Fyrsta demparareiðhjólið 1954.

Líklega hef ég átt fyrsta reiðhjólið á Íslandi sem var með dempara á framgafflinum og gleðst þess vegna yfir því þegar Íslendingar brydda upp á nýjungum á því sviði.

Þegar ég var 14 ára átti ég venjulegt reiðhjól sem ég hjólaði af ástríðu á. Foreldrar mínir voru hræddir um mig því ég hjólaði svo hratt og þrátt fyrir suð um að fá að hjóla lengri vegalengdir út úr bænum bönnuðu þau það, einkum á þeim forsendum að vegirnir væru svo holóttir að hætta væri á að ég bryti framgaffalinn.

Þau höfðu frétt af því hjá einhverjum bílstjóra að ég hefði farið fram úr honum undan vindi niður Ártúnsbrekkuna, sem þá var bæði brött og ómalbikuð á 60 kílómetra hraða og vildu ekki hleypa mér á enn verri vegi.

Ég brá þá á það ráð að fá reiðhjólaverslunina Örninn til þess að flytja inn gaffal með dempurum og setti á hjólið. Þar með féll sú mótbára að gaffallinn myndi brotna og loks kom að því að ég fór með þeim á vörubílnum, sem pabbi átti, með hjólið á pallinum, austur á Sandhól í Ölfusi í heimsókn til Heiðu frænku og Þorláks og samdist síðan um að ég fengi að hjóla af stað í bæinn og þau myndu pikka mig upp.

Ég rauk af stað og hjólaði svo hratt, að ferðin til Reykjavíkur tók aðeins tvær klukkustundir eftir krókóttum og holóttum malarveginum.

Foreldrarar mínir náðu mér aldrei, enda var það klukkustundar og 20 mínútna ferð að fara þessa leið á þunglamalegum vörubíl á þessum tíma.

Þeim fannst þau hafa heimt mig úr helju þegar þau fundu mig heima, því að þau óraði ekki fyrir að ég hefði verið svona fljótur og óttuðust að ég hefði orðið fyrir alvarlegu slysi og verið fluttur í burtu í sjúkrabíl.

Af hjóli þessu fóru margar sögur sem bíða skráningar en það endaði feril sinn í misheppnuðu "stönti" 1. apríl í M.R. þegar allir fengu frí í einn tíma vegna góðs veðurs og ég kom á hjólinu í skólann af því að ég óttaðist að skólafélagar mínir myndu endurtaka hrekk, sem þeir höfðu áður gert mér á NSU örbílnum mínum.

Ég hafði sagt þeim frá því fyrr hvernig maður gæti bjargað sér af baki á fullri ferð af hjólinu og komið hlaupandi niður ef keðjan og hemlarnir biluðu. Þegar nemendur stóðu þarna fyrir utan skólann skoruðu bekkjarfélagar mínir á mig að sanna þetta og varð úr að hópurinn stóð uppi við skólann og ég kom með hjólið.

Ég hjólaði niður Menntaskólatúnið á fulla ferð, kastaði mér af hjólinu og kom hlaupandi niður, en mistókst að taka snöggt í stýrið á því sem siðustu snertingu, en við það átti það að snúast og falla til jarðar.

Hjólið hélt áfram mannlaust niður túnið og flaug fram af bakkanum neðst.

Þar fyrir neðan var þá bekkur fyrir fólk sem beið eftir strætó og hjartað stöðvaðist þegar ég og aðrir nemendur horfðum sem lömuð á hjólið stefna beint á konu, sem þar sat.

Til allrar hamingju beygði konan sig eftir tösku sinni einmitt þegar hjólið small á sætisbakinu, framhjólið og demparagafallinn fóru í keng og það skall þar niður.

Eftir þetta var ekki hjólað meira á þessu hjóli og þar með endaði reiðhjólatímabilið endanlega og tók sig ekki upp aftur fyrr en meira en 40 árum seinna.


mbl.is Nýjung í hjólaheiminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um ógnarhraða undan vindi,
Ómar skrifar níu bindi,
þeim leifturhraða, lífsins yndi,
lauk á konu þar í skyndi.

Þorsteinn Briem, 5.2.2013 kl. 02:53

2 identicon

Hefurðu nokkra hugmynd um það Ómar, af hverju þú ert svona yfir höfuð, enn þá lifandi?

Þorsteinn Jónsson flugkappi taldi sig hafa verndarengil gott ef hann rakti það ekki til  látins frænda!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 5.2.2013 kl. 08:10

3 identicon

Bjarni:

Kannski látinna frænda (2 móðurbræður fóru í fyrra stríði), nú eða bara móður sína?

En hvað um það. Mig langaði til að skjóta inn smá hjólreiðasögu með sögulegt gildi.
Afi minn, frá Seljatungu í Flóa, tók upp á því með nokkrum sportlegum guttum, að fara skáhallt yfir Ísland á hjóli árið 1930.
Þeir tóku strandferðarskip til Raufarhafnar ef ég man rétt og eyddu svo næstu 10 dögunum í að hjóla suður.
Tjöld höfðu þeir, en lítinn kost, - komu við á bæjum og keyptu.
Þeir höfðu einhverja varahluti, svo að enginn varð "stopp"
Þarna hefur kallinn verið 17 ára. Þeir voru reyndar systkinabörn, hann og Þorsteinn nafni hans Jónsson. Og jafn spenntir fyrir öllum ævintýrum, - komu Balbos, loftfara, og svo þegar stríðið skall á, var Þorsteinn Jónsson rokinn til Englands, en gamli minn á skerinu, og tók síðasta alvöru hjólatúrinn ca. 1940/41 til að skoða HMS Hood í Hvalfirð.
Það skal ekki vanmeta þennan fararmáta ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 5.2.2013 kl. 09:02

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég gæti sagt hér afar athyglisverða sögu af því þegar djöflatrúarmenn gerðu þá tilraun 1974 að sjá hvort þeir gætu komið mér fyrir kattarnef með særingum í hálfan dag. Ég var úti í Vestmannaeyjum og varð, án þess að vita af hverju, gripinn furðulegum ótta og þar gerðust atburðir á meðan sem voru ógnvekjandi.

Þetta sögðu djöflatrúarmennirnir símastúlkunni í Sjónvarpinu en hringdu síðan aftur í hana rétt áður en ég kom til Reykjavíkur og sögðu að árangurslausri tilraun hefði verið hætt vegna þess "að það er sterkara sem fylgir honum" eins og þeir orðuðu það.

Ég þykist vita hverjir verndarenglar mínir eru en reyni að gæta þess síðustu árin að hafa í huga að þeir gætu verið orðnir ansi þreyttir á þessu hlutverki sínu.

Ómar Ragnarsson, 5.2.2013 kl. 10:31

5 identicon

Svo þú ert af hinni ágætu Seljatunguætt, Jón Logi, ég þekki margt gott fólk af því kyni. Einstrengislegt, ábyggilegt, beinvaxið og verklagið og margir góðar eftirhermur ;-)

Afi þinn hefur þá væntanlega verið bróðir Jóns í "eftirlitinu"?

Smá limra til Ómars:

Aldrei við áhættu blauður

oft þó að ræki í nauður

alltaf hann slapp

fyrir ótrúlegt happ

svo Ómar er enn ekki dauður!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 5.2.2013 kl. 10:31

6 identicon

Láttu söguna vaða Ómar!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 5.2.2013 kl. 10:33

7 identicon

Bjarni Gunnlaugur, - þetta er allt saman rétt hjá þér ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 7.2.2013 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband