Vantar helming fyrirsagnar.

Stundum eru fyrirsagnir frétta þannig, að ef lesandinn les ekki meira en þær, þá getur hann fengið alranga mynd af efni hennar. 

Fyrirsögnin "Faraldrinum er að ljúka" bendir sterklega til, ein og sér, að átt sé við Ísland, enda mest lesin. 

En aðeins tvö orð til viðbótar í fyrirsögninni hefðu getað komið í veg fyrir þennan misskilning: "...í Svíþjóð." 

Fyrirsögnin: "Faraldrinum er að ljúka í Svíþjóð"; það var nú allt, sem þurfti. 

Síðan verður að lesa alla fréttina til enda til að fá að vita, að í fjölmörgum mun fjölmennari löndum í Evrópu og víðar er bylgja faraldursins í fullum gangi og ástandið hið alvarlegasta.   

Frægt varð hér um árið þegar fyrirsögn í DV var: "Bubbi fallinn."  

En það, sem var verst, var, að mynd af þessari stóru fyrirsögn var birt á forsíðu Fréttablaðsins, sem var margfalt útbreiddara blað, án nokkurrar útskýringar, nema að blaðið væri keypt og lesið.  

Á þessum tíma var það stutt frá því að Bubbi fór í meðferð, að fyrirsögnin gaf þá hugmynd, að hann væri fallinn hvað meðferðina varðaði.  

Hið rétta var, að hann var ekki hættur að reykja, sem var auðvitað allt annar handleggur. 

Bubbu fór í mál út af þessari málsmeðferð og vann það að sjálfsögðu. 

Stundum getur svona ágalli í framsetningu fréttar verið brosleg.

Einu sinni var þessi fyrirsögn á einni af íþróttasíðum blaðanna: "Boltinn sprakk og Fram vann."

Svo las maður fréttina og í henni var hvergi minnst á að boltinn hefði sprungið. 

Spurningunni um það atriði hefur ekki verið svarað enn í dag. 


mbl.is Faraldrinum er að ljúka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð frammistaða, en mjög vafasamur dómur tók mark af Englendingum.

Sigur Englendinga yfir góðri leiðsheild íslenska landsliðsins var naumur. Þetta var einn af þessum leikjum, þar sem þrátt fyrir að annað liðið væri mun meira með boltann gat sigurinn fallið á hvorn veginn sem var. 

Íslenska liðið getur borið höfuðið hátt og hefur glettilega góðum efnivið úr að spila við kynslóðaskipti. 

Getur með svipaðri frammistöðu velgt hvaða landsliði, sem er, undir uggum. 

Englendingar voru þó nær sigri en Íslendingar, og má nefna, að Harry Kane skoraði að þvi virtist fyllilega löglegt mark snemma í fyrri hálfleik, því að við endursýningu var ekki annað að sjá en að Kane hefði verið réttstæður, þegar boltanum var spyrnt. 


mbl.is „Erfitt að brjóta Ísland á bak aftur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og blásandi handþurrkarar þyrla bakteríum upp.

Það lítur út fyrir að það séu nýjar fréttir að tvöfalt sinnum fleiri bakteríur séu á skurðarbretti en á klósettsetu. 

Það minnir á frétt fyrir nokkrum árum um það, að nákvæm rannsókn hafi leitt í ljós, að þegar fólk notar blásara til að þurrka á sér hendurna í klósettferð, þyrlist bakteríurnar upp.

Mun betri árangur náist með því nota pappírsþurrkur.  

 

 


mbl.is 200% meira af bakteríum en á klósettsetu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjar tegundir sjúkdóma og farsótta einkenni aldarinnar?

Í sögu mannsins hefur hann gengið í gegnum mörg þróunarstig og breytingar á lífsháttum og aðstæðum. 

Sjaldan hefur hraðinn í þessum efnum verið meiri en síðustu áratugi, knúinn af fólksfjöldasprengingu, neyslugræðgi og tækniþróun, sem hefur fjarlægt milljarða fólks frá fyrri lífsháttum. 

Það er því íhugunarefni hve margt er á hverfanda hveli um þessar mundir, og virðist snerta grunnvelferð mannsins. 

Sannarlega verkefni fyrir þau vísindi sem snúa að heilsu og velferð. 

Þegar miklar breytingar verða á líkamlegu ástandi fólks, hlýtur að liggja beint við að skoða, hvers konar ytri breytingar hafa orðið mestar á síðustu áratugum. 

Er það bylting nets og tölvunotkunar, samþjöppunin í stórborgunum og fólksfækkun í dreifbýli?

 


mbl.is Ofsaþreyta og orkuleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hvíta gullið" + koffein upplegg í faraldur.

Hvítasykur og koffein voru meðal þeirra vörutegunda, sem kallaðar voru nýlenduvörur fram eftir síðustu öld og ruddu sér til rúms þegar Evrópuþjóðir lögðu nýlendur undir sig í Asíu og Afríku. 

Svo eftirsóttur var sykurinn og verðmætur, að hann hlaut viðurnefnið "hvíta gullið" hjá sumum þjóðum.  

Kaffið er ekki eina varan, þar sem hvítasykri og koffeini er blanað saman, heldur kom ný aðferð til sögunnar með tilkomu kóladrykkja á borð við Coca-Cola og Pepsí.  

Á tímabili á siðustu öld var þar að auki selt Jolly Cola og Spur Cola hér á landi.

Þegar Bandaríkjaher kom til Íslands gaf það innreið Coca-Cola byr undir báða vængi, enda eignaðist drykkurinn fulltrúa í stjórninni!  

Forstjóri Vífilsfells, verksmiðju Coca-Cola á Íslandi, Björn Ólafsson, varð ráðherra í utanþingsstjórninni 1942 til 44, og var sú stjórn stundum kölluð Coca-Cola stjórnin. 

Coca-Cola hefur gert tilraunir með að selja koffínlaust kók og sykurlaust kók, og misheppnaðist tilraunin fyrirsjáanlega með koffínlausa kókið; það var ekkert varið í það, vantaði "kikkið." 

Skár hefur gengið með að nota gervisykur, sem er hitaeiningalaus, en fyrir þann, sem drekkur slíkt að staðaldri er það dýrð og dásemd að komast í aðstæður, þar sem aðeins er hægt að fá "the real thing."   

Margir hafa varað við hinni skæðu blöndu, hvítasykur og koffín, sem upplegg í einhvert skæðasta heilsuböl 21. aldarinnar. 

Hámark bölsins, sem felst í mikilli fitusöfnun, var valið á miðjum sjötta áratugnum í "þjóðarréttinum kók og prins", þar sem kexið var með tíu sinnum fleiri hitaeiningar í hverjum 100 grömmum en kókið. 

Súkkulaðineysla jarðarbúa er nú svo mikil, að rætt er um að eftir tiltölulega fá ár, mun  kakóframleiðsla heims hvergi nærri anna eftirspurn.   


mbl.is Sykur getur verið meira ávanabindandi en kókaín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. september 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband