Óvenjuleg stemning á lofti og á jörðu.

Það er erfitt að finna orð fyrir stemninguna í lofti og á landi við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi í dag. p1011348.jpg

Fjölmennið og umferðin voru slík að minnti á landsmót hestamanna eða skíðamanna.

Nema í þetta sinn var á ferðinni fimmfalt landsmót, landsmót flugmanna, göngumanna, vélsleðamanna, fjórhjólamanna og síðast en ekki síst jeppamanna. 

Efstu myndirnar eru teknar í einni af fjórum flugferðum mínum yfir gosstöðvarnar í dag. 

Sú efsta er af eystri hluta þeirra, eldri gígurinn og hraunið, sem rennur ofan í Hrunagil. p1011354.jpg

Næstu myndir eru af vestari og nýrri hlutanum, þar sem hraunið rennur á hreint ótrúlegan hátt eftir mjóum hamramúla og steypist þar fram af á leið sinni niður i Hvannárgil. 

Nær óslitin röð breyttra jeppa var á 35 kílómetra langri leiðinni frá Sólheimahjáleigu að gosstöðvunum. 

Ég fékk að líta gosið í öllum mögulegum myndum.

Fyrst í ljósaskiptunum úr lofti eins og sást í fréttum Sjónvarpsins í dag og í kvöld. p1011358.jpg

Síðan í þremur flugferðum með áhugafólk og loks í jeppaferrð með elstu dóttur minni og fjölskyldu hennar, þar sem tvö systkini manns hennar þeystu á vélsleða og fjórhjóli. 

Til að fara með okkur yfir Mýrdalsjökul og Goðabungu á snjónum notaði ég 37 ára gamlan Range Rover með jafngamalli Nissan Laurel dísilvél.

Einfaldara og ódýrara verður það varla. p1011360_977399.jpg

Þarna má sjá fimm ferðafélagana uppi á Goðabungu,  Óskar Olgeirsson, Auði Óskarsdóttur, Jónínu Ómarsdóttur og Stellu Björg Óskarsdóttur. . 

Mikil ánægja og hrifning yfir því sem fyrir augu bar. 

Gosstöðvarnar sjálfar eru eins og hannaðar af Ólafi Elíassyni.

Langleiðina frá byggð ber rauðan bjarmann og gosmökkinn við loft og þegar komið er á svonefndnan Gónhól, blass eldspúandi gígurinn og sístækkandi hraunið við.

Síðan er hægt að fara meðfram hraunröndinni allt niður á barm Hrunagils til að fylgjast með hraunánni og fossinum langa og háa. p1011367.jpg

Upp Morinsheiði silaðist þétt röð göngufólks. 

Umferð breyttu jeppanna og tuga kílómetra löng röð þeirra var eitthvað svo innilega 2007, - Icesave, skuldirnar og hrunið látið víkja í burtu einn dag, einn 2007-dag.   p1011365_977433.jpg

Og samferðafólkið sagði að þetta væri eitthvað sem tæki fram hátæknilegasta 1. apríl gabbi, sem hægt væri að hugsa sér, - allur þessi fjöldi fólks, bíla, vélsleða, fjórhjóla, flugvéla og þyrlna í kringum jafn einsættt sjónarspil væri ekki mögulegur í neinni stórmynd. 

 p1011360.jpg


mbl.is Óbreytt gos og fólk á heimleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Takk fyrir frábæra lýsingu af mögnuðum atburði.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 2.4.2010 kl. 02:41

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þetta var ljómandi hjá þér Ómar alveg eðal, og gömul díselvél með alvöru olíuverki sem virkar á meðan snýst og spíssum sem leka ekki út í smurolíuna alveg frábært.

Hrólfur Þ Hraundal, 2.4.2010 kl. 15:11

3 Smámynd: Halldór Sigurðsson

FLottar myndir , sett sjálfur inn myndir og myndbönd frá gosstöðvunum í dag

Halldór Sigurðsson, 2.4.2010 kl. 17:08

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki taldi aprílgabb,
ansi mikið þó var labb,
feykilegt þar prang og príl,
prestur fyrsta hljóp apríl.

Þorsteinn Briem, 2.4.2010 kl. 17:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband