Óvænt tímamót fyrir réttum 80 árum í stríðinu við Hitler.

Fyrir réttum 80 árum, dagana 4.-6, desember 1941 stóð ein af mikilvægustu orrustum Heimsstyrjaldarinnar síðari, orrustan um Moskvu sem hæst og svo virtist af fréttum, að sigur Þjóðverja væri vís. 

Hersveitir Hitlers komust 2. desember að Khimki brautarstöðinni, sem var og er aðeins 19 kílómetra fyrir norðan Kreml og þýski herinn var í óðaönn að ljúka því ætlunarverki að umkringja það hjarta í hinu miðstýrða alræðisríki, sem Moskva var. 

Leningrad var í herkví og Kiev í Úkraínu fallin. 

Orrustan um Moskvu var þegar orðin að einni af helstu orrustum stríðsins, á pari orrusturnar um Bretland, um Atlantshafið, Stalingrad, El Alamain og Normandy. 

Fram til orrustunnar um Bretland hafði sigurganga Hitlers verið stanslaus allt frá tök Rínarlanda 1936. 

En það sem ekki var vitað, að bandamenn Þjóðverja, Japanir, sem áttu að baki stóra landvinninga í innrás í Kína sem hafði staðið síðan 1937, voru að setja í gang enn stærri sigurgöngu, sem fyrirhuguð var gegn Bandríkjunum og evrópsku nýlenduveldunum í Asíu. 

Það sem aðeins Japanska herstjórnin vissi fyrstu daga desember var að sex flugmóðurskip með meira en 350 árásarflugvélar stefndu með leynd í áttina að flotahöfn Bandaríkjamanna, Pearl Harbor á Hawai og var komin í eins dags siglingarfjarlægð frá þessari höfuðmiðstöð Bandaríkjahers á Kyrrahafi með það ætlunarverk að gereyða degi aíðar þeim meginhluta Bandaríkjaflota sem þar var að jafnaði. 

Japanir áttu lang stærsta flota flugmóðurskipa í heimi á þessum tíma, 11 stykki, en Bandaríkjamenn aðeins 6. Ef hægt yrði að eyða bandarísku flugmóðurskipunum og ððrum orrustuskipum í Perluhöfn, gætu Japanir náð yfirburðastöðu á öllu Kyrrahafi, vestur til Indlands og yfirráðum yfir Ástralíu. 

Þegar þetta tvennt, árásin á Moskvu og árásin á Pearl Harbor, var lagt saman, sýndist blasa við í byrjun desember fyrir 80 árum, að Japanir og Þjóðverjar væru á þröskuldi þess að vinna sigur í stríðinu. 

En á aðeins tveimur dögum varð tvennt til þess að breyta þessari mynd og marka tímamót. 

Rússar hófu óvænta skyndisókn 6. desember með fjórum herjum og þúsundum splunkunýrra T-34 skriðdreka. 

Hluti hersins voru hermenn sem komu frá austurlandamærunum alla leiðina frá Síberíu, vel búnir og þjálfaðir eftir að njósnarinn Richard Sorge hafði komist að því að Japanir ætluðu ekki í stríð gegn Rússum, þrátt fyrir hernaðarbandalag þeirra við Þjóðverja. 

Í samningnum um þríveldahernaðarbandalagið 1940 var aðeins skuldbinding um að aðilar þess skuldbindu sig til að koma hvorir öðrum til hjálpar, ef þeir hefðu orðið fyrir utanaðkomandi árás. 

Japanir voru hins vegar tæknilegir árásaraðilar í stríðinu við Bandaríkjamenn, og veitti ekki af því að beita öllum sínum her í því skyni. 

Í kjölfar hinnar óvæntu gagnsóknar Rússa unnu Rússar frækinn sigur í orrustunni um Moskvu og hröktu Þjóðverja til baka á langri víglínu um veturinn. 

Það voru óvænt tímamót í stríðinu þegar mikilvirkustu skriðdrekar Sovétmanna, T-34, birtust skyndilega þúsundum saman, fljótandi auðveldlega á breiðum beltum sínum á snjóþekjunni á sama tíma sem þýsku skriðdrekarnir sukku í ýmist snjó eða aurbleytu. 

Moskvu var aldrei ógnað eftir þetta í stríðinu og Hitler ákvað að sækja næsta sumar þess í stað til suðausturs og ná hinum mikilvægu olíulindum í Kákasus á sitt vald.

 

 


mbl.is Heimurinn „nær upphafi faraldursins en endalokum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðli öflugra ríkja að sækja inn í tómarúm.

Fáar þjóðir heims hafa sloppið við það að stórveldi seildist til áhrifa hjá þeim þegar breytingar urðu á valdahlutföllum eða tómarúm myndaðist eftir styrjaldir eða aðrar sveiflur. 

Þótt Danir réðu yfir Íslandi komu aldir þegar slaknaði á klónni hjá þeim og stórveldi á borð við Breta og þjóðverja sóttu til áhrifa í viðskiptum. 

Hafa jafnvel heiti eins og enska öldin verið nefnd um slík tímabil.

Eftir Fyrri heimsstyrjöldina voru evrópsku stórveldin í sárum og rísandi stórveldi, Bandaríkin, sótti fram 

En svo skall kreppan á og inn á sviðið stigu Hitler og nasistarnir og heimtuðu að fá að fylla tómarúmið, sem kreppan skapaði. 

Jónas Jónasson, formaður Framsóknarflokksins, varð fyrstur íslenskra ráðamanna til að átta sig á því, að óhjákvæmilega myndu Bandaríkja taka svo afgerandi forystu og sækja inn í tómarúmið, sem myndaðist við hrun öxulveldanna og lömun Breta og Frakka og hrun nýlenduveldis þeirra. 

Þegar Sovétríkjan féllu myndaðist tómarúm í Austur-Evrópu sem Bandaríkin sóttu inn í með afleiðingum, sem nú er verið að fást við á vesturlandaærum Rússlands og verður rætt á fjarfundi Pútíns og Bidens næsta þriðjudag. 

Á sama tíma sækja Kínverjar hart fram um allan heim, meira að segja á norðurslóðum. 


mbl.is 300 milljarða evra aðgerðir til höfuðs Kínverjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandræði leysast ekki með sama hugsunarhætti og skóp þau.

Nú hefur verið blásið til stórsóknar í því sem Nóbelskáldið nefndi "hernaðinn gegn landinu" í frægri blaðagrein. Í hverri fréttinni og umræðuþættinum á fætur öðrum er upphafinn áróðurinn um að bjarga íslenskum fyrirtækjum og heimilum frá raforkuskorti með því að afnema rammaáætlun og hefja stórsókn í virkjunum, sem byggjast á virkjunum í anda stóriðjunnar. 

Slík stórsókn mun breyta núverandi stöðu úr því að íslensk heimili og fyrirtæki fái 20 prósent af framleiddri raforku á móti 80 prósentum, sem stóriðjan fær upp í það að stóriðjan fái minnst tíu sinnum meiri raforku en íslensk fyrirtæki og heimili. 

Til að auka á orkuþorstann eru gefnar upp rangar upplýsingar um orkunotkun komandi rafbílaflota og sagt að hún verði meiri en orka Kárahnjúkavirkjunar, en raunveruleikinn, sem meðal annars hefur komið fram hjá Bjarna Bjarnasyni forstjóra ON, er sá að þessi tala er fimm sinnum hærri en hin raunverulega tala. 

Grunnorsök orkuvandamála heimsins er takmarkalaus orku- og neysluþorsti, og er þá hollt að minnast þeirra sanninda, sem mig minnir að Albert Einstein hafi orðað, að vandamál leysast ekki með því nota sama hugunarhátt við reyna að leysa þau og olli vandræðunum. 


mbl.is Skorar á Íslendinga í umhverfismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. desember 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband