80 ár frá Pearl Harbour. Réðu úrslitakostir Roosevelts úrslitum um árásina?

Í dag, 7. desember, eru rétt 80 ár síðan Japanir réðust á aðal herskipahöfn Bandaríkjanna við Kyrrahaf og hófu með því beint stríð við Bandaríkjamenn, sem stigmagnaðist á fjórum dögum upp í það að Þjóðverjar og Ítalir sögðu Bandaríkjunum stríð á hendur. 

Þar með voru allar stærstu og helstu þjóðir heim orðnar beinir þátttakendur i´sannkallaðri heimsstyrjöld.  

Roosevelt Bandaríkjaforseti hélt fræga ræðu, sem kennd er við orðin "day of infamy" þegar hann lýsti árás Japana fyrir þinginu og sagði hana svívirðilega að öllu leyti. 

Þannig hafa flestir fjallað um hana síðan sem lúalega árás úr launsátri. Flota með sex flugmóðurskipum auk fylgdarskipa, tókst að komast óséður nógu lálægt Perluhöfn til þess að hægt væri að senda meira en þrjú hundruð árásarflugvélar til árásar með sprengjum og byssum á herskip og mannvirki í höfninni.  

Von Japana var sú að sem flest flugmóðurskip Kana væru í höfninni auk orrustuskipa. 

Japanir áttu alls ellefu flugmóðurskip en Kanar aðeins sex, þannig að með því að sökkva nógu mörgum skipum, fengju Japanir tækifæri til að ná ekki aðeins yfirráðum yfir Suðaustur-Asíu og Ástralíu, heldur sigri í styrjöldinni. 

Til allrar hamingju fyrir Bandaríkjamenn, réðu bæði heppni og mistök Japana, því að ekkert flugmóðurskip bandaríska hersins var í höfninni og þrátt fyrir gríðarlegt tjón og mannfall þúsunda Kana, voru þeir ekki gersigraðir, og þetta lang framleiðslumesta stórveldi heims gat haldið sjó og nýtt sér yfirburði í mannafla og framleiðslugetu. 

Þar að auki nýttu Japanir sér ekki tækifærið til að senda viðbótarbylgju árásarflugvéla, heldur létu sig hverfa vestur í víðáttur Kyrrahafsins.  

Útkoman úr þessari dramatísku árás nægði því ekki til lengri tíma litið.  

En hvers vegna datt þeim þá í hug að fara á þennan hátt í þessa fífldjörfu aðgerð og leituðu frekar eftir friðarsamkomulagi?

Síðari tíma rannsóknir hafa leitt í ljós, það var næstum trúarlegur siðaheimur Samúræjanna sem kom í veg fyrir að þeir gætu gengið að úrslitakostum Bandaríkjamanna, sem stóðu árið 1941 í samningaviðræðum þjóðanna.  

Bandaríkjamenn héldu fast við það skilyrði, að Japanir drægju her sinn út úr Kína í styrjöld sem þar hafði geysað síðan 1937 eftir innrás Japana í landið. 

Japanir höfðu eina milljón hermanna í Kína, og það að hætta við svo stórfellda hernaðaraðgerð taldist svo mikill álitshnekkir fyrir leiðtoga hersins í þjóðfélagi þeirra, að í samræmi við reglur Samúræja ættu þeir einskis úrkosti eftir slíkt afhroð en að fremja kviðristu. 

Enn verra var þó, að Bandaríkin réðu yfir því úrræði að setja svo hart viðskiptabann á Japan að japanski herinn yrði eldsneytislaus á nokkrum mánuðum nema að að fara í stríð. 

Sæmdarkrafa Yamamotos, sem stóð fyrir árásina á Perluhöfn, var svo sterk að hún kostaði hann lífið árið eftir. Þá höfðu Bandaríkjamenn ráðið dulkóða Japana og gátu í krafti þess sent flugvélar í veg fyrir flugvél hans og grandað henni. 

Yamamoto hafði haft veður af því að Kanar hefðu komist yfir kóðann, en gat samkvæmt sínum Samúræja sæmdarhugsunarhætti ekki lifað með því að hafa beðið svona mikinn hnekki gagnvart andstæðingum sínum. 

Hann leiddi því kóðamálið hjá sér og fór í förina, sem kostaði hann lífið. 

Þrátt fyrir það sem hér er greint frá, verða Roosevelt og Bandaríkjamenn varla sakaðir um að bera ábyrgð á því að Japanir réðust á Bandaríkin til dæmis með því að hafa beitt þá úrslitakostum sem vita mætti að þeir gætu ekki sætt sig við.

Hernaður Japana í Kína var stórfelld árásaraðgerð, sem lituð var af stríðsglæpum þeirra. 

Þess má geta að fyrir síðustu aldamót urðu mörg stórslys í flugi hjá öflugu flugfélagi í Asíu, vegna virðingarstigans svonefnda í stjórnklefanum. 

Aðstoðarflugmenn þorðu ekki að hætta á að móðga flugstjórann, jafnvel þótt hann stefndi með mistökum sínum öllum í flugvélinni í bráða lífshættu. 

Svona getur gerst víðar. 

Ein af orsökum mannskæðasta flugslyss sögunnar á Tenerife varð vegna mistaka af þessum toga í hollenskri flugvél.   

Á síðustu árum hefur verið þróað sérstakt kerfi í stjórn flugvéla, sem nefnist CRM, sem er skammstöfun fyrir Crew Resource Management. 


Bloggfærslur 7. desember 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband