar haldi enn að hér sé vinstri umferð á vegum sem hafa verið tvöfaldaðir og eru með 2-3 akreinar í sömu átt.

Þótt aðstæður séu þannig, að engin beygja er út af veginum til vinstri, aka þeir lúshægt úti á vinstra kanti á akrein, sem ætluð er fyrir hraðari umferð en hinar. 

Og ný könnun er sögð sýna, AÐ þúsundir manna noti ekki bílbeltin, rétt eins og að enn sé hér árið 1968.   


mbl.is Kastaðist út úr bíl í veltu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þarf ekki alltaf "1500 kíló af stáli" til að flytja til 100 kíló af mannakjöti.

Tákn síðustu hálfrar aldar að minnsta kosti hefur verið að allir, sem þurfa að færa sig úr stað, verði að nota til þess einkabíl, sem að meðaltali vegur um 1500 kíló. NSU Prinz og Náttfari.

Í innanborgaraksti er að meðaltali 1,1-1,2 menn í hverjum bíl, sem samsvarar samanlagt 100 kílóum. 

Staðalímyndin hefur verið að koma á slíku tæki til almennra kosninga. 

Nú hefur örlítið verið hreyft við henni þegar forseti Íslands kemur hjólandi á kjörstað. Náttfari, Léttir og RAF

Allt frá því fyrir rúmum sextíu árum þegar síðuhafi hætti að nota reiðhjól og tók upp akstur á minnsta, umhverfismildasta og ódýrasta bíls landsins þá, NSU Prinz 30, sem er þarna á efstu myndinni við hliðina á rafreiðhjóli, hefur fylgt því könnun á möguleikum til þess að einfalda og gera mun ódýrari og skilvirkari aðferðir, sem einstaklingar noti til þess að færa sig á milli staða á sem umhverfismildastan, ódýrastan og einfaldastan hátt. 

Til þess að kanna málið betur hafa nú staðið yfir tilraunir í fimm ár við að finna þessar lausnir, skoða reynsluna og orkueyðsluna við íslenskrar aðstæður. 

Núna eru þessi reynslufarartæki eftirfarandi. 

1. Rafreiðhjól á stystu vegalengdum með 25 km/ klst hraða með orkukostnað upp á 0,3 krónur á kílómetrann. 

2. Rafknúið léttbifhjól í A1 (samsvarar 50 cc) með 45 km hraða og orkukostnað 0,8 kr/km. DSC08853 

3. Minnsta og ódýrasta rafbíl landsins með 90 km hraða og orkukostnað 2,8 kr / km

4. Bensínknúnið léttbifhjól í A2 flokki (samsvarar 125 cc) með 90 km hraða og orkukostnað 5,0 kr/km. 12 kr/km. 

5. Eiginkonan keypti ódýrasta og einfaldasta bílinn á markaðnum 2014, 90 km hraði, 4 sæti og orkukostnaður 12 kr/km. 

Athygli skal vakin á hjólinu á neðstu myndinni, rafknúnu léttbifhjóli í A1 flokki (50 cc) sem nær 45 km hraða, kemst 45 km á hleðslu, en 90 km á tveimur rafhlöðum, því rafhlöðurnar eru útskiptanlegar, sem er ein af gagnlegustu nýjungunum í gerð rafhjóla.

Á þessu hjóli er hægt að hafa með sér aukarafhlöðu í farangurskassanum aftan og ofan á hjólinu, og skipta henni út við þá tómu. 

Auk þess er hægt að hlaða rafhlöðurnar með því að taka þær úr hjólinu. 

Hjólið kostar nýtt 264 þúsund krónur eða talsvert minna en flest rafreiðhjól, og vegna lipurleika síns tvöfalt meiri hraða en á rafreiðhjólunum, skilar því afar vel áfrm í borgarumferðinni.  


mbl.is Kom hjólandi á kjörstað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1940: "Hitler has missed the bus." Núna: "Við sleppum alveg við veiruna."

Stundum verða digurbarkaleg ummæli fleyg, sem sýna óhóflega bjartsýni í erfiðum aðstæðum. 

Nefna má dæmi um tvenn.  

4. apríl 1949 sagði Neville Chamberlain á fundi með þingmönnum Íhaldsflokksins breska um stríðið, sem þá hafði staðið á vesturvígstöðvunum í sjö mánuði án nokkurra tíðinda: "Hitler has missed the bus." 

Hann lýsti því nánar hvernig allt benti þá til þess að Hitler hefði misst af tækifærinu til þess að ráðast af alvöru á Frakka áður en Bretar hefðu sent her sinn til Frakklands, hátt á fjórða hundrað þúsund hermenn með gríðarlega miklu herbúnaði. 

Þjóðverjar kölluðu ástandið "Sitz krieg" og Bretar "Phoney war." 

Það hlakkaði í Chamberlain, sem sá fram á áframhaldandi trausta forystu sína fyrir Bretum. 

Búið var að flytja nær öll börnin, sem höfðu í stríðsbyrjun verið sent frá stórborgum út í sveit, til baka. 

Bretar voru að undirbúa stöðvun á járnflutningum Þjóðverja frá Narvik sjóveg til Þýskalands til að svipta þá öruggu flæði af nauðsynlegu sænsku járni frá Kiruna og Gellivara með því að leggja tundurduflagirðinar utan við Narvik. 

En dýrðin stóð ekki lengi. Aðeins fimm dögum síðar, 9. apríl, varð alger kúvending þegar  Þjóðverjar réðust á Danmörku og Noreg, lögðu Danmörk undir sig á einum degi og náðu þeim yfirráðum strax í lofti yfir Noregi, að Bretar og Frakkar fóru hrakfarir, sem ollu því að í maíbyrjun varð Chamberlain að segja af sér embætti vegna þess máls.

10. maí hófst siðan dæmalaus sigurför Þjóðverja sem lögðu Niðurlönd og Frakkland undir sig á aðeins sex vikum. Bretum tókst að bjarga her sínum vopnlausum yfir Ermasund og misstu allan herbúnað sinn. 

Síðara dæmið eru margítrekuð ummæli Trumps Bandaríkjaforseta í febrúar og byrjun mars um að kórónaveiran væri ekki neitt neitt; ekki til, og að Bandaríkjamenn gætu verið alveg rólegir, því að landið myndi sleppa alveg við hana. 

Því ylli flugbann á Kínverja og afburða sterk staða öflugustu þjóðar heims í sóttvarnarmálum. 

Ummæli dr. Anthony Fauci, hins bandaríska Þórólfs, segir því miður allt aðra sögu. 

 

 


mbl.is Eiga við „alvarlegt vandamál“ að stríða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. júní 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband