Það, sem svo margt sjálfstæðisfólk þráir en fær ekki.

Það, sem kemur í ljós hjá sjálfstæðisfólki í Kraganum, dræm þátttaka í prófkjöri og slakt gengi formanns flokksins, þarf ekki að koma á óvart. Hvað eftir annað hafa skoðanakannanir sýnt, að það er ekki hægt að draga samasemmerki á milli flokksforystunnar og hins almenna kjósanda.

Í skoðankönnun 2002 var helmingur þeirra, sem kváðust styðja Sjálfstæðisflokkinn, á móti Kárahnjúkavirkjun, og var það hvað höfðatölu snertir stærsti flokkspólítíski hópur andstæðinga hennar.

Sama gerðist síðastliðið haust í skoðanakönnun um einn stóran þjóðgarð sem næði yfir mestallt miðhálendið, stærsti flokkspólitiski hópurinn sem studdi það sagðist myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Formaðurinn hvatti stiuðningsmenn flokksins til að fara á kjörstað og kjósa gegn nýju stjórnarskránni.

Mér er kunnugt um allmarga sem ekki hlýddu þessu, ýmist fóru ekki á kjörstað eða fóru á kjörstað og kusu með stjórnarskránni.  

Breiðan hóp sjálfstæðisfólks langar til þess að Sjálfstæðisflokkurinn losi sig frá öllum tengslum við aðdraganda og orsakir Hrunsins og taki upp nýja og hreina stefnu í takt við nýja öld og velji nýtt fólk til að móta hana og fylgja fram.  

En flokksforystan hlustar ekki og fer sínu fram.

En af hverju ræður þessi breiði hópur Sjálfstæðisfólks ekki meiru um þá stefnu, sem framkvæmd er, og þá, sem veljast til forystu?

Þegar því er velt fyrir sér hnýtur maður um lýsingu Hannesar Hómsteins á hinum almenna sjálfstæðismanni, að hann láti sér vel líka að aðrir velji fyrir hann sterka forystu af því að hann nenni ekki að skipta sér af pólitík, heldur vilji "græða á daginn og grilla á kvöldin".


mbl.is Glímir við „arfleifð hrunsins“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í kraganum kusu 5.070 manns. Í prófkjöri Samfylkingarinnar kusu 2.199 37% kjösókn, og var þó næstum því formannsstaða að veði. Get ímyndað mér að stór hópur Samfylkingamanna sé afar óhress með verk og áherslur flokksins í ríkisstjórn og gæti hugsað sér að kjósa allt annað, til dæmis Sjálfstæðisflokkinn.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 11.11.2012 kl. 14:08

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Ómar skil þig ekki alveg þu svona sjálfsæður maður skuiir ekki fylgja sjálfsæðinu,það hefur þó beri helmingurin gert!!!kær kveðja!!!

Haraldur Haraldsson, 11.11.2012 kl. 14:22

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hægri flokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn, misstu samtals 13 þingmenn í síðustu alþingiskosningum, 21% allra þingmanna á Alþingi.

Alþingiskosningar 2009


Og fylgi Sjálfstæðisflokksins nú verður að skoða meðal annars í ljósi þess að Frjálslyndi flokkurinn er nær dauða en lífi og Hægri grænir hafa sáralítið fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn fær í mesta lagi 33% atkvæða í næstu alþingiskosningum og Framsóknarflokkurinn í mesta lagi 15% en líklega töluvert færri.

Og Björt framtíð Guðmundar Steingrímssonar fær að öllum líkindum nokkra þingmenn.

Þorsteinn Briem, 11.11.2012 kl. 14:56

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt frá árinu 1929 fyrst og fremst verið kosningabandalag frjálslyndra og íhaldsmanna.

Fólk sem kýs Sjálfstæðisflokkinn aðhyllist einstaklingshyggju, frjálslyndi, frjálshyggju eða íhaldsstefnu.

Meira kraðak er nú varla til í einum stjórnmálaflokki og samstaðan oft lítil, enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn margsinnis klofnað og brot úr flokknum myndað ríkisstjórn með öðrum stjórnmálaflokkum.

Þorsteinn Briem, 11.11.2012 kl. 15:23

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Í skoðanakönnunum í aðdraganda virkjunarframkvæmda við Kárahnjúka komu ýmsar niðurstöður, allt eftir því hversu lengi bulláróður andstæðinga framkvæmdarinnar fékk að standa óleiðréttur. Andstaðan var mest í byrjun, áður en leiðréttingarnar náðu í gegn.

Á síðari stigum málsins, þegar almenningur hafði fengið staðreyndir á borðið, sýndu skoðanakannanir að meirihluti þjóðarinnar var fylgjandi framkvæmdum. Yfirgnævandi meirihluti var með málinu á Alþingi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.11.2012 kl. 18:19

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Staðreyndirnar sem almeningur fékk á borðið 2003" voru m. a. þessar:

80% vinnuaflsins við framkvæmdirnar yrðu Íslendingar, 20% útlendingar. Niðurstaðan varð þveröfug.

"Bullandi arðsemi." Nú viðurkennir forstjóri Landsvirkjunar að afkoma virkjunarinnar sé óviðunandi.

Fjölgun íbúa í fjórðungnum. Niðurstaða: Íbúum í fjórðungnum hefur fækkað.

Mikill ábati verktækafyrirtækja. Niðurstaða: Flest fóru á hausinn.

Enginn flytti í burtu.  Niðurstaða: Fjöldi fólks beið eftir því að fasteignaverð hækkaði tímabundið til að geta selt og flutt suður.

Traust mannvirki án áhættu.    Niðurstaða í bréfi lögfræðings til landeigenda vegna gróðavonar þeirra var þessi: "Áhættusöm jaðarframkvæmd í landfræðilegu-, tæknlegu-, umhverfislegu- og markaðslegu tilliti."  

Lítil umhverfisáhrif vegna "20 strangra skilyrða".  Niðurstaða: Eitt skilyrðanna ströngu var prentvilla, 3 km urðu 3 metrar. Fleira var eftir því og skilyrðin voru hreinir smámunir sem engu skiptu. Síðar kom í ljós að virkjunin olli mestu neikvæðu óafturkræfum umhverfisáhrifum sem mögulegt er að valda hér á landi.

Ofangreindu og mörgu fleiru trúðu margir 2003-4 og trúa sumir enn, svo sem Pétur Blöndal sem talar um "snyrtileg miðlunarlón" þótt Hálslón sé að mestu leyti á þurru fyrri hluta sumars, þakið fínum leir sem myndar leirstorma sem þurr hnjúkaþeyrinn í sunnanáttum myndar  í bjartviðri hlýrra daga.  

Ragnar Önundarson frambjóðandi í prófkjöri Sjalla í Kraganum skrifaði í Morgunblaðsgrein í vikunni um nýja umhverfisstefnu Sjallanna og sagði um Kárahnjúkavirkjun: "Afkomendur okkar munu njóta en þó eiga frjálst val. Þeir munu geta lokað virkjuninni og fært náttúruna því sem næst í fyrra horf ef og þegar þeir vilja."

Þetta eru nú "staðreyndirnar" sem fólk vill trúa þegar hinar raunverulegu staðreyndir eru þessar: Áætlað var miðað við fyrri mælingar að 10 milljón tonn af auri bærust á hverju ári í Hálslón og yrðu þar eftir að mestu. Taka myndi 2-400 ár að fylla hinn 180 metra djúpa Hjalladal. Ég hef fylgst með aurburðinum og tekið myndir af því hvernig það tók Kringilsá aðeins tvö ár að hálffylla hinn 150 metra djúpa hliðardal, Stuðlagáttina. Vegna hlýnunar er aurburðurinn miklu meir en spáð var, líkast til um 20 milljón tonn á ár. Eftir 50 ár verða það þúsund milljón tonn. Þetta er langmesti aurburður miðað við rennsli í nokkurri á, sem þekkt er. Botnrás Kárahnjúkastíflu er í 80 metra hæð yfir botni lónsins. Af hverju? Af því að lónið mun fyllast svo hratt að það er ekki hægt að hafa rásina neðar.

Af þessu sést hvers konar bulli menn trúa um það að hægt sé að "færa náttúruna í fyrra horf."

Ég reiknaði út á sínum tíma að ef það ætti að fjarlægja allan aur úr Hálslóni jafnóðum og flytja út í Héraðsflóa, þyrfti 200 stóra vörubíla dag og nótt árið um kring.

Miðað við stóraukinn aurburð yrðu þetta varla færri en 400 bílar og 1500 manna byggð gæti myndast í kringum það fólk sem ynni við þetta.

Ómar Ragnarsson, 11.11.2012 kl. 22:17

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Því má svo bæta við að vegna hins stóraukna aurburðar má búast við að dalurinn fyllist allt að tvöfalt hraðar en gert var ráð fyrir, á 1-200 árum.

Ómar Ragnarsson, 11.11.2012 kl. 22:19

8 Smámynd: Villi Asgeirsson

Vona að þú fyrirgefir mér fyrir að skipta um umræðuefni, Ómar. Hef misst mikið úr eftir að ég hætti mikið til að stunda moggabloggið. Var nær daglegur gestur hérna, en kem nú yfirleitt þegar fæslunum þínum er deilt á Facebook. En það yljar mér um hjartarætur að aðal áhangandinn þinn er enn að gera athugasemdir við hverja færslu.

En um efni færslunnar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf átt meira sameiginlegt með trúarbrögðum en stjórnmálum. Fólk kaus Sjálfstæðisflokkin af því það voru sjálfstæðismenn. Það þurfti ekkert að rökstyðja það neitt frekar.

Það sem er að gerast núna eftir hrun er að helmingurinn sér hvað flokksforystan stendur fyrir. Spillingu og eiginhagsmunapot. Það er svo augljóst að jafnvel hörðustu sjálstæðismenn get ekki hugsað sér að kjósa flokkinn. Þeim finnst þeir hafa verið hafðir að fíflum með áratuga stuðningi.

Hinn helmingurinn kýs það sem honum ber að kjósa. Trúir því sem honum er sagt að trúa. Eins og fólkið sem heldur því fram, þrátt fyrir allt, að jörðin sé 6000 ára gömul og að risaeðlubeinin hafi verið grafin í jörð sem prófraun á trú þeirra við Guð almáttugan.

Og að lokum, fyrst maður er byrjaður. Austfirðingar sem hefðu skotið mig fyrir skoðanir mínar fyrir um fimm árum eru sammála mér í dag. Kárahnjúkar og þenslan og ruglið í kring um stífluna og álverið voru stórslys.

Villi Asgeirsson, 11.11.2012 kl. 23:25

9 Smámynd: Hreinn Sigurðsson

Hvað sem forstjóri Landsvirkjunar segir þá er arðsemi Kárahnjúkavirkjunar er meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þú segir: " virkjunin olli mestu neikvæðu óafturkræfum umhverfisáhrifum sem mögulegt er að valda hér á landi." Þá verða það bara smámunir þegar við virkjum Skjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum. :)

Hreinn Sigurðsson, 12.11.2012 kl. 00:47

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er ótrúlegt (en þó ekki) að lesa þessa vitleysu í aths. #6

Forsendurnar fyrir 80/20% hlutfalli vinnuafls breyttust vegna byggingaþenslu í Reykjavík, en þar var svipað hlutfall útlendinga í vinnu hjá mörgum verktakafyrirtækjum. Ef þetta háa hlutfall útlendinga hefði verið á sama tíma og atvinnuleysi hefði verið í byggingariðnaðinum, þá hefði mátt kvarta yfir þessu, en svo var ekki.

"Bullandi arðsemi"... Andstæðingar framkvæmdanna sögðu að "bullandi tap" yrði á raforkusölunni. Þegar hamrað hafði verið á tap-bullinu, þá gerðu umhverfissamtök skoðanakönnun á fylgi við framkvæmdina og fékk niðurstöðu í samræmi við vonir sínar. Ef þeir sem þá tóku afstöðu gegn framkvæmdinni hefðu vitað að arður yrði af orkusölunni, eins og fólk veit í dag, hefði niðurstaðan orðið önnur. Orkuverð er almennt hærra í dag en þegar samningar voru gerðir árið 2003. Það er því fremur auðvelt að segja núna að verið sé ekki viðunandi. Endurskoðunarákvæði í samningnum tryggir þó að orkuverðið hækkar. Auk þess hafa skattar hækkað á stóriðjuna og sú skattahækkun er ekki tekin með í arðsemi á framkvæmdinni.

"Fjölgun íbúa í fjórðungnum. Niðurstaða: Íbúum í fjórðungnum hefur fækkað."  Engin talaði um að íbúum í fjórðungnum myndi fjölga. Ekki fjölgaði íbúum í Stykkishólmi þegar álverið á Grundartanga var byggt, var það? Íbúum fjölgaði hins vegar á Mið-Austurlandi, nákvæmlega jafn mikið og spáð var.

"Mikill ábati verktakafyrirtækja. Niðurstaða: Flest fóru á hausinn." Ertu vísvitandi að segja ósatt með þessu eða veistu bara ekki betur? Er þetta e.t.v. óskhyggja hjá þér? Stór byggingaverktaki og einhverjir fleiri úr þeim atvinnugeira fóru á hausinn hér eystra. Hann byggði fjórar 26 íbúða blokkir á Reyðarfirði og annað eins á Egilsstöðum. Of mikið af íbúðarhúsnæði var byggt hér, langt umfram þörf. Nákvæmlega það sama gerðist í Reykjavík, nema á margfalt stærri skala þar. Mörg verktakafyrirtæki, stór og smá lögðu grunninn að góðri stöðu sinni í dag á verkefnum tengdum álversuppbyggingunni og sum þeirra sameinuðust undir einn hatt í "Launafli", en þar vinna vel á annað hundrað manns við fjölbreytta þjónustu, aðallega fyrir álverið en einnig fyrir aðra.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.11.2012 kl. 00:57

11 identicon

Ómar Ragnarsson fór og fer fremstur í flokki með lygaáróðri gegn Káráhnjúkavirkjun.

Tíðustu lygarnar voru þær, að lónið myndi fyllast af aur og sandi á örfáum áratugum. Niðurstöður mælinga í dag, segir að lónið gæti fyllst á 4-500 árum.

Gunnar Th fer ágætlega í gegnum aðrar lygar Ómars, og óþarfi að fara aftur í gegnum þær.

Hitt er, að með ólíkindum er, að Ómar Ragnarsson hafi verið fréttamaður Rúv áratugum saman. Menn sem ganga um ljúgandi, eiga ekki að starfa sem fréttamenn.

Hilmar (IP-tala skráð) 12.11.2012 kl. 07:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband