Þegar tíu hjóla trukkurinn gerðist flugvél.

Afl þessa létta efnis, sem andrúmsloftið er og okkur er gjarnt að umgangast eins og það sé engin þyngd í því, fer stundum langt fram úr því sem við getum ímyndað okkur.

Aftökin, sem hafa verið í Vík, minna á eitt minnsstæðasta atvikið af þessu tagi, sem ég fjallaði um hér á árum áður.

Það gerðist á bænum Steinum undir Eyjafjöllum, þar sem heill tíu hjóla trukkur tókst á loft, flaug eins og flugvél nokkur hundruð metra og settist þar. Förin eftir hann, þar sem hann hafði staðið, voru lík því sem krani hefði tekið hann beint upp og á milli þess staðar og lendingarstaðarins voru engin ummerki, - trukkurinn hafði greinilega flogið á milli þessara tveggja staða án þess að snerta jörðina á leiðinni.

Þetta var óhugnanlegt.

Annað óhugnanlegt atvik gerðist á leið okkar Tómasar Grétars Ólasonar til skemmtunar uppi á Hvalfjarðarströnd á útmánuðum 1962.

Við fórum á myndarlegum International station í hans eigu, sem var líkast til vel á annað tonn á þyngd og höfðum í huga, að betra væri að vera á slíkum hlunk vegna þess að afar hvass suðaustan vindur var, og þá gat verið mjög sviptivindasamt þegar komið væri norður fyrir Tíðaskarð á móts við Hjarðarnes, og sömuleiðis undir Reynivallahálsi og Múlafjalli.

Þetta gekk eftir og það heldur verr en við bjuggumst við, því að þegar komið var norður fyrir Tíðaskarð neyddist Tómas Grétar til að stoppa, því að bíllinn lét ekki að stjórn.

Þarna sátum við í bílnum og fundum, skelfingu lostnir, að hann byrjaði að hoppa, þar sem hann stóð á veginum, líkt og ósýnilegur krani væri að kippa honum upp frá jörðu.

Allt í einu heyrðist hvellur og við sáum furðu lostnir, að vélarhlífin, húddið, losnaði af bílnum og skaust beint upp í loftið eins og tappi úr flösku.

Við horfðum á eftir húddinu hringsnúast hratt beint í margra tuga metra hæð upp í loftið en síðan kom það aftur jafnhratt niður og lent flatt skammt fyrir framan bílinn.

Ljóst var að svo sterkur og snarpur hvirfilvindur hafði komið yfir bílinn að litlu munaði að hann sogaði hann beint upp í loftið. Sogið nægði til að kippa húddinu beint upp af hjörum og við það slaknaði á uppsoginu.


mbl.is Mikið tjón í Vík í Mýrdal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband