Hálfrar aldar þróun.

Í hálfa öld hefur ákveðið ferli fest sig í sessi varðandi virkjanaframkvæmdir á Íslandi og hefur nú þróast í ákveðið horf, sem svínvirkar.

1. Byrjað er að tala um virkjanir á viðkomandi svæði, þar sem margt skortir, svo sem vegi, rafmagn, símasamband og aðstöðu fyrir ferðamenn. Smám saman fara þeir, sem málið skiptir, að taka afstöðu til þess hvort það eigi að byggja framangreind mannvirki upp hvað sem virkjunum líði eða hvort hægt verði að "spara" með því að draga samgöngu- og fjarskiptabætur og sjá til hvort Landsvirkjun bjóði það ekki allt fram ókeypis ef hún fær að virkja. 

2. Virkjunaraðilinn býður fram þessar framkvæmdir sem meðlag með virkjunarframkvæmdunum. 

3. Vegagerð, símafyrirtæki og ferðaþjónustufyrirtæki halda að sér höndum þangað til virkjað er og Landsvirkjun efnir loforð sín. 

Þetta hefur gerst aftur og aftur í hálfa öld og smám saman eru allir orðnir meðvirkir í þessu ferli. Meira að segja er uppsetning símasambands á miðju Suðurlandi látin bíða nógu lengi til þess að Landsvirkjun geti boðið fram að sjá um það. 

Og það er gengið enn lengra eins og leiksvið Kröfluelda í Gjástykki og við Leirhnjúki er dæmi um. 

Vandrataðri leið að einu af einstæðustu náttúruundrum heims er lokað með keðju og síðan skrifað um það í blöð að enginn viti um það og þess vegna sé það einskis virði. 

Starfshópur um gildi svæða fyrir ferðaþjónustu kemst að þeirri niðurstöðu að svæðið sé lítils virði fyrir ferðaþjónustu af því að umferð þangað hafi verið svo lítil fram að þessu!

Smám saman skapast gamla ástandið: Það verður engin leið að opna aðgengi að þessu svæði nema Landsvirkjun geri það um leið og hún eyðileggur náttúrugildi þess! 

Nokkrir stórfossar í Efri-Þjórsá á stærð við Gullfoss eru taldir lítils virði fyrir ferðaþjónustu vegna þess að þeir hafi verið svo óaðgengilegir að þeir séu nær óþekktir. 

Eina leiðin til þess að "opna aðgengi" að svæðinu sé að virkja fossana og eyða þeim! 


mbl.is Segi mútur og skrifa mútur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Stefánsson

Fyrst þú nefnir Kröflusvæðið og keðjuna sem lokar veginum sem liggur frá Víti og norður í Gjástykki er rétt að það komi fram að Landsvirkjun stendur ekki að þeirri lokun, heldur eru það eru landeigendur svæðisins (Landeigendafélag Reykjahlíðar) sem loka svæðinu fyrir almenningi með keðjunni.

Ef Kröfluvirkjun hefði ekki verið byggð væri engin umferð að Víti og Leirhnjúk vegna þess að ekki væri vegur að svæðinu.
Myndir þú vilja hafa aðgengið þannig Ómar?

Stefán Stefánsson, 13.2.2011 kl. 20:42

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nei, auðvitað ekki. En eftir að hafa komið í 26 þjóðgarða og friðuð svæði í fimm löndum, þar sem miklir virkjanamöguleikar eru víðast hvar, en ekki hefur verið virkjað, hef ég séð að þar hafa menn að sjálfsögðu opnað aðgengi að þessum svæðum, án þess að það þyrfti að virkja neitt áður.

Þú gefur þér það hins vegar, Stefán, að útilokað hefði verið um aldur og ævi að opna aðgengi að Kröflusvæðinu án þess að virkja þar allt sundur og saman. 

Þegar Sigríður frá Brattholti barðist gegn virkjun Gullfoss barðist hún auðvitað gegn stórfelldustu atvinnuuppbyggingu Íslandssögunnar á þeim tíma sem meirihluti fólks í sveitum landsins átti enn heima í torfbæjum og landið var nær vegalaust. 

Virkjun Gullfoss hefði að sjálfsögðu "opnað aðgengi" að þessu svæði. 

Nú hefur hins vegar verið "opnað aðgengi" að svæðinu án virkjunar og fossinn malar óbeint meira gull en ef hann hefði verið virkjaður. 

Ómar Ragnarsson, 13.2.2011 kl. 21:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband