Yfirvöld víða í kröppum sjó í sóttvarnarmálum. Mótsagnir áberandi.

Sviptingarnar í gangi heimsfaraldursins og sóttvarna hinna mismunandi ríkja hafa sjaldan verið meiri en nú. 

Mótsagnir eru víða. Hér á landi voru margir sem fögnuðu því sem ástæðu til eftirbreytni þegar Danir afléttu öllum aðgerðum. Þetta ættum við að gera hið snarasta. 

Ekki var minnst á það í þessu sambandi, að við Íslendingar höfðum gengið næstum eins langt og Danír í afléttingum snemmsumars og urðum síðan að súpa seyðið þegar ný bylgja reis í haust. 

Fólk sem fór til Belgíu í nokkra daga nú um daginn varð að bera grímur allsstaðar, líka úti á götu; annars var lögreglan komin á vettvang. 

Nú virðist stefna í svipað og gerðist í sumar, að með talsverðum tilslökunum hér hefur slaknað á aðgæslunni og veldishlaðin bylgja ríður yfir þegar jólin eru að ganga í garð. 

Andstæðingar bólusetninga krefjast þess sumir að Þórólfur segi af sér, af því að hann beri ábyrgð á þessari bylgju.  

Sumir þeirra, sem halda þessu fram, vilja hins vegar að öllum hömlum sé létt, þvert ofan í það sem gerist í löndunum í kringum okkur.  

Mótsagnirnar eru augljósar þegar fullyrðingarnar og kröfurnar eru svona misvísandi, en það er svo sem ekki að undra þegar litið er til þess hve ástand undanfarinna tæpra tveggja ára hefur verið mikið nýjabrum fyrir mannkynið. 


mbl.is Bólar ekkert á minnisblaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hin eilífa sumargleði", sem Sumargleðin syngur, trufluð af veiru í veldisvexti.

Íslendingar búa í því landi Evrópu þar sem eru köldustu sumur að meðaltali, og meirihluti sumardaganna hjá flestum íbúum landsins eru rigningardagar. Skammdegið svonefnda er kolsvart eins og nafnið bendir til og þá er landið einn vindasamasti staður jarðar, en meðalhitinn er þó svipaður og í Ankara í Tyrklandi.  

Viðbrögð  okkar felast í því að hátíðirnar svonefndu, sem eru fyrir og eftir áramót allt til þrettándans, standa í tæpan mánuð allt frá upphafi aðventu í gegnum ótal aðventuatburði, svo sem komu þrettán jólasveina til byggða og síðar áramótabrenna, álfabrenna o.s.frv. þar sem Grýla og Leppalúði eru auk Álfakóngs og drottningar.  

Bókaflóðið er á sínum stað og á sumrin eru haldnar ótrúlega margar útihátíðir. Sumargleðin og héraðsmótin á undan henni voru hluti af þessari "eilífu sumargleði" sem verður stutt umfjöllunaratriði á Hringbraut í kvöld þegar bók um þetta verður flett.  

Jafnframt bókinni hefur verið gefið út lag og tónlistarmyndband með lokalagi bókarinnar, þar sem Sumargleðin flytur óð til gleðinnar, alls sjö manns, sem sungu og léku á sínum tíma með Sumargleðinni á starfstíma hennar. 

Reynir Jónasson gefur tóninn með harmonikku sinni og með mér í söngnum eru Diddú, Þuríður Sigurðardóttir, Magnús Ólafsson, Þorgeir Ástvaldsson og Grímur Sigurðsson. 

Og þetta er sungið á Hringbraut í kvöld og er líka að finna á facebooksíðunni Omar Ragnarsson. 

 

HIN EILÍFA SUMARGLEÐI. 

 

Er skammdegishríðin, hún geysar um grund, - 

í gaddi er jörðin freðin, - 

og andinn, hann á marga erfiða stund

og andstreymisbölbæn er kveðin 

þá kviknar samt skíma, sem léttir lund

og lífgar upp stirðu geðin: 

:,: í minningaflóði og unaðaróði, 

svo yndisleg sumargleðin :,: 

 

Þegar sólin skín!

söngur gleði´og grín!

Við brosandi blöndum geði. 

Hvílík dýrð og dans!

Dásemt konu´og manns!

Hin eilífa sumargleði!   

 

(Hrópað á ballinu:)  Come on, let´s go, give it to them!

Eru´ekki allir í góðu skapi! Við höldum hátíð í dag!

Nú er dömufrí og allir út á gólfið!

Gerið svo vel að fylgja dömunni til sætis!

Það er bingó og alvöru vinningar en ekki eitthvað, sem fæst á bensínstöðvunum!

 

Já, handan við myrkur og hraglandaél 

í hversdagsins argi´og streði 

sást skíma af birtu gegn harðræði og hel, 

sem himneska von öllum léði. 

Gegn vonleysi og doða kom draumur um vor

og dásamlegt undrið skeði:

:,: í ástríki og hlýju með unað að nýju: 

Hin eilífa sumargleði :,: 

 

Þegar sólin skín, 

söngur, gleði´ og grín!

Við brosandi blöndum geði. 

Hvílík dýrð og dans, 

dásemd konu´og manns. 

Hin eilífa sumargleði. 

 

 

 


mbl.is Emil ekki í Kattholti á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. desember 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband