Endilega meiri málalengingar!

"Bíll valt." Tvö atkvæði, - tvö orð, sem segja allt. Nei, slíkt má ekki henda í nútíma fjölmiðlun og "bílvelta varð" er oftast sagt, - fjögur atkvæði í stað tveggja en þessi fjögur segja þó ekki hótinu meira en tvö.

En nú er þetta meira að segja ekki orðið nóg. Það verður að lengja málið enn meira og nú upp í sjö atkvæði í stað tveggja til þess að fyrirsögn fréttarinnar miklu standist lágmarkskröfur, samanber upphaf á frétt, sem er tilefni þessa pistils, svohljóðandi:  "Bílvelta átti sér stað"!  Minna má það ekki vera.

Fjögur orð í stað tveggja og sjö atkvæði í stað tveggja. Þetta er alltaf að batna og ég bíð spenntur eftir því að enn meiri óþarfa málalengingar verði gerðar að lágmarki við það að segja frá því þegar "bíll valt."

Hér er tillaga um nægilegar málalengingar til þess að hægt sé að una við það í bili þar til enn lengra mas verði fundið:

"Þannig vildi til og bar við að bílvelta varð staðreynd og átti sér stað..."  Glæsilegt! Minna má það ekki vera!


mbl.is Bílvelta á Biskupstungnabraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er rétt að það er erfitt að lesa málalengingar, en enn erfiðara er að sjá fyrir sér að Selfoss sé ,,rétt við Skálholtsveg" eins og skilja má af fyrirsögn og frétt. 

Hafdís Rósa Sæmundsdóttir (IP-tala skráð) 20.8.2012 kl. 23:49

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar. Það er margt gagnrýnivert við orðalag frétta.

Eru ekki sumir hrifnastir af því að hér verði einungis töluð enska, eftir að Ísland verður opinberlega orðinn hreppur í ESB-landinu? Á fræðsluskrifstofunni sem ESB hefur sett í stand í miðbæ Reykjavíkur, til að upplýsa almenning um ESB, eru flestir bæklingar á ensku, og starfsfólk þar bendir á upplýsingasíður á ensku.

Ætli Vigdísi Finnbogadóttur og fleiri móðurmáls-íslendingum finnist ekki eitthvað bogið við þetta allt?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 21.8.2012 kl. 00:06

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Enn ein tunnuveltan varð,
í viti margra stórt er skarð,
Mogginn frægan gerir garð,
gerði í brækur enn eitt sparð.

Þorsteinn Briem, 21.8.2012 kl. 01:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband