Hvað gerðu þeir í Santa Barbara?

Miðborg Santa Barbara í Kalíforníu, borgar sem er fyrir norðan Los Angeles, hafði dáið kvalafullum dauðdaga fyrir allmörgum árum. Þar settust menn niður og reyndu að átta sig á því hvað hefði gerst.

Það þótti ekki hafa verið til bóta þegar það gerðist eins og hér, að verslunin hafði smám saman færst út í jaðra byggðarinnar með stórum verslunarmiðstöðvum, sem lágu nærri hraðbrautunum. Fólk saknaði gömlu, huggulegu miðborgarstemningarinnar.

Niðurstaðan varð þessi: Menn sögðu sem svo: Við getum ekki barist á móti því að við erum þjóðfélag einkabílismans en við getum bætt almenningssamgöngur.

Það var gert.

Úr því að einkabíllinn réði svona miklu skulum við nýta okkur það á þann hátt að við reisum fimmtán bílastæðishús í miðborginni og gefum frítt í stæðin fyrsta klukkutímann í miðborginni og höldum gjaldinu það lágu eftir það að það fæli ekki fólkið frá.

Við látum gera nokkrar götur að göngugötum en þó ekki svo margar að þægindi einkabílsins nýtist ekki. Við lögum frekar núverandi götur að blandaðri og rólegri umferð bíla og fólks.

Þessi áætlun tók nokkur ár og kostaði að vísu fé en hún svínvirkaði og þegar á heildina var litið, var talið að í raun hefði hún ekki kostað neitt vegna þess að ávinningurinn af miðlægri umferð í borginni vann þennan kostnað upp.  

Miðborg Santa Barbara lifnaði við á ný með sinni skemmtilegu og aðlaðandi menningu og ég átti þess kost fyrir nokkrum árum að fara með Braga Freymóðssyni um borgina og kynnast þessu með eigin augum.

Það er að vísu hlýrra loftslag í Santa Barbara en í Reykjavík. Á móti kemur að yfir sumarmánuðiina er bjart mestallan sólarhringinn í Reykjavík og veðrið er ekki eins slæmt og af er látið.

Eða hefur það ekki verið furðu gott undanfarin sumur? Er ekki allt fyrir hendi í gömlu miðborginni til þess að þar geti skapast fjölmennt og iðandi mannlíf?  

Bílaeign er næstum eins almenn í Reykjavík og í Santa Barbara. Ekki er að sjá að það muni breytast næstu árin hér á landi frekar en á öðrum Vesturlöndum.

Það er ágætt mál að skapa gangandi fólki líflegt og þægilegt umhverfi í hinni gömlu miðborg Reykjavíkur. En ég óttast að með því að gera akandi fólki sem erfiðast og dýrast að koma í miðborgina muni heildaráhrifin verða neikvæð og bitna á lífinu í miðborginni í heild, bæði gangandi og akandi fólki, því að daufari miðborg bitnar á öllum og dregur úr aðdráttarafli hennar.

Í gamla daga var iðandi mannlíf af blöndu af umferð bíla og gangandi fólks á rúntinum. Nú sýnist mér stefna í það að lengst af sjáist varla nema útlendingar í miðborginni og fjarvera Íslendinganna dregur úr þeirri upplifun sem erlendir ferðamenn sækjast eftir að blandast heimamönnum í iðandi miðborg.

Það mun hafa sín áhrif á þá, ekkert síður en okkur heimamenn.

Miðborg Santa Barbara er nálægt helstu krossgötum byggðarinnar og miðlæg varðandi hraðbrautina sem liggur meðfram borginni.

Hin gamla miðborg Reykjavíkur er 5 kílómetra frá stærstu krossgötum landsins, 4 kílómetra frá þungamiðju byggðarinnar og 3 frá þungamiðju atvinnustarfseminnar.

Eina miðlæga samgöngumannvirkið, sem er nálægt gömlu miðborginni, er flugvöllurinn og flugið er því eina samgönguformið sem uppfyllir þau skilyrði að vera nálægt henni.

Miðja landsamgangna getur aldrei orðið á armi, sem liggur eins og útskagi út frá miðju stærstu krossgatnanna.

Þegar ökumenn geta fengið frítt í stæði í verslunarmiðstöðvunum, sem liggja nær þessum krossgötum en Laugavegurinn og Kvosin, en verða að borga fyrir stæði í gömlu miðborginni, fælir það þá í burtu frá henni.

Frá hugsanlegri byggð í Vatnsmýrinni yrði styttra í Kringluna með sín fríu bílastæði og innanhúss verslunargötu en norður á Laugaveg.

Hugsanleg íbúðabyggð á núvernandi flugvallarsvæði mun engu breyta um það að hún verður í 5 kílómetra fjarlægð frá krossgötunum stóru sem samkvæmt alþjóðlegu lögmáli samgangna laðar að sér verslun og þjónustu.

Þess vegna er enn meiri ástæða í Reykjavík en í Santa Barbara til að taka málin öll til rækilegrar endurskoðunar.  

 


mbl.is Laugavegurinn mun líða undir lok
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í engu öðru póstnúmeri á landinu eru skapaðar meiri gjaldeyristekjur en 101.

Í 101 Reykjavík eru um 630 fyrirtæki og póstnúmeri 105 (Hlíðum og Túnum) um 640. Í þessum tveimur póstnúmerum eru því um 1.300 fyrirtæki.

Í 101 Reykjavík eru um 7.400 heimili, í póstnúmeri 107 um fjögur þúsund og póstnúmeri 105 um 6.600.

Samtals eru því í göngufjarlægð frá Kvosinni um átján þúsund heimili og þar búa um 40 þúsund manns, þriðjungur allra Reykvíkinga.

Þorsteinn Briem, 26.7.2012 kl. 22:25

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Kvosinni er fjöldinn allur af veitingastöðum, skemmtistöðum, krám og verslunum.

Til landsins kemur nú árlega rúmlega hálf milljón erlendra ferðamanna, um 1.500 manns á dag að meðaltali, og þeir fara langflestir í Kvosina vegna þess að hún er miðbærinn í Reykjavík en ekki til að mynda Kringlan.

Þorsteinn Briem, 26.7.2012 kl. 22:30

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Breiðhyltingar geta tekið strætisvagn eða leigubíl niður í miðbæ Reykjavíkur.

Þar að auki er fjöldinn allur af ókeypis bílastæðum við Slippinn, sem er í miðbæ Reykjavíkur.

Ef fólk getur farið í ræktina getur það gengið nokkra metra.

Fjölmargir Breiðhyltingar róa í spikinu af hreyfingarleysi.

Þorsteinn Briem, 26.7.2012 kl. 22:45

4 Smámynd: Ívar Pálsson

Steini, þessir talnaleikir þínir sýna ekki raunstöðu mála, sem Ómar rekur nokkuð vel. T.d. er Skerjafjörður í 101 (sunnan og norðan brautar) nær 1000 manns og allt að 3,5 km gangur í burtu. Áður var þetta 4 mínútna akstur beint að ódýrum stæðum svo að við skruppum oft í bæinn, pósthúsið eða hvaðeina og fengum okkur þá eitthvað í leiðinni. Nú er búið að hindra aðgengið herfilega, loka Suðurgötu til norðurs og oft Pósthússtrætinu (til þess að komast að bílastæðum) og fækka stæðum stöðugt. Þessi fáránlega gjaldtaka núna gerir út um þetta. Auðveldara er að fara á flesta aðra staði héðan, Kringluna eða úti á Nes.

Útópía Besta flokksins og Samfylkingar er martröð flestra borgarbúa.

Ívar Pálsson, 26.7.2012 kl. 22:49

5 identicon

Á meðan standa ódýru stæðin í bílastæðahúsunum hálftóm flesta daga. Vandi verslunar í miðborginni stafar af flestu öðru en bilastæðaskorti.

Bjarki (IP-tala skráð) 26.7.2012 kl. 23:07

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Við Laugaveginn einan starfa fleiri en eitt þúsund manns.

Og í miðbæ Reykjavíkur, Kvosinni, eru nokkur hundruð verslanir.

Gangið þið nú upp og niður Laugaveginn og Skólavörðustíginn og teljið verslanirnar.

Þorsteinn Briem, 26.7.2012 kl. 23:14

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í póstnúmerum 101, 107 og 105 (Hlíðum og Túnum) í Reykjavík eru rúmlega 40 þúsund íbúar og á Seltjarnarnesi um 4.400 íbúar.

Vestan Kringlumýrarbrautar eru því samtals um 44.500 íbúar
og frá Kringlumýrarbraut að vestustu byggð á Seltjarnarnesi eru einungis fimm kílómetrar, klukkutíma ganga.

Í Reykjavík búa nú 118 þúsund manns og ef Reykjavík og Seltjarnarnes væru eitt bæjarfélag byggju þannig um 40% íbúanna vestan Kringlumýrarbrautar, sem er í raun vesturhluti eða Vesturbær Reykjavíkur.

Þorsteinn Briem, 26.7.2012 kl. 23:18

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Að einblína á Reykjavík eina skekkir heildarmyndina svo mikið að niðurstaðan svona þröngsýnnar nálgunar verður röng.

Eina leiðin til þess að komast sem næst skynsamlegri niðurstöðu er að horfa á höfuðborgarsvæðið í heild, allt frá Gróttu suður að Straumsvík og norður í Kollafjörð.

Þá kemur í ljós að aðeins fjórðungur íbúanna búa vestan Kringlumýrarbrautar og að þungamiðjan er ekki nálægt henni, heldur austast í Fossvogi, skammt vestan Reykjanesbrautar.

Ómar Ragnarsson, 26.7.2012 kl. 23:27

9 identicon

Þessi ákvörðun er ekkert einsdæmi. Hækkaði ekki Alfreð gjaldsrká heita vatnsins um árið hjá OR þegar fólk notaði ekki nægjanlega mikið vatn? Þá var trixið að hækka gjaldskrána og vonast til að fólk færi að skrúfa duglega frá krönum. Núna er Samfylking með svipaða takta, enginn kemur lengur niður í miðbæ akandi, þá er svarið að hækka í stöðumælana svo einhverjir fáist til að koma og leggja bílum.

Þessi hagfræði er skrýtin. Það vita allir að vandamálið í miðbænum er ekki skortur á bílastæðum. Það er alltaf nóg af lausum stæðum, hvort sem um er að ræða Laugaveginn, hliðargötur að Laugaveginum eða aðrar götur miðborgarinnar. Vandamálið er að of fáir koma niður í miðbæ til að versla. Miðborgin er full af túristum á sumrin. Það hefði verið nær fyrir Samfylkinguna að fara í einhverjar hvetjandi aðgerðir, viðurkenna að Íslendingar eru akandi þegar þeir fara niður í bæ, bregðast rétt við því, en ekki hækka gjaldtökuna á stöðumælum. Að koma með einhverjar samanburðartölur á strætómiðum í sambandi við verðlagninguna er húmbúkk sem stenst ekki skoðun.  Enn eitt fíaskóið hjá samfylkingunni í borginni.

joi (IP-tala skráð) 26.7.2012 kl. 23:29

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þungamiðja Reykjavíkur eða höfuðborgarsvæðisins er ekki einhver landfræðilegur punktur.

Þorsteinn Briem, 26.7.2012 kl. 23:31

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á svæðinu frá Gömlu höfninni að Nauthólsvík eru til að mynda Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands, Landspítalinn, Hótel Loftleiðir, Umferðarmiðstöðin, Norræna húsið, Þjóðminjasafnið, Ráðhúsið, Alþingi, Menntaskólinn í Reykjavík, Kvennaskólinn í Reykjavík, Stjórnarráðið, Seðlabankinn, Borgarbókasafnið, Kolaportið, Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Íslands og tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa.

Fólk sem starfar á þessum vinnustöðum getur búið vestan Kringlumýrarbrautar og gengið í vinnuna, hjólað eða tekið strætisvagn.

Þorsteinn Briem, 26.7.2012 kl. 23:44

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

30.12.2011:

"Högni segir að enn sé mikið offramboð á fasteignum, sérstaklega í úthverfum höfuðborgarsvæðisins, um 10 þúsund íbúðir standi auðar, flestar í úthverfunum.

Eignir seljist miklu hraðar miðsvæðis
."

Þorsteinn Briem, 26.7.2012 kl. 23:52

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

7.10.2011:

"Landspítalinn er mikilvægur hlekkur í þeim þekkingarklasa sem hefur myndast við Vatnsmýrina.

Nálægð við Háskóla Íslands, Háskóla Reykjavíkur, hús Íslenskrar erfðagreiningar og fyrirhugaða Vísindagarða styrkir þekkingarmiðju borgarinnar á þessu svæði.


Svæðið liggur upp við Miklubraut sem er aðalsamgönguæð borgarinnar en liggur einnig vel við öðrum mikilvægum umferðaræðum eins og Hringbraut, Bústaðavegi og Snorrabraut.

Kannanir sýna að helmingur núverandi starfsmanna Landspítalans býr í innan við 14 mínútna hjólafjarlægð í vinnuna og fjórðungur starfsmanna býr í innan við 14 mínútna göngufjarlægð.

Þarna er langtímastaðsetningin farin að móta rétt búsetumynstur, þar sem fólk býr nálægt vinnustað en keyrir ekki borgarenda á milli.

Þetta eru mikilvæg verðmæti í borgarsamfélaginu sem ber að varðveita. Þar fyrir utan starfa á annað hundrað starfsmenn spítalans einnig við kennslu og rannsóknir í Háskóla Íslands."

Þorsteinn Briem, 27.7.2012 kl. 01:01

14 Smámynd: Ívar Pálsson

Skipulagsfól(k) Besta flokks/Samfylkingar hugleiða gjaldtöku af bílastæðum stúdenta „af því að þau eiga ekkert að vera á bíl“, sögðu þau aðspurð. Nóg er þrengt að þeim nú þegar með framkvæmdum. En þá gleymist að flestar ódýrari íbúðirnar eru langt uppi í borginni.

Búðir við Laugaveginn og viðskiptavinir þeirra hafa fengið ærlega að þjást, eftir lokanir og álíka rugl. Maður hefur ekið um í marga hringi og gefist upp í leit að stæðum. Bílafjandvænleg stefna borgaryfirvalda er einungis miðuð við þarfir kaffihúsaliðsins í 101 Miðbær.

Ívar Pálsson, 27.7.2012 kl. 01:11

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fjöldinn allur af nemendaíbúðum eru í miðbæ Reykjavíkur og nemendur í Háskóla Íslands, sem búa uppi í Breiðholti, geta tekið strætisvagn í skólann.

Þeir hafa engan sérstakan rétt til að fara á bíl í skólann.


Kjósi þeir það hafa þeir hins vegar sjálfir valið mun dýrari kost, bæði fyrir þá sjálfa og aðra borgarbúa, hvort sem þeir búa uppi í Breiðholti eða miðbæ Reykjavíkur.

Það kostar meiri mengun og meiri innflutning á bensíni, meira slit á götum, fleiri bílastæði í miðbænum og meira pláss vegna þeirra."

"Garðarnir eru Gamli Garður, Skerjagarður, Hjónagarðar, Vetrargarður, Skuggagarðar, Ásgarðahverfið og hinir nýju stúdentagarðar, Skógargarðar, í Fossvogi í Reykjavík."

"Þann 30. desember síðastliðinn voru opnuð tilboð í nýja stúdentagarða Félagsstofnunar stúdenta við Sæmundargötu á Vísindagarðareit.

Um er að ræða fjögur hús með tæplega 300 íbúðum fyrir pör og einstaklinga, alls um 12 þúsund fermetra, sem rísa munu á reitnum milli Oddagötu, Sturlugötu og Eggertsgötu."

Og þessir stúdentagarðar eru nú í byggingu.

Þorsteinn Briem, 27.7.2012 kl. 08:54

16 identicon

Ég er einn af þessum spikuðu Breiðhyltingum sem Steini talar sem um og er fyrir löngu hættur að fara nálægt miðbænum.Það er engin glóra í því að fara þangað þar  sem er gert allt til að koma í veg fyrir að það sé hægt að komast fljótt og vel um.'Eg held að það sé komin tími á að stofan úthverfaframboð til að berjast fyrir málefnum úthverfanna.Allir borgarfultrúar búa í 101 og nágrenni og sjá þann blett sem miðpunkt alheimsins og gefa skít í restina af borginni

Sigurbjörn Kjartansson (IP-tala skráð) 27.7.2012 kl. 10:14

17 Smámynd: Þorsteinn Briem

27.7.2012 (í dag):

"Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær tillögu þess efnis að auglýsa eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu heilsuræktar við Breiðholtslaug.

Í tillögunni kemur fram að engin líkamsræktarstöð sé starfandi í Efra-Breiðholti.
"

Þorsteinn Briem, 27.7.2012 kl. 10:37

18 identicon

Er þér eitthvað illa við breiðhyltinga Steini ?

Sigurbjörn Kjartansson (IP-tala skráð) 27.7.2012 kl. 10:45

19 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég bjó í norðlenskri sveit, Hlíð í Skíðadal, í áratug og drakk þar gríðarlega mikið kaffi, eins og langflestir bændur gera, án þess að vera atyrtir fyrir það af vesalingum:

Morgunmatur: Kleinur, kaffi og hræringur.

Morgunkaffi: Kleinur og kaffi.

Hádegismatur: Kleinur, kaffi og sviðakjammi.

Síðdegiskaffi: Kleinur og kaffi.

Kvöldmatur: Kleinur, kaffi og döndlar.

Kvöldkaffi: Kleinur og kaffi.

Hef hins vegar aldrei fengið mér kaffi á kaffihúsi í Reykjavík og er ekki í neinum stjórnmálaflokki.

Fæ hins vegar engan veginn séð að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að skammast sín fyrir að drekka þar kaffi, enda eru í engu öðru póstnúmeri á landinu skapaðar meiri gjaldeyristekjur en 101 Reykjavík.

Þorsteinn Briem, 27.7.2012 kl. 10:48

20 Smámynd: Tryggvi Helgason

Mér finnst að sumar götur í Reykjavík séu of mjóar. Hvernig væri að rífa húsalengjuna öðru hvoru megin við Laugaveginn, og breikka götuna ? Endurbæta síðan húsakostinn og bílageymslur.

Tryggvi Helgason, 27.7.2012 kl. 11:03

21 Smámynd: Þorsteinn Briem

Móðurafi minn lifði öldum saman, fæddist árið 1899 og dó árið 2000.

Hann fæddist í torfkofa norður í Svarfaðardal og bjó síðustu æviárin einn í blokkaríbúð í Breiðholtinu.

Hann gerði þar allt sjálfur, eldaði matinn, þreif stigaganginn og málaði íbúðina.

Átti aldrei bíl og tók strætisvagn þegar hann fór niður í miðbæ Reykjavíkur, þar sem hann vaktaði skip í Gömlu höfninni.

Hundrað ára gamall.

Gjör slíkt hið sama og hættið að skæla úr ykkur augun!

Þorsteinn Briem, 27.7.2012 kl. 11:05

22 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í gömlu húsunum við Laugaveginn eru mikil menningarverðmæti og þau eru nú ekki beinlínis ókeypis.

Og Laugavegurinn er alveg nógu breiður, einstefna niður verslunargötuna og hluti hennar er nú göngugata.

"Sérbýli sem kostar 40 milljónir í Hvarfahverfi myndi kosta 65,6 milljónir ef það væri í Þingholtunum.

Íbúð í fjölbýli sem í Hvörfum væri metin á 19,8 milljónir kostaði 29,4 milljónir í Þingholtunum, sem er dýrasta hverfið á höfuðborgarsvæðinu."

16.6.2012:

Þingholtin hæst metna hverfið

Þorsteinn Briem, 27.7.2012 kl. 11:51

23 identicon

Það kemur kannski sumum á óvart að það er til fólk sem vill bara alls ekki búa í miðbænum og líður bara ansi vel í úthverfunum

Sigurbjörn Kjartansson (IP-tala skráð) 27.7.2012 kl. 12:22

24 Smámynd: Þorsteinn Briem

Menn geta að sjálfsögðu valið að starfa í miðbæ Reykjavíkur og búa í úthverfi, í stað þess að búa í miðbænum.

Og farið í einkabíl á milli heimilis og vinnustaðar.

Það kostar hins vegar meiri mengun og meiri innflutning á bensíni, meira slit á götum, fleiri bílastæði í miðbænum og meira pláss vegna þeirra.

Og því fylgir gríðarlegur kostnaður fyrir samfélagið.

Þorsteinn Briem, 27.7.2012 kl. 13:32

25 Smámynd: The Critic

Stjórnamálamönnum er illa við einkabílinn, þeir sætta sig ekki við að hann tilheyrir lifnaðarháttum vestrænna ríkja i dag. Þeir reyna hvað sem þeir geta til að gera þeim sem eru á bíl lífið leitt, endalausar hraðahindranir út um allar jarðir. Þær eru ekki reistar til að minka hraða, þær eru reistar til að tefja fyrir þér, slíta bílnum þínum og stór auka eldsneytis eyðslu. Hraðahindranir spretta út þar sem aldrei hefur verið hraða vandamál, á gatnamótum, áður en þú kemur inn í hringtorg, í iðnaðarhverfum og öðrum götum þar sem aldrei er gangandi fólk. Ef það væri virkilega einhver alvara í því að reyna að minka hraða væri nær lagi að setja upp hraðamyndavélar, það væri nóg að hafa kassana tóma. Það eitt að fólk haldi að þarna sé myndavél hægir verulega á umferð. En nei auðvitað kemur það ekki til greina þrátt fyrir að kosta mörgum miljónum minna en hraðahindrun, ástæðan er sú að myndavélarnar skemma ekki bílinn þinn og auka ekki eldsneytis eyðslu.

Þessi utópíu hugsunarháttur um að allir taki strætó er orðin alveg óþolandi. Er sammála um að það þurfi að stofna stjórnmálaflokkinn "úthverfa hreyfingin" flokk sem tekur á samgöngumálum af skynsemi, ekki einhverjum útópíu hugmyndum sem aldrei eiga eftir að verða að veruleika en kosta samt skattgreiðendur miljónir.

The Critic, 27.7.2012 kl. 20:01

26 Smámynd: Þorsteinn Briem

The Critic,

Hverjar eru þessar "útópíuhugmyndir sem aldrei eiga eftir að verða að veruleika en kosta samt skattgreiðendur miljónir"?

Þorsteinn Briem, 27.7.2012 kl. 22:16

27 Smámynd: The Critic

Steini: Þær eru að allir ferðist saman í strætó eða hjóli í norðan gaddinum. Einkabíllinn á að heyra sögunni til. Einkabíllinn er tæki djöfulsins í augum  Besta flokksins, Samfylkingingarinnar og Vinstri grænna.

Peningarnir sem ögmundur ætlar að kasta í að auka tíðni  strætó og tvöfalda farþega fjöldan hefðu mikið betur farið í ummferðarmannvirki sem munu standa um ókomna tíð. Í staðinn verðum þeim eitt í að láta tóma strætisvagna keyra um á 10 mínútna fresti í staðinn fyrir að þeir keyri tómir um á 20 mínútna fresti.

The Critic, 27.7.2012 kl. 23:46

28 Smámynd: Þorsteinn Briem

The Critic,

Langflestir Íslendingar með bílpróf eiga einkabíl, sama hvaða stjórnmálaflokk þeir hafa kosið.

Fyrst aldargamall afi minn gat tekið strætisvagn úr Breiðholtinu niður í miðbæ Reykjavíkur í alls kyns veðrum getur þú það líka.

Og í miðbænum er fjöldinn allur af ókeypis bílastæðum, eins og ég nefndi hér að ofan.

Þorsteinn Briem, 28.7.2012 kl. 00:55

29 identicon

Nú get ég loksins tekið undir hvert orð hjá Ómari.

Meirihluti Reykvikinga hefur kosið úthverfin vegna þeirra lífsgæða sem þar finnast og sem finnast ekki í miðborginni. Þetta eru lífsgæði einsog pláss, sól, garðhola, barnvænt umhverfi með útivistarmöguleikum og síðast en ekki síst, jafnvægi á milli samgöngumáta, hvort sem er bíll, hjól eða 2 jafnfljótir.

Nánast allir Reykvíkingar, og já, segjum bara Íslendngar, hafa líka kosið einkabílinn vegna þeirra lífsgæða sem hann bíður uppá. Frelsi, tímasparnaður, að vera óháður veðri og vindum og eiginleikar bílsins sjálfs, t.d. til flutninga, hefur verið þess virði að eiga og reka einkabíl þrátt fyrir það að það sé dýrt, fyrst og fremst vegna ofuskattlagningar ríkisvaldsins, hvort sem er á innflutningi bíla eða eldsneytis. Þeir sem halda því fram að einkabíll sé "samfélagslega" dýr hafa einfaldlega sett of lágan verðmiða á lífsgæði.

Við höfum setið uppi með stórskrítin borgaryfirvöld á síðustu 20 árum. Á sama tíma og þau hafa skipulagt hvert úthverfið af fætur öðrum hatast þau útí einkabílinn og hafa skipulagt borgina þannig að nánast öll uppbygging stórra vinnustaða á sér stað vestan Klambratúns.

Hugmyndin virðist vera sú að þjónusta og atvinna sé í göngu- og hjólafæri við íbúa í 101 en aðrir geta tekið strætó.

Í þessari hugmyndafræði stangast allt á hvert annars horn. Staðsetning nýs LSP er byggð m.a. á könnun á búsetu núverandi starfsmanna. Stór hluti þeirra býr innan 14 mínútna göngu- eða hjólafæris við núverandi staðsetningu. Engum virðist hinsvegar hafa dottið í hug sú einfalda staðreynd að nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur eða sjúkraliði mun ekki finna sér búsetu í dýrasta hverfi landsins. Nýir starfsmenn munu því koma úr úthverfum og þar með nánast allir framtíðarstarfsmenn nýs spítala. Eina sem hægt er að gera til að redda þessu vandamáli er að leggja niður flugvöllinn og byggja íbúðarhúsnæði þar í staðinn. En hver er önnur af meginforsendum fyrir staðsetningu spítalans ?...jú...nálægð við flugvöllinn.

Ríkisvaldið er núna búið að ákveða að höfuðborgarbúar fái litið sem ekkert af vegafé til fjárfestinga í samgöngum næsta áratuginn en fái í staðinn verulegar fjárhæðir til niðurgreiðslna á rekstri í almenningssamgöngum. Borgaryfirvöld klappa af gleði en enginn spyr borgarbúa frekar en venjulega.

Þetta þýðir einfaldlega skerðingu á lífsgæðum... 

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 28.7.2012 kl. 11:27

30 Smámynd: Þorsteinn Briem

Magnús Birgisson,

Ég bý í vesturbæ Reykjavíkur, um 20 metrum frá sjónum, og hér er nú sólskin og blíða í framgarðinum, sem snýr að sjálfsögðu að sjónum.

Get hér nær daglega séð presidentinn á sprellanum hinu megin Skerjafjarðarins og gangi ég í eina mínútu í vestur er ég kominn út á Seltjarnarnes.

Þetta eru mikil lífsgæði, sem enginn getur toppað, hvorki hérlendis né erlendis.


Það tekur mig korter að ganga niður í miðbæ Reykjavíkur en fimm mínútur að aka þangað og þá þarf ég að finna þar bílastæði.

Ég get gengið eða hjólað Ægissíðuna og alla leið upp að Elliðaám á göngu- og hjólreiðastíg.

Einnig út að Gróttuvita og horft þar á sólarlagið.

Og sömu sögu er að segja af þúsundum annarra Vesturbæinga og Seltirninga.

Langflestir Reykvíkingar með bílpróf eiga einkabíl
, sama hvort þeir búa hér í Vesturbænum, Þingholtunum eða Breiðholtinu.

Og sama hvaða stjórnmálaflokk þeir kjósa.

En það er ekki þar með sagt að allir Reykvíkingar þurfi eða vilji fara á einkabíl í vinnuna og geyma bílinn á bílastæði í átta klukkutíma eða lengur á meðan þeir eru í vinnunni.

Þeir sem vinna á Landspítalanum við Hringbraut geta að sjálfsögðu valið að búa uppi í Breiðholti og taka þar strætisvagn í vinnuna eða fara þangað í einkabíl, sem kostar bílastæði í miðbæ Reykjavíkur átta klukkutíma eða lengur, meiri mengun, meira slit á götunum, meiri umferðartafir, fleiri árekstra og meiri innflutning á bensíni.

Nú eru um 18 þúsund nemendur Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík og ef þeir færu allir á einkabíl í skólann, einn í hverjum bíl, þyrfti um 324 þúsund fermetra af bílastæðum nálægt skólunum undir þá bíla eina.

Það eru áttatíu knattspyrnuvellir.

Þorsteinn Briem, 28.7.2012 kl. 13:36

31 identicon

Steini Briem

Ég er glaður og ánægður fyrir þína hönd að þú upplifir þá lífsánægju að hafa hinn forsetalega sprella fyrir augunum og að þú sért snöggur að labba hitt og þetta enda án efa röskur maður með afbrigðum...

Þetta er þín lífsgæði og mér myndi ekki detta í hug að reyna að skerða þau með einum eða neinum hætti. Borgaryfirvöld með stefnu sinni um þéttingu byggðar gætu hinsvegar verið á þeirri skoðun að útsýnið til hins hæruverðuga sprella sé of gott til að selja bara einu sinni...

Sjálfur bjó ég í 101 í átta ár og kaldasti vetur sem ég hef nokkurntíma upplifað var sumar í vesturbænum. Svo flúði ég eins og flestir þegar börnunum fjölgaði og hef aldrei litið til baka.

En málið er þetta...

Reykvíkingar hafa valið einkabílinn. Borgaryfirvöld og ráðamenn ríkis hafa hinsvegar valið kolgeggjað borgarskipulag og almenningssamgöngur. Og vegna þess að almenningur er eitthvað að streytast á móti þá beitir þetta fólk valdheimildum sínum og skattleggur fólk út úr bílunum sínum og uppí strætisvagnanna og gengur meira að segja svo langt að setja þrengingar í það æðakerfi sem samgöngur eru í borgarlíkamanum.

Spurningin um frjálst val kemur því hvergi þarna inní því borgaryfirvöld og ríki hafa valið fyrir hönd almennings án þess að spyrja almenning um þeirra vilja.

Og hvort bílastæði séu ókeypis eða kosta eitthvað skiptir ósköp litlu máli í þessu sambandi. Bíleigendum finnst flestum sjálfsagt að greiða þann kostnað sem af notkun hlýtur, þ.m.t. bílastæðagjöld.

Það eru hinsvegar notendur almenningssamgangna sem ekki greiða sinn skerf...

Og varðandi auðar íbúðir..

Það eru fleiri auðar íbúðir, yfirgefin hús, opnir grunnar og auð svæði í 101 Reykjavík en í öllum úthverfum höfuðborgarinnar til samans. Húbrisinn reis nefnilega hæst í 101...þeir sem þar búa virðast bara vera svo blindir að þeir sjá það ekki eða átta sig ekki á því.

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 28.7.2012 kl. 15:54

32 Smámynd: Þorsteinn Briem

Magnús Birgisson,

Þú ert greinilega mikill rugludallur og fábjáni.

Þú fullyrðir til að mynda að í 101 Reykjavík séu fleiri en tíu þúsund "yfirgefin hús og opnir grunnar".

30.12.2011:


"Högni segir að enn sé mikið offramboð á fasteignum, sérstaklega í úthverfum höfuðborgarsvæðisins, um 10 þúsund íbúðir standi auðar, flestar í úthverfunum.

Eignir seljist miklu hraðar miðsvæðis
."

Reykvíkingar sem taka strætisvagna greiða að sjálfsögðu útsvar og tekjuskatt.

Og með því að taka strætisvagn í stað þess að fara á einkabíl í vinnuna spara þeir mikil útgjöld ríkis og Reykjavíkurborgar í færri bílastæðum, minni mengun, minna sliti á götunum, færri árekstrum og minni innflutningi á bensíni.

Að sjálfsögðu get ég ekki séð sprellann á presidentinum hinum megin fjarðarins en þú ert náttúrlega svo vitlaus að halda það og hefur því kosið karlinn.

Langflestir með bílpróf eiga einkabíl, hvort sem þeir eiga heima í 101 Reykjavík eða annars staðar á landinu.


Breiðhyltingar hafa ekki valið að eiga einkabíl, frekar en aðrir Reykvíkingar.

Og meðalhiti í vesturbæ Reykjavíkur er að sjálfsögðu hærri en uppi í Breiðholti, enda er oft snjór þar þegar enginn snjór er í vesturbænum.

Þorsteinn Briem, 28.7.2012 kl. 19:05

33 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í 101 Reykjavík eru um 7.400 heimili, í póstnúmeri 107 um fjögur þúsund og póstnúmeri 105 um 6.600.

30.12.2011:


"Högni segir að enn sé mikið offramboð á fasteignum, sérstaklega í úthverfum höfuðborgarsvæðisins, um 10 þúsund íbúðir standi auðar, flestar í úthverfunum.

Eignir seljist miklu hraðar miðsvæðis
."

Magnús Birgisson:


"Það eru fleiri auðar íbúðir, yfirgefin hús, opnir grunnar og auð svæði í 101 Reykjavík en í öllum úthverfum höfuðborgarinnar til samans."

Samkvæmt Magnúsi Birgissyni býr því enginn í 101 Reykjavík.

Þorsteinn Briem, 28.7.2012 kl. 19:41

34 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

bæta almennigssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu í 12 veldi = virkar!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 28.7.2012 kl. 21:26

35 identicon

Steini minn...

Þú ert greinilega vanstilltur með afbrigðum og verður þér eiginlega til skammar í hvert skipti sem þú byrjar að misnota bloggið hans Ómars með samhengislausa gúgglinu þínu og drullukasti yfir alla sem voga sér að mótmæla þér. Afhverju ertu svona hörundsár ?

Þú sagðir sjálfur að þú sæjir presidentinn á sprellanum en ef þú meintir að þú værir sjálfur á sprellanum við að horfa á presidentinn þá vil ég bara segja að svo er margt sinnið sem skinnið.

Hafði Högni rétt fyrir sér ? þú veist það ekki en þú kýst að trúa því vegna þess að það styrkir þína eigin skoðun án þess að þú þurfir að hugsa mikið eða afla þér betri upplýsinga.

Bara vegna þess að einhver segir eitthvað einhversstaðar og það er hægt að gúgla því gerir það ekki að sannleika.

Högni er að tala um öll úthverfi höfuðborgarsvæðisins...ég skrifaði greinilega í höfuðborginni. Þú skilur muninn er það ekki ?...auk þess sem enginn getur staðfest tölur Högna og þær eru örugglega kolrangar.

Hvað er miðsvæðis ? Eignir hafa alltaf selst hraðar "miðsvæðis"..þessvegna eru þær dýrari. En aukningin á byggingarmagni hefur verið í úthverfunum og þessvegna hækkar verðið ekki eins hratt þar. Einfalt lögmál framboðs og eftirspurnar...eftirspurninni er mætt með nýbyggingum í úthverfunum en framboðið "miðsvæðis" er svo til fast. Og þessvegna er straumur fólks útúr "miðsvæðinu"....ætli það sé ekki byggt 3-4 íbúðareiningar í úthverfi á móti hverri einni "miðsvæðis" þannig að það ætti ekkert að fara á milli mála hvað fólk kýs. Það eru úthverfin !!

Og að fólk myndi velja öðruvísi ef það hefði val ? Benda auðu "lúxusíbúðirnar" í 101 til þess ?

Útgjöld ríkis og Reykjavíkurborgar til samgangna eru fjármagnaðar af tekjum sem þessir aðilar afla af bíleigendum. Einungis broti af þessum tekjum er skilað aftur í formi betri samgöngumannvirkja. Almenningsvagnar nota samgöngumannvirki sem eru fjármögnuð af bíleigendum og ef strætómiðinn ætti að endurspegla raunverulegan kostnað við rekstur og eðlilegt hlutfall af uppbyggingu samgöngumannvirkja þá kostaði farið væntanlega nokkur þúsund krónur.

Og þar fyrir utan eru samgöngur hluti af innviðum hvers þjóðfélags. Hagkvæmni samgangna ræður að miklu leiti hversu hagkvæmt þjóðfélagið sjálft er. Þú dreifir ekki 100 tonnum af mjólk til búða í 101 með reiðhjólum og strætisvögnum sem keyra í loftinu...þú gerir það með sendibílum sem keyra á gatnakerfi sem byggt er á kostnað bíleiganda.

Og Anna...alveg rétt...það virkar vel til að auka kostnað við mannflutningu í höfuðborginni um núverandi kostnað í tólfta veldi. 

Magnús Biurgisson (IP-tala skráð) 28.7.2012 kl. 23:37

36 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Takk Magnús minn og Ómar r. minn, hef þessa reynslu frá því að búa í 6 ár í Danmörku og 2 ár í Hollandi. Allur þessi "vandi" hefur þegar verið leystur á Norðurlöndum.

AF HVERJU BLASI EKKI VIÐ ÍSLENDINGUM HVAÐ BER AÐ GERA? hvað er að?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 29.7.2012 kl. 03:17

37 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það er rangt sem er haldið fram hér, að skattlagning á bifreiðaeigendur sé meiri en kostnaðurinn sem hlýst af bifreiðaflotanum. Þarf ekki annað en að skoða fjárlagavef Alþingis til að sjá að því er öfugt farið.

Theódór Norðkvist, 29.7.2012 kl. 03:27

38 Smámynd: Þorsteinn Briem

21.9.2011:

"Fimmtíu íbúðir hafa selst í sex hæða lúxusfjölbýlishúsi við Mánatún 3-5 í [105] Reykjavík á síðustu fjórum mánuðum."

Fimmtíu lúsusíbúðir á einu bretti - mbl.is

Þorsteinn Briem, 29.7.2012 kl. 13:52

39 Smámynd: Þorsteinn Briem

Magnús Birgisson,

Jamm, gúgglið er versti óvinur ykkar fábjánanna!

Þegar ég byrjaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu var enginn með Internetið.

Og fjölmargar fréttir sem ég skrifaði birtust á útsíðum blaðsins.


Hér í vesturbæ Reykjavíkur er enginn fullorðinn karlmaður á sprellanum útivið en það ert þú að sjálfsögðu alltaf, enda fluttur úr Vesturbænum.

Þorsteinn Briem, 29.7.2012 kl. 14:08

40 Smámynd: Þorsteinn Briem

30.6.2012:

"Guðlaugur Ingi Guðlaugsson, sölumaður hjá Stakfelli, segir góða eftirspurn eftir íbúðum í nítján hæða nýjum turni í Skuggahverfinu.

"Við stefnum á að allar íbúðirnar verði seldar þegar húsið verður tilbúið næsta vor eða fyrr.

Það er búið að selja 20 af 40 íbúðum.

Verðið er frá 38 til 99 milljónir króna
," segir Guðlaugur Ingi."

Gerir íbúðirnar dýrari - mbl.is

Þorsteinn Briem, 29.7.2012 kl. 14:24

41 Smámynd: Þorsteinn Briem

9.3.2006:

"Í skýrslunni voru færð rök fyrir því að kostnaður vegna umferðarslysa á Íslandi væri mun meiri en eldri kannanir höfðu leitt í ljós og að kostnaðurinn næmi um 11-15 milljörðum íslenskra króna árlega á verðlagi ársins 1995.

Á verðlagi ársins 2005
samsvarar þetta 21-29 milljörðum íslenskra króna árlega, ef núvirt er með hliðsjón af meðalvísitölu launa 1995 og 2005."

Kostnaður umferðarslysa eftir alvarleika

Þorsteinn Briem, 29.7.2012 kl. 15:26

42 identicon

Steini Briem láttu renna af þér og komdu þér út fyrir 101 og skoðaðu heiminn

GHS (IP-tala skráð) 29.7.2012 kl. 18:58

43 Smámynd: Þorsteinn Briem

GHS,

Hef búið í öllum kjördæmum landsins,
litli ræfillinn þinn, sem þorir ekki að koma hér fram undir nafni og sakar fólk um ofdrykkju.

Síðast þegar ég drakk áfengi var það tveir bjórar á veitingastað með syni mínum fyrir mánuði.

Ertu nú ánægður, auminginn þinn?!

Þorsteinn Briem, 30.7.2012 kl. 07:12

44 identicon

Veistu það Steini Sprelli að það er kennt fólki sem þarf starfs síns vegna að standa í rökræðum, t.d. stjórnmálamönnum og fjölmiðalfólki, að þegar það fer að kalla viðmælendur sína fífl, fábjána, aumingja eða þaðan af verra að þá er það búið að tapa rökræðunni...

Heyri í þér seinna kúturinn minn...

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 30.7.2012 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband