Lifnar Kaldá við? Verkefni fyrir Hraunavini.

Undanfarin sumur hefur Kaldá fyrir sunnan Hafnarfjörð horfið gersamlega og aðeins þurr farvegurinn blasað við. Kaldá er eitt merkasta vatnsfall landsins, því að áin, sem rennur á yfirborðinu, er aðeins örlítill hluti hinnar raunverulegu Kaldár, sem er langstærsta vatnsfallið á Reykjanesskaganum.

Þetta er það stórt og öflugt ferskvatnsfljót neðanjarðar, að úr sjónum fyrir sunnan álverið í Straumsvík gátu sjómenn í gamla daga róið að landi og ausið fersku vatni upp úr honum svið ströndina.

Þess vegna heitir staðurinn og bærinn Straumur og víkin Straumsvík.

Fóður þessa fljóts er á vatnasvæði, sem nær upp í Bláfjöll þar sem úrkoman er 4-5 sinnum meiri en í Reykjavík.

Vegna vaxandi vatnstöku úr vatnsbóli Hafnfirðinga í Kaldárbotnum hefur Kaldá smám saman verið að rýrna á undanförnum árum og alveg horfið síðustu sumur.

Þetta er mikill skaði, því að tilvera árinnar alveg við hraunið hefur verið það sem gefið hefur svæðinu einstakt gildi. 

Þegar ég hef verið að aðstoða erlenda gesti, svo sem fjölmiðlamenn, kvikmyndargerðarmenn eða ljósmyndara, hafa þeir oft verið í tímahraki og spurt mig hvort ég vissi af einhverjum góðum stað fyrir viðtal eða myndatöku, sem ekki væri of tímafrekt að fara á.

Þá hef ég bent þeim á Kaldá, sem er aðeins sex kílómetra frá Hafnarfirði og tekur nokkrar mínútur að fara þangað.

Besti staðurinn er á milli Kaldársels og Kaldárbotna, þar sem horft er yfir ána vestur eftir hraunbreiðum og eldfjöllum Reykjanesskagans. 

Uppi hafa verið hugmyndir um stóraukna töku vatns úr Kaldárbotnum, sem Hafnarfjarðarbær gæti selt nágrannasveitarfélögunum.

Ég tel rétt að vara eindregið við frekari vatnstöku þaðan nema notuð verði ítrasta tækni til að taka vatnið þannig, að vatnsbúskap Kaldár verði ekki raskað meira en orðið er.

Raunar tel ég að rannsaka ætti þetta þegar og fara út í aðgerðir sem geti fært okkur Kaldá aftur eins og hún var í mínu ungdæmi.

Því að enda þótt það kunni að vera góðu fréttirnar varðandi mikla úrkomu og vorleysingar að Kaldá lifni við í sumar, finnst mér ekki hægt að una við það að áin hverfi að mestu eða öllu leyti í venjulegu árferði.

Ég tel að þarna sé komið verðugt verkefni fyrir félagið Hraunavini, sem hefur beitt sér fyrir því að ekki sé farið offari gegn þeirri einstæðu náttúru, sem er í næsta nágrenni við fjölmennustu byggð landsins.  


mbl.is Miklar vorleysingar í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef fólk með sömu hugmyndir og þú um umhverfisvernd hefðu fengið að ráða frá tímum hellisbúans, þá værum við enn í hellinum. En án hellismynda, því það er ekki víst að það væri afturkræft ef þær væru málaðar á veggina.

kveðja

Jóhann

JOHANN (IP-tala skráð) 12.4.2012 kl. 14:40

2 identicon

Heill félagi!
Fór upp í Kaldársel í síðustu viku og gekk síðan í kringum Helgafell. Vatnsmagnið í Kaldá er með mesta móti um þessar mundir. Sjaldan séð það meira kem þó reglulega þangað. Það er meira núna en það var þegar ég var sem krakki í sumarbúðum KFUM á sjötta áratugnum. Áin rennur langt niður fyrir sumarbúðirnar. Tók nokkrar myndir en veit ekki hvort hægt er að setja þær inn á bloggið þitt.
Kveðja Sáfi

Sigurður Á. Friðþjófsson (IP-tala skráð) 12.4.2012 kl. 21:31

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvernig rímar það saman, að maður eins og ég, sem hef samþykkt 25 virkjanir á Íslandi sem framleiða þrefalt meira rafmagn en við þurfum til eigin nota, vilji að við förum aftur á stig hellisbúans?

Ómar Ragnarsson, 13.4.2012 kl. 00:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband