"Bahrain norðursins"?

Fyrir meira en 15 árum kom upp hugmyndin um að í gegnum neðansjávarstreng gætum við Íslendingar selt svo mikla orku til Evrópu að við gætum stjórnað orkuverðinu í álfunni! 

Menn sáu okkur í eins og arabíska fursta með vefjarhötta sitja við strenginn og verða ráðandi afl í orkumálum Evrópu!

Ég og aðrir fluttum fréttir af þessu fyrir sjónvarpsáhorfendur með dollaraglampa í augum.

Fimm árum síðar leit ég sem snöggvast á tölurnar, sem þetta átti að byggjast á, og kom þá í ljós að þessi "gríðarlega orka" sem við áttum að geta selt til Evrópu nam langt fyrir innan einu prósenti af orkuþörf álfunnnar!   En samt er haldið áfram að tönnlast á þessu þangað til allir trúa því.

Með þeim árangri að allar götur síðan hafa menn lifað í þessari hugsýnarvímu og síðast 2007 var skrifað Reykjavíkurbréf í Morgunblaðið þar sem haft var eftir útlendingi að Ísland gæti orðið "Bahrain norðursins"! 

Nú sækir sæstrengsdraugurinn enn á og sagt er að orkutapið verði á bilinu 5-10%. Hvers vegna verið er að nefna 5% úr því að 10% koma líka til greina er dæmi um óskhyggjuna og áhættusæknina.

Ef hætta er á að tapið verði 10% á að miða við það.  

10% er talsvert. Miðað við það að nú er sótt í það að virkja sem svarar tveimur Kárahnjúkavirkjunum í viðbót á tiltölulega fáum árum er verið að tala um orkutap upp á 150 megavött eða sem svarar einni Blönduvirkjun.

Eina röksemdin sem vert er að taka tilllit til er sú að með þessu muni nýtast betur orkan innanlands, vegna þess að umframorkan, sem nú er fyrir hendi, muni nýtast, en nú fer hún forgörðum hluta úr árinu.

Það mun kosta miklar framkvæmdir við raflínur innanlands þar sem ætlunin er að fara þvert yfir hálendið.

Allt tal um að þetta sé gert til að auka afhendingaröryggi til venjulegra notenda er blekking. Núverandi línukerfi gerir margfalt meira en nóg til þess.

Hið sanna, sem ekki er nefnt, er það að þessar stórkarlalegu línulagnir eru eingöngu í þágu stóriðjunnar.

Ef orkutapið við flutninginn um sæstrenginn verður allt að því jafn mikið og nemur bættri orkunýtingu er erfitt að sjá hvers vegna það ætti að vera að leggja í þetta.

Þá er eftir röksemdin um að við getum hækkað orkuverðið, af því að við myndum selja orkuna á samkeppnismarkaði í Evrópu í stað þess að selja það á útsöluverði til stóriðju innanlands.

Þetta er dæmigert eigingróðasjónarmið okkar Íslendinga og væri nær að hækka orkuverðið til stóriðjunnar.

 


mbl.is Hafa áhuga á orku frá Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Æi já þessi þjóð er afvegaleidd af sjálfmiðuðum lobbíistum og sérgróðapungum. 

Þessu algerlega ótengt Ómar, hér er loks komin slóðin að stiklulaginu sem þú gast ekki látið svo lítið að svara mér um um daginn

Þökk sé Agli Helga!

http://www.youtube.com/watch?v=cspUkaDxHiw

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 11.4.2012 kl. 22:04

2 Smámynd: Kristinn Pétursson

Það er allt staðar flutningstöp í raforkuflutningi Ómar.

10% er lítið í þessu dæmi.

Það þýðir ekkert að vera á móti framförum. Þú mátt ekki verða eins og þeir sem voru á móti símanum 1906

Kristinn Pétursson, 11.4.2012 kl. 22:38

3 identicon

Undarlegt Kristinn,hvað menn geta alltaf étið upp og smjattað á vitleysunni varðandi símalínurnar versus Marconi skeytin hér forðum tíð.  Bændurnir vildu loftskeyti frekar en línu. Ekki að þeir væru á móti framförum.

Svolítið eins og í dag rúmlega hundrað árum seinna þegar spurningin er um "loftskeyti" eða línu(ljósleiðara) til sveita.

Svo er nú það sem menn verða að reyna að átta sig á í dag, hvað eru framfarir? 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 11.4.2012 kl. 23:05

4 identicon

Þú mátt heldur ekki vera eins og þeir sem voru á móti þeim framförum að leiða Skjálfandafljót inn á vatnasvæði Mývatns svo framleiða mætti meira rafmagn.

Jú annars... þú mátt það.

Jóhannes Pétur (IP-tala skráð) 11.4.2012 kl. 23:05

5 identicon

Það eru fleiri leiðir til að flytja út orku en með áli eða í gegnum sæstreng. Til er leið sem getur verið hagkvæmari og umhverfisvænni en þær fyrrnefndu. Ákveðin erlend stjórnvöld hafa þegar áform um að koma á slíkum viðskiptum við íslendinga og hafa verið hér í viðræðum um tilraunir og mögulegt samstarf. Við fyrstu sýn virðast þær hugmyndir vera skynsamari en sæstrengur.

Geir (IP-tala skráð) 12.4.2012 kl. 01:42

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Dag eftir dag, líklega í mörg hundruð skipti, er tönnlast hér í athugasemdum á síbyljunni um að ég og skoðanasystkin mín séum á móti framförum, á móti atvinnuuppbyggingu, á móti rafmagni og því að við getum hitað upp og lýst húsin okkar, viljum fara afur inn í torfkofana, séum á móti fjarskiptum (símanum), á móti því að "nýta landið" o. s. frv.

Samt framleiðum við þegar fimm sinnum meira rafmagn en við þurfum til eigin nota og stundum "nýtingu lands" án þess að virkja, svo sem við Gullfoss og Geysi og samt er langstærsta atvinnuuppbygging síðustu missera fólgin í stóraukinni ferðaþjónustu.

Það fer að verða svolítið þreytandi að þurfa að svara þessu aftur og aftur og aftur og aftur, en þá verður að hafa í huga að sé því sama haldið fram nógu oft, verður það að sannleika, sama hversu fjarstætt það er.

En síbyljan sem ég nefndi að ofan er ágætt dæmi um það.  

Ómar Ragnarsson, 12.4.2012 kl. 06:12

7 identicon

Gestatölur sl. mánuði og vel heppnuð markaðssetning norðurljósa gefa vísbendingu um að aukning ferðamanna gæti gerst hraðar en ætlað var.Gestafjöldinn gæti verið orðinn milljón manns 2015. Einbeitum okkur nú að því að undirbúa móttöku þessara gesta vel. Þannig að þeir hafi ánægju af, við ávinning og landið bíði ekki skaða af ferðum gestanna um landið.

stefán benediktsson (IP-tala skráð) 12.4.2012 kl. 12:57

8 identicon

"Heildartöp eru því um 6,8% fyrir tengingu inn til Skotlands um 1170 km langan streng, en hækka um 0,5% fyrir hverja 100km sem bætast við. "  Jón Bergmundsson. Staðreyndir um sæstreng. mbl  

Ég las að orkutöp í kerfi landsnets hafa verið rúm 4% þannig að heildartöp upp á tæp 7% ættu ekki að ráða neinum úrslitum.

Við íslendingar búum í landi sem er ríkt af hreinum orkulindum.  Við getum framleitt rafmagn með því að nota vatnsafl og jarðhita úr iðrum jarðar.  Þessar auðlindir skila þó ekki neinu nema þær séu nýttar og tel ég að íslendingar hafi töluvert svigrúm til uppbyggingar nýrrar stóriðju og útflutnings raforku án þess að það komi niður á möguleikum landsmanna á raforku til almennra þarfa.

Með lagningu sæstrengs frá Íslandi inn á annað raforkusvæði má flytja út ákveðna grunnorku sem væri föst allt árið, en auk þess væri hægt að koma í verð  umframorku úr íslenska kerfinu og orku á háálagstímum þegar verð er hæst.  Þá gæti sæstrengslagning til Evrópu  orðið til þess að nýjar virkjanir þyrftu ekki eins mikla umframgetu, vegna möguleika á því að minnka útflutning eða flytja inn orku í lélegum vatnsárum eða við bilanir í virkjunum.  Með hlýnandi veðurfari mun afrennsli jökla aukast, sem væri hægt að nýta til að auka grunnorku í kerfinu og selja í gegnum sæstreng.

 

Kjartan Ingi Jónsson (IP-tala skráð) 12.4.2012 kl. 13:05

9 identicon

´Sæll Ómar,

Ég tel mig muna hvernig íslenska orkubullið komst fyrst á kreik fyrir alvöru (en þú getur leiðrétt ef þú manst betur).

Þetta var rétt fyrir 1970, undirbúningur Kröfluvirkjunar var hafinn og milljónir og milljónatugir fóru í súginn við undirbúning og byggingu hennar og bókhaldið yfir þ´ær fékkst aldrei birt og hefur ekki sést enn.  En engum duldist að allt hafði farið margfalt fram úr áætlun.

En í hvert skipti sem hörð gagnrýni á þetta kom fram opinberlega, þá birtist Jón G. Sólnes frá Akureyri, sem þá var stjórnarformaður Landsvirkjunar eða eitthvað álika,á skjánum í fréttatímum sjónvarpsins, með gufustrókana í Kröflu í baksýn og benti fréttamanninum á, pataði út í loftið og sagði: sjáiði orkuna, sjáiði kraftinn, það VERÐUR að virkja.

Og engin þorði að andmæla, og brátt varð þetta að nútíma þjóðsögu sem engin ber brigður á: það er takmarkalausa orku að fá á Íslandi, það þarf bara að virkja og virkja meira og meira og meira.

En það sem Sólnesi þessum og öllum virkjanasinnunum síðan láðist að geta um í sambandi við jarðhitann er að þegar hann er virkjaður, með túrbínum á sígildan hátt líkt og í Kröflu, þá tapast yfir 90% af þessari orku sem fyllti sjónvarpsskjáina en aðeins 6-7% koma út úr virkjuninni sem rafmagn.  Ótrúleg sóun, en sem tæknin ræður enn ekki við að fyrirbyggja, rafmagnsframleiðsla í heiminum er enn á steinaldarstigi.

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 12.4.2012 kl. 14:21

10 identicon

Raforkunotkun á Íslandi er uþb 2.000 MW.

Uppsett afl í virkjunum er 2.500 MW

Í nýtingarflokki Rammaáætlunar eru til skiptana 1.200 - 1.500 MW.

Þeir virkjanakostir sem þar eru að finna eru allir óhagkvæmari en þær virkjanir sem þegar eru í rekstri.

Aðal atriðið er að fara ekki og geyst í afganginn og reyna að fá sómasamlegt verð fyrir það sem þegar er framleitt.

Það er hæpinn ávinningur af því að leggja fokdýran sæstreng fyrir umframorku sem aðeins er í boði hluta ársins.

Það er hinsvegar hið besta mál að raforka þrefaldist í verði, -svo framarlega að það verði öll raforkan en ekki bara raforka til almenningsnota. Almenningur notar einungis 20% raforkunnar og hagnaðurinn af sölu 80% prósentanna (eða þar af meira) mætti nota til lækkunar skatta eða aukinnar almannaþjónustu.

Einhvernvegin grunar mig þó að ekki verði hróflað við söluverði til álveranna en almenningur einn látin blæða fyrir dýrari raforku.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 12.4.2012 kl. 14:32

11 identicon

Nú þarf hröð handtök(véltök). Drífum í að virkja Dettifoss, Gullfoss, fossa í Skjálfandaflóti, Hverfisfljóti og Hólmsá. Tölvert má líka fá úr Öxarárfossi í leysingum.

Bergþóra Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 12.4.2012 kl. 18:42

12 identicon

Og ekki má gleyma því að með litlum tilkostnaði má hækka vatnsborð í Þingvallavatni um 20 metra og fá þannig stóraukna nýtingu á Steingrímsstöð.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 12.4.2012 kl. 20:18

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta síðasta rímar alveg við það sem Jakob Björnsson og fleiri hafa haldið fram, en það er það að af því að íslensk náttúra standi stanslaust fyrir stórfelldum breytingum á landinu eigum við sjálf að stunda það eins og hægt er, landið mun hvort eð er breytast.

Talið er líklegt að það muni koma að því að land sígi frekar við norðurenda Þingvallavatns og Vellirnir fari að lokum á kaf í vatnið.

Samkvæmt kenningu virkjanafíklanna er þá hvort eð er alveg eins gott að við sökkvum Völlunum og gjánum og aukum afl Steingrímsstöðvar með ódýrum stíflugarði við suðurendann.

Fylgjendur Kárahnjúkavirkjunar sögðu að með Hálslóni væri aðeins verið að ná fram sama lóni og var þar fyrir 10 þúsund árum.

Þetta er raunar alrangt. Hálsón er likast til fimm sinnum stærra að flatarmáli en hið forna lón var í upphafi.

Ómar Ragnarsson, 12.4.2012 kl. 22:00

14 identicon

Hugmyndin um sæstreng er ekki alslæm og greinilegt er að Herði langar að komast í sambærilega stöðu og Norskir raforkuframleiðendur.

Norðmenn hafa stækkað fallpípur í virkjunum og bætt við vélum sem aðeins eru keyrðar þegar saman fer gott framboð af vatni og hátt verð í Evrópu td á sumrin þegar heitt er og mikil notkun er á loftkælingum. Þeir selja orku jafnvel aðeins á dagtíma og kaupa ódýra orku á nóttunni að sunnan til að spara sér vatn fram á næsta dag þegar verðið hækkar aftur. Yfirleitt hefur það hverfandi umhverfisáhrif að auka afl í eldri virkjunum. Þessi breyting kallar hinsvegar byggingu nýrra stórra háspennulína.

Ef þetta yrði að veruleika væri mikill happafengur fyrir LV að losna undan raforkusölu til álvera á hrakvirði.

Þessa dagana er grátbroslegt að heyra forstjóra LandsVIRKJUNAR tala fyrir fokdýrum SÆstreng á meðan forstjóri LandsNETS talar alfarið gegn því að leggja nýjar 220KV raflínur í JARÐstreng á stöku stað með óverulegum kostnaðarauka.

Þessi tvíhöfða þurs gelti því í sitthvora áttina í dag.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 12.4.2012 kl. 22:32

15 identicon

Mér er minnstætt að Þorkell Helgasom sagði einmitt í sjónvarvapsviðtali, þegar hans var mátturinn og dýrðin, að um sæstreng gætum við líka fengið afl úr hinni áttinni þegar þörf væri á.

Bergþóra Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 13.4.2012 kl. 07:12

16 identicon

Svona snúra til Evróðu er margrædd hugmynd, enda mjög sniðug.

Stysta leið til Skotlands er reyndar innan við 900 km, og sæstrengur þá leið myndi vera að tapa ca 4% af orkunni. Og verðið er mun meira en stóriðjan býður. Við erum þar að tala um ca tvöfaldan mun!

En....

Þetta lítur vel út svo lengi sem við förum EKKI inn í ESB. Þar á bæ myndum við ekki mega selja okkur sjálfum orku á einhvern spottprís, heldur yrðum við að miða okkar verðlag við hina. Dúndrandi hækkun sem sagt, því að raforka hér er ódýrari en þar.

Jón Logi (IP-tala skráð) 13.4.2012 kl. 11:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband