"15 stiga hiti í Reykjavíkinni"?

Það þarf ekki lítt þekkt örnefni til að fólk fari að rugla með þau og breytingin á Skogafóssi í Skógarfossi er alls ekki sú sem mest áberandi hefur verið.

Einn veðurfræðinganna í Sjónvarpinu nefnir aldrei Vestfirði eða Austfirði eins og málvenja er, heldur talar hann ævinlega um Vestfirðina og Austfirðina.

Og er það bara ekki allt í lagi? kann þá einhver að spyrja.

En þá má spyrja á móti: Myndi mönnum finnast það allt í lagi ef veðurfræðingurinn talaði aldrei um Reykjavík heldur alltaf um Reykjavíkina, til dæmis: "Hitinn komst í 15 stig í Reykjavíkinni". 

Ég held að flestum myndi finnast það skrýtið hjá vel menntuðum manni að taka upp slíka sérvisku og halda henni að alþjóð vikum og mánuðum saman. 

Sami veðurfræðingur virðist oft eiga í erfiðleikum með að tala um staði og svæði. Þegar hann lendir í vandræðum bjargar hann sér oft með því að segja "á þeím slóðum" og maður er litlu nær.

Eitt sinn talaði hann um veðrið á "suðvestanverðu horninu".  Á suðvestanverðu hvaða horni? spyr ég á móti.

Raunar virðist fólk við sunnanverðan Faxaflóa eiga erfitt með að nota mikilvægustu örnefni þess svæðis á þann hátt sem hefur verið hefðbundinn og er bæði eðlilegastur og notadrýgstur.

Það er til dæmis auðveldast að staðsetja hluti í landnámi Ingólfs með því að nota hin gömlu örnefni Reykjanesskaga, Reykjanes og Reykjanestá. Reykjanes er ysti hluti skagans og Reykjanestá er allra yst. 

Í staðinn er fólk farið að nota örnefnið Reykjanes um allan skagann og talar jafnvel um að Bláfjöll og Hellisheiði séu á Reykjanesi.  

 Notkun greinis virðist lengi hafa þótt fín.

 Þannig hefur mörgum þótt það afar fínt í meira en hálfa öld að heilsa ekki með kveðjunni "gott kvöld" sem á sér samsvörun í tungumálum skyldum íslensku, t. d. "god aften" á dönsku eða "good evening" á ensku,- heldur segja "góða kvöldið".   

Í einum spjalltónlistarþætti útvarpsins er tönnlast á "góða kvöldinu"  klukkustundum saman af því að stjórnandanum og viðmælendum hans finnst þetta greinilega svo flott.

Hvernig myndi Dönum finnast ef eihverjir þar í landi tækju upp á því að heilsa að kvöldlagi með því að segja "den gode aften". Eða Bretum ef byrjað væri að heilsa í útvarpi og sjónvarpi með því að segja "the good evening"?  

Auðvitað ríkir málfrelsi í landinu og hverjum og einum er leyfilegt að segja eða bulla hvað sem er í daglegu tali, ef það er ekki meiðandi eða særandi úr hófi fram.

En í öllum nágrannalöndum okkar eru gerðar meiri kröfur til málfars í fjölmiðlum, skólum og stofnunum en á öðrum vettvangi. og hjá fjölmiðlum eru gerðar strangari kröfur þar en hér á landi, til dæmis hjá BBC.

Engum Íslendingi finnst það óeðlilegt og yfirleitt reynum við að standast þær kröfur ef við erum við nám, störf eða þáttöku í umræðum í erlendum stofnunum, skólum eða fjölmiðlum.

Því skyldum við ekki gera sömu kröfur til okkar varðandi íslenskt mál eins og önnur tungumál ?  


mbl.is Skógafoss orðinn Skógarfoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef staðið sjálfan mig að því að hika eða hvá, þegar sagt er við mig; góða helgi.

Er ekki vanur þessu, er þetta ný til komið?

Í þýsku eða ensku byður maður ekki góða helgi, heldur; "nice weekend" eða "ein schönes Wochenende".

Í Grikklandi kynntist ég því að bjóða fólki góðan mánuð á fyrsta degi mánaðarins; "kalo mína". 

Sinn er siður í landi hverju.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 13.5.2013 kl. 12:18

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Vond er þeirra veðurfræði,
í Vestfjarðannasýkinni,
Ómar þrútinn er af bræði,
út af Reykjavíkinni.

Þorsteinn Briem, 13.5.2013 kl. 12:26

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er nú margt skrýtið í henni verslu. En mikið hlakka ég til þegar næstu 20 stig koma í Reykjavkíkinni! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.5.2013 kl. 12:34

4 identicon

Maður hefur nú heyrt "í henni Reykjavíkinni". Það er sjáfsagt rétt að Reykjanes vísi bara til suðvesturodda skagans, sem stundum hefur reyndar líka verið nefndur Reykjanesskagi eða Suðurnes í flt., en Reykjanesbær er þá samkvæmt þessu vitlaust staðsettur, og ætti að heita með réttu Rosmhvalanesbær!

Hermann (IP-tala skráð) 13.5.2013 kl. 13:15

5 identicon

Þeir eru nú nokkrir staðirnir sem ég vísa oftast í með greini, þ.m.t. vestfirðir, Breiðafjörður og Faxaflói og jafnvel Sauðárkrókur þ.e.a.s. þegar vísað er í hann með gælunafninu (Krókinn). Persónulega finnst mér engin ástæða til að agnúast út í aðrar málvenjur en maður notar sjálfur (mér er slétt sama hvort þú sleppir að nota greininn þar sem ég nota hann).

Hins vegar er ástæða til að leiðrétta þegar eintöluerrið er sett þar sem það á ekki að vera (Skóga-r-foss, rannsókna-r-stöð o.s.frv.) eða tekið út þar sem það á að vera (t.d. Kollafjarða(r)heiði)

kv.

ls.

ls (IP-tala skráð) 13.5.2013 kl. 13:26

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég get ekki ímyndað mér að það sé "málvenja" tala um Vestfirðina og Austfirðina, því að þetta er eini maðurinn sem ég hef hitt á lífsleiðinni sem talar svona.

Merking orðsins "málvenja" hefur hingað til verið notað um það þegar mjög margir nota ákveðið orðalag. En kannski hefur þessi merking nú breyst og hægt að nota hana um hvað það sem sagt er.  

Ómar Ragnarsson, 13.5.2013 kl. 13:31

7 identicon

Varpa fram einni spurningu í umræðuna um Skógafoss: Getur það verið að Skógarfoss sé í raun líka til, jafnvel upprunalegra, og þá í merkingunni "fossinn í Skógá", þ.e. Skógárfoss?

Páll Einarsson (IP-tala skráð) 13.5.2013 kl. 13:47

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Víkin eða Reykja(r)vík er heiti á vík í suðurhluta Kollafjarðar í Faxaflóa. Hún nær frá Laugarnesi í austri að Örfirisey í vestri.

Og Víkin er heiti á því hverfi Reykjavíkur sem er í Kvosinni norðan Tjarnarinnar.

Víkurkirkja
var öldum saman sóknarkirkja Reykvíkinga og er líklega frá upphafi kristni á Íslandi þar til Dómkirkjan í Reykjavík var vígð árið 1796.

Víkurkirkja var torfkirkja sem stóð í Kvosinni á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis í miðjum kirkjugarðinum gegnt Víkurbænum.

Fjölmennasta sveitarfélag landsins heitir hins vegar Reykjavík, sem hefur þó í mörgum tilfellum verið kölluð Reykjavíkin.

Þorsteinn Briem, 13.5.2013 kl. 14:47

9 identicon

Ég og veðurfræingurinn erum vissulega ekki margir, en í ljósi þess að ég sé örsjaldan veðurfréttir en hef oft heyrt á vestfirði minnst með greini, erum við fleiri en tveir.

Ég segi líka oft 'góða kvöldið', þó mér þyki 'gott kvöld' formlegra. Segi þó aldrei 'góðan morgun' þó menn segi oft svipað í útlöndum.

kv.

ls.

ls (IP-tala skráð) 13.5.2013 kl. 16:29

10 identicon

Það gefur alveg auga leið að segi einhver „góðan daginn“ getur sá illa amast við því að sagt sé „góða kvöldið“.  Langi einhvern svo til að fara verulega ofan í saumana á muninum á „gott kvöld“ og „góða kvöldið“ þá er staða lýsingarorðsins í fyrra orðasambandinu einkunn en viðurlag í því síðara.  Hefur hingað til þótt hollt að kunna að beita viðurlagi og fjarri því að sýna málfátækt.  Svo finnst mér það vera hæpin rök í umræðu um íslenskt mál að benda á að útlendingar noti ekki tiltekið orðalag.  Til allrar guðslukku er íslenska ekki útlenska og um hana gilda ekki sömu lögmál og útlenskurnar.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 13.5.2013 kl. 17:56

11 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Eg vil þakka þér fyrir mjög góða ádrepu um algengar villur í daglegu máli. Þegar eg var að námi á árunum 1968-1972 í Menntaskólanum í Hamrahlíð voru margir frábærir kennarar sem lögðu áherslu á að tala vandað og gott mál. Mig langar til að nefna Árna Böðvarsson orðabókarritstjóra, Jón Böðvarsson einn af okkar allra bestu sérfræðingum í Njáls sögu, Böðvar Guðmundsson og Hrein Pálsson cand. mag. Einar Laxness, Jóhann Hannesson og að ógleymdri Vigdísi Finnbogadóttur og Birni Þorsteinssyni. Auðvitað voru þar fleiri prýðisgóðir kennarar sem einnig höfðu góð og holl áhrif. Og ekki má gleyma rektor, Guðmundi Arnljótssyni sem talaði afburða vel vandað mál. Þetta var mjög gott veganesti fyrir ungling sem var opinn fyrir allri umræðu um það sem verið var að gerast í umhverfinu og jafnvel fyrir utan Garðana í Gröf.

Ádrepa um það sem betur má fara í daglegu máli er alltaf þörf. En sá sem fræðir þarf ætíð að gæta hófsemi og forðast öfgar og það tekst þér mjög vel Ómar.

Bestu þakkir!

Guðjón Sigþór Jensson, 13.5.2013 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband