29.3.2013 | 19:19
Nú á að vera hægt að minnka verulega hættu á truflun.
Mikið öskufall var í Heklugosinu 1947 og féll aska þá meðal annars í Skotlandi. Þá hafði fjallið ekki gosið í 100 ár og því mikið af uppsafnaðri kviku og orku undir fjallinu.
Gosin 1970, 80-81, 91 og 2000 voru mun minni, enda fimm- til tífalt styttra á milli gosa en áður hafði verið.
Í flugi mínu með vísindamenn á TF-TAL með íslensk mælitæki til að mæla öskumagn í lofti í Grímsvatnagosinu 2011 kom í ljós, að það var ekki fyrr en skyggni var komið niður í 4-5 kílómetra af völdum öskumengunar, sem öskumagnið fór yfir þau viðmiðunarmörk sem notuð eru varðandi flugbann.
Í tvo daga tókast að halda flugvöllum á suðvestanverðu landinu opnum þótt spátölva í London gæfi það út að þeir skyldu vera lokaðir vegna öskumengunar sem aldrei lét sjá sig.
Af því má ráða að óþarfi hafi verið að loka íslenskum flugvöllum í Eyjafjallajökulsgosinu 2010.
Mælitækin, sem smíðuð voru eftir forskrift Jónasar Elíassonar prófessors, hafa síðan verið notuð í Japan og fengið alþjóðlega viðurkenningu.
Þegar Hekla gýs er næsta víst að hægt verði að nota þessi tæki að nýju og komast hjá móðursýkislegum viðbrögðum tölvu í 2000 kílómetra fjarlægð til stórtjóns fyrir íslenskt flug og flutninga á fólki og fiski.
Það er því góð von til þess að ekki þurfi að koma til flugbanns ef Hekla gýs, nema að afar takmörkuðu leyti.
Væntanlega mun minni áhrif á flug | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Móðursjúk tölva.
Góður!!!
Þorsteinn Briem, 29.3.2013 kl. 19:27
Er málið ekki pínu flóknara, Ómar?
Askan úr Eyjafjallajökli skemmdi hreyfla í þotum finnska flughersins, 2000 km í burtu.
Ætli skyggnið þar hafi verið 4 - 5 km?
.
Fínleiki, þéttleiki og samsetning öskunnar ræður mestu um hversu hættuleg askan er fyrir flugvélahreyfla.
Þú talar um móðursýkisleg viðbrögð. Það er hraustlega orðað.
Þarna var flugöryggið látið njóta vafans, í óvissu ástandi.
Í dag erum við vonandi með aðferðir til að meta hættuna og lágmarka truflanir.
einsi (IP-tala skráð) 29.3.2013 kl. 22:57
Síðasta setningin hjá þér er einmitt um það sem þessar íslensku mælingar snúast, #að meta hættuna og lágmarka truflanir."
Veðrið þessa tvo daga, sem átti að loka flugvöllum á vestanverðu landinu 2011 var þannig að Snæfellsjökull sást frá Reykjavík, heiður og tær í heiðríkjunni og hátt yfir Faxaflóa sást alla leið norður um Vestfirði og norður á Húnaflóa.
Flugvélin var nær stanslaust á lofti allan tíman sem tölvan í London heimtaði flugbanna og það var aldrei nein aska í loftinu, enda sýndu mælarnir aðeins einu sinni örlítið frávik frá hreinu lofti. Það var þegar ég flaug yfir Hellisheiðarvirkjun í 1500 feta hæð yfir virkjuninni!
Ég kalla það bara móðursýki ef tölvuspár í London hefðu fengið að ráða því að loka fyrir allt flug á Íslandi þessa daga, en það hefði verið gert ef þetta hundódýra íslenska mælingaflug hefði ekki verið flogið.
Flugvellirnir sem fengu að vera opnir dagana tvo 2011, voru opnir í Eyjafjallajökulsgosinu 2010, þegar öskufallið var langmest, en lokaðir þegar öskumisturs varð varla vart, bara af því að tölvuspá í London bar ekki saman við raunverulegt ástand.
Þess má geta að öskumagnið í 4-5 kílómetra skyggninu í Ölfusi stóðst flugöryggskröfur EASA sem maður hefði haldið að væru miðaðar við það að flugöryggið væri látið njóta vafans.
Ómar Ragnarsson, 30.3.2013 kl. 00:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.