Google Earth er lygilega fráneygt fyrirbæri.

Fyrir um áratug tók ég einn dag í það að læra á Google Earth og skoða ýmsa hluti hér og þar á jörðinni. Mér til mikillar undrunar sást Sauðárflugvöllur á Brúaröræfum vel, allar þrjár flugbrautirnar af alls fimm, sem þá voru komnar. 

Samt var þessi lendingarstaður lagður með því einu að valta eggsléttan melinn og merkja brautarjaðrana með lausum merkjum. 

Á vellinum sást "flugstöðin", gamall Econoline húsbíll skýrt og greinilega! Á myndinni mátti sjá á mannvirkjagerð við Kárahnjúkastíflu, að hún hafði verið tekin síðsumars, og einnig af því að ekki er farið að hleypa vatni í lónstæði Hálslóns.


mbl.is Gosið sést úr geimnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnsta gos í heimi varð sennilega í Kröflueldum.

Í einni af umbrotahrinum Kröfluelda, sem ekki er skráð sem eldgos, hljóp lítið kvikuinnskot til suðurs frá miðju svæðisins, sem var við Leirhnjúk, og var gefin út aðvörun um hættu á því að í stað þess að öll niu eldgosin sem þarna urðu, komu upp fyrir norðan Leirhnjúk og fyrsta gosið utan í hnjúknum sjálfum, gæti gosið á sprungu sem lægi til suðurs um Bjarnarflag. 

Þetta gerðist um hánótt í dimmri hríð að vetrarlagi, svo að fjölmiðlamenn hlupu til og óku upp að Bjarnarflagi þar sem ekkert gos sást. 

Með stærðarinnar vasaljós að vopni var ákveðið að skyggnast örlítið víðar, og byrja á stórri gjá úr Mývatnseldum sem liggur í norður frá Bjarnarflagi. 

Þegar komið var inn í Krummagjá var allt í einu eins og eldingu lysti niður í allan hópinn í einu.  Menn litu hver á annan, og orðalaust, án þess nokkur mælti orð frá vörum, tóku allir á rás til baka, því að við hafði blasað sýn, sem var fáránleikinn í hæsta veldi: 

Hópur manna að leita að eldgosi með vasaljósi!

Daginn eftir sást að umhverfis borholurör í Bjarnaflagi var dökk hraunmylsna dreifð yfir kringlótt svæði kringum borholuna, og einhver á ferð þarna taldi sig hafa séð glóandi,örmjóa hraunbunu standa upp úr rörinu örstutta stund kvöldið áður og sundrast í storknandi mylsnu á leiðinni til jarðar. 

Þetta minnsta gos í heimi stenst þá kröfu um ELDgos að glóandi hraun hafi spýst upp úr jörðinni. 

En minni gerast eldgos varla. 


mbl.is „Eitt minnsta gos sem sögur fara af“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyjafjallajökulsgosið 2010 hratt af stað ferðaþjónustusprengju. Hvað nú?

Þótt eldgosið í Eyjafjallajökli 2010 væri margfalt meira en það smágos, sem nú er hafið í Fagradalsfjalli, og hið stóra eldfjall stöðvaði með öskufalli sínu flug um allan heim, kom Eyjfjallajökull nafni Íslands á allra varir um heimsbyggðinni á þann hátt, að það hratt af stað mestu efnahagsuppsveiflu í sögu Íslands.  

Eldgosið nú er án öskukfalls og flokkast því kannski undir hugtakið túristagos og gæti orðið akkur bæði fyrir nálæga byggð og jafnvel allt íslenska hagkerfið þegar heimsfaraldrinum linnir. 

Ótal spurningum varðandi faraldurinn og eldgos framundan er þó ósvarað. 

En hér á síðunni var því spáð fyrir nokkrum dögum, að umbrotahrina undanfarinna fjórtán mánaða markaði tímamót í eldvirknissögðu Reykjanesskaga og að framundan kynnu að vera nokkrar aldir með álíka umbrotahrinum og lauk árið 1240. 


mbl.is Myndband: Eldarnir í nærmynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. mars 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband