23.9.2011 | 22:49
Hefði getað dáið eftir að hafa sigrað í kappáti.
Fréttin af Úkraínumanninum, sem lést eftir að hafa sigrað í kappáti minnir mig á atvik sem gerðist í ferðalagi með Herranótt M.R. 1958 til Hveragerðis.
Þegar sest var að borðum um kvöldið kom upp sú hugmynd að ég og Lúðvík B. Albertsson skyldum heyja einvígi um það hvor gæti étið meira. Ég hafði þá að baki meira en áratugs reynslu af þessari fráleitu "íþrótt" að éta eins og svín en á móti kom að Lúðvík var ákaflega vel að manni, stór, sterkur og sver.
Svo fór að átið hófst og nokkrir fleiri bættust í hópinn. Úrslitin urðu yfirburðasigur minn, en síðar um kvöldið brá svo við að þeir, sem höfðu setið til borðs, urðu fárveikir svo að kalla þurfti lækni til.
Þetta var það alvarleg matareitrun að hún varð að blaðafrétt. Urðu sumir afar veikir, einkum Lúðvík, en öllum til furðu var ég hinn hressasti. Þótti það yfirgengilegt, því að miðað við yfirburðasigurinn í kappátinu hefði ég átt að verða veikastur og jafnvel að drepast.
Við rannsókn kom í ljós, að eitraðar grænar baunir voru orsök þessarar heiftarlegu eitrunar, en ég var sá eini í hópnum sem hafði ekki borðað grænu baunirnar. Ekki er að vita hvernig hefði farið ef ég hefði góflað í mig miklu meira af eitruðu baununum en Lúðvík og hinir keppendurnir.
Dó eftir að hafa sigrað í kappáti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvernig lentu baunirnar á hinum, en ekki þér?
Aðalsteinn Agnarsson, 23.9.2011 kl. 23:24
matvendni
Guðrún Vala Elísdóttir (IP-tala skráð) 23.9.2011 kl. 23:46
Mér þóttu grænar baunir ekki góðar og sleppti því alltaf að borða þær. Kann raunar lítið betur að meta þær enn og fékk upp í hendurnar ágætis rök fyrir því 1958.
Ómar Ragnarsson, 24.9.2011 kl. 20:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.