Fyrri innrásin á "smábílamarkaðinn" mistókst, því miður.

Ýmislegt er að athuga við fréttaflutning af svonefndri þriðju kynslóð af Mercedesa Benz A, sem framleiðendurnir kynna sem stórsókn inn á vinsælasta flokk bíla en er í raun uppgjöf á metnaðarfullri framleiðslu byltingarkennds bíls, sem lenti strax í vandæðum og náði aldrei flugi, ef undanskilin er heimsfræg velta í einni af fyrstu bílaprófununum.

Í fyrsta lagi er hinn nýi A-Class ekki smábíll, enda á svipuðu róli í verði, stærð og hvað markhóp snertir og Volkswagen Golf, Opel Astra, Ford Focus og Toyota Corolla, en þessi flokkur bíla, sem oft er nefndur Golf-flokkurinn, flokkast varla undir smábíla, svo mjög hafa Golf-flokks bílarnir stækkað og þyngst með árunum.

Segja má að tveir stærðarflokkar bíla séu fyrir neðan þennan flokk, - bílar á stærð við Polo/Yaris/Corsa/Fiesta og bílar á stærð við Aygo/Chervrolet Spark/Kia Picanto.  

Nær væri að tala um að Mercedes Benz hafi reynt innrás á smábílamarkaðinn með upphaflegu hugmynd sinni að A-bílnum og sé nú á flótta út úr þeim stærðarflokki.  A-bíllinn átti að verða aðeins 3,36 metra langur og því styttri en minnstu bílarnir eru núna.

Þrátt fyrir þetta átti hugvitssamleg hönnun undirvagns A-bílsins með tvöföldu gólfi að tryggja jafn góða árekstrahæfni og öryggi og hjá miklu stærri bílum.

Verksmiðjurnar lögðu því miður þegar á flótta undan upprunalegum áformum með því að láta fyrstu kynslóð A-bílsins verða 23 sentimetrum lengri en fyrst var áætlað. Það var samt afar góður árangur þegar þess er gætt að þessi bíll bauð upp á svipað rými og bílar sem voru 40 sentimetrum lengri og var styttri en Yaris og Peugeut 106.

Illu heilli valt A-bíllinn í svonefndu elgsprófi og framleiðendurnir voru sendir öfugir til baka að tækniborðunum. Tvöfalda gólfið olli því að þyngdarpunktur bílsins varð hærri en æskilegt var.

Þess vegna varð að breikka bílinn, setja í hann tölvustýrða vörn gegn veltihættu og gera fjöðrunina grynnri og hastari en áður.

Hið síðastnefnda varð strax dragbítur á aksturseigileika og þægindi bílsins og sömu örlög hlaut Smart-bíllinn sem byggir á svipuðu fyrirkomulagi botnplötunnar.

Auk þess var A-bíllinn ljótur og því miður náði hann ekki flugi í sölu, þótt upphaflega hugmyndin væri byltingarkennd og hagkvæm í borgarþrengslum.

Útlitið var lagað í annarri kynslóð, sem varð rúmum 20 sentimetrum lengri en fyrsta kynslóð, en samt álíka langur og samtíma Yaris og því enn meira en feti styttri en helstu keppinautarnir án þess að það bitnaði á rýminu.

En nú hafa verksmiðjurnar gefist upp við að framleiða smábíl og eiga engan fulltrúa i tveimur minnstu flokkunum, Polo og Aygo stærðarflokkunum.

Í staðann hefur verksmiðjan flúið að öllu leyti yfir í Golf-flokkinn og snjöll og byltingarkennd hönnun A-bílsins er víðs fjarri í nýja bílnum, sem fylgir meginstraumi keppinautanna og hefur hvað meginhönnun enga sérstöðu.

Fyrri kynslóðir A-Class höfðu rými miðað við lengd fram yfir keppinautana. Eina von Benz-verksmiðjanna er að nýi bíllinn verði betri og meira aðlaðandi en bílar af svipuðum stærðarhlutföllum og meginhönnun, sem hann mun keppa við.

Tengd frétt á mbl.is hefði frekar átt að bera heitið "flótti Benz úr smábílamarkað" en "innrás Benz á smábílamarkað." i


mbl.is Innrás Benz á smábílamarkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

9.3.2006:

"Í skýrslunni voru færð rök fyrir því að kostnaður vegna umferðarslysa á Íslandi væri mun meiri en eldri kannanir höfðu leitt í ljós og að kostnaðurinn næmi um 11-15 milljörðum íslenskra króna árlega á verðlagi ársins 1995.

Á verðlagi ársins 2005
samsvarar þetta 21-29 milljörðum íslenskra króna árlega, ef núvirt er með hliðsjón af meðalvísitölu launa 1995 og 2005."

Kostnaður umferðarslysa eftir alvarleika

Þorsteinn Briem, 29.7.2012 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband