Örkin orðin sjófær að nýju og 49% til sölu.

Einhverjum finnst það kannski skrýtið að tengja íslenskan smábát við frétt um geimjeppa´á mbl.isIMG_9445

Jeppinn hefur verið á ferðalagi um mars en báturinn á leiðinnni frá Austurlandi til Suðurnesja.

En þessi tvö farartæki eiga eitt sameiginlegt, þótt vettvangurinn sé ólíkur.  

Þau hafa verið notuð til að kanna svæði, sem annars væru nær óþekkt fyrir alla.

Auk þess tengjast hugsanlegar marsferðir geimfara íslenskri náttúru að því leyti að í Gjástykki hafa alþjóðleg valið sér æfingasvæði fyrir komandi marsfara. IMG_9767

Á Örkinni voru teknar myndir af drekkingu Hjalladals norðan Brúarjökuls á árunum 2006-2008.

Annars væru engar markverðar heimildir til um þennan langstærsta gerning í sögu íslensku þjóðarinnar og þjóðin fengi aldrei að vita hvað hún gerði í raun.

En útgerð Arkarinnar gekk ekki áfallalaust. img_9206[1]

Strönd Hálsóns færðist til á hverjum degi og það þurfti að draga og ýta bátnum niður að henni og koma honum út í lónið um óslétt og gróft land þar sem ekki var hægt að nota bátakerruna.

Hún strandaði einu sinni, og steytti í önnur skipti á grynningum, enda engin dýptarkort til.

Kort hefðu hvort eð er orðið ónýt og úrelt á hverjum degi nema þegar lónið var alveg fullt.

Fyrir bragði skemmdust bæði botn og kjölur verulega,- hlutar af kilinum hreinlega sópuðust burtu og það komu langar ljótar rifur. img_9302[1]

Það komst vatn í öll hin lokuðu hólf hennar sem eiga að tryggja að leki sökkvi ekki bátnum þótt göt komi á ysta byrðinginn. 

Utanborðsmótornum var stolið af Örkinni og 4 hestafla varamótor var of lítill til að ráða við hinn þunga og signa bát.

Guðmundur bóndi á Vaði í Skriðdal og Gréta, kona hans buðust til að koma Örkinni fyrir við bæ sinn og þar stóð hún næstu þrjú árin og Guðmundur gætti hennar eins og sjáaldurs auga síns.

Ég bauð hana til sölu, en hver vill kaupa skemmdan og vélarlausan bát?

Ég gafst upp á útgerð bátsins 2008 en átti þá eftir að sigla talsvert.

 

IMG_9446

Meðal annars átti ég alveg eftir að sigla á Kelduárlóni og Ufsarlóni.

Þar að auki var eftir að sigla snemmsumars á Hálslóni og fara þannig inn í Kringilsárrana.

Sömuleiðis eftir að sigla á því lóni þegar það er orðið alveg fullt.

Þá kom Þráinn Lárusson á Hallormsstað til skjalanna eftir að hafa frétt um þetta ástand og bauðst til að sjá til þess og tryggja það að báturinn yrði sjófær að nýju

Við Helga fórum því um daginn og sóttum bátinn að Vaði og drógum hann til Sandgerðis, samanber myndir teknar á leiðinni, efst á síðunni í Hvalfirði.

IMG_9451IMG_9660

Neðar eru myndir teknar þegar áð var við Háaleitisbraut á suðurleið og loks mynd af Örkinni kominni á endastöð.

Þar tók Kristján Nielsen hjá Sólplasti við honum.

Hann hefur í ýmis horn að líta. IMG_9449

Í húsnæði Sólplasts mátti sjá skútu Björns Jörundar o.fl. og Kristján því kominn með samgöngutæki tveggja tónlistarmanna á svæðið, sjá mynd neðar á síðunni.

Kristján sést hér á tveimur myndum með þremur hjálparmönnum, sem tóku þátt í viðgerðinni.

Á myndinni eru, talið frá hægri: Kristján Nielsen, bláklæddur, Ásgeir Jónsson, Jónas Jónsson og Kristinn Stefánsson.  IMG_9659

Fjölskyldan fylgdist vel með og á þriðju myndinni eru Sigurborg Andrésdóttir, kona Kristjáns og börnin í miðjunni, Benjamín Smári og Ástrós Sóley.

Læt síðan fljóta með eftir hendinni nokkrar myndir teknar á leið Arkarinnar. IMG_9676

Ég keypti 6 hestafla mótor þannig að nú eru 6+4=10 hestöfl til reiðu, sem ættu að nægja til að dóla rólega á henni efir að hún hefur lést verulega og heldur alveg vatni.

Kristján sagði, að með ólíkindum væri að hægt hefði verið að sigla bátnum eins og hann var á sig kominn.

Á honum var bjargað ýmsu úr náttúru Hjalladals, sum lifandi eins og gert var á Örk Nóa fyrir margt löngu.

En Nói bjargaði þó ekki jeppa eins og gert var 2008 þegar Feroza-jeppi sem hlaut heitið "Vatnssósa-Rósa" sökk í Hálslón og varð að ná upp og fjarlægja til að komast hjá stórfelldum náttúruspjöllum af völdum jeppans, sem hefðu annars getað kostað mig tveggja ára fangelsi ef miða má við kærumál, sem þá voru uppi á hendur mér.

Nú hefur þegar margra metra þykkt drullulag sest neðan vatnsborðsins á allan dalinn og á eftir að verða allt að 100 metra þykkt í lokin, en það teljast engin refsiverð náttúruspjöll !  

Af drekkingunni og öllu í kringum hana var ótrúleg saga sem kvikmyndin "Örkin" mun segja þegar / ef að því kemur, en að svo komnu bendir ekkert til þess að hún verði fullgerð meðan ég lifi.

Í bili er aðeins ógert fyrir mig að fara á Örkinni tvívegis yfir í Kringilsárrana til að klára helsta myndefnið fyrir myndina og ljúka siglingum á þessum báti meðan ég hef enn möguleika á því.

Hugmynd mín með því að auglýsa 49% eignarhlut í bátnum er sú, að báturinn verði með heimahöfn í Reykjavík eða annars staðar og að báðir/allir eigendur hennar geti skroppið á honum í smáferðir eða jafnvel til veiða.

Fyrir austan mun ég aðeins þurfa að sigla eina ferð í ágúst 2013 og síðan eina ferð snemmsumars 2014.

 Vegna tæknilegra mistaka hjá mér eru tvær myndir hér að ofan einnig neðst á síðunni.  img_9302[1]IMG_9445


mbl.is Forvitni verið á Mars í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Vonandi nærðu að klára myndina. Þú átt nú einhverja skoðanabræður sem gætu e.t.v. lagt hönd á plóginn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.8.2013 kl. 21:13

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Verð vantar+samníng um nýtingu.

Sigurgeir Jónsson, 8.8.2013 kl. 21:17

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ný Sómajulla kostar um 1.200 þúsund. Annar utanborðsmótorinn er enn ónotaður í umbúðum og myndi nú kosta 500.000. Hinn mótorinn hefur verið nær ekkert notaður en myndi nýr kosta um 300.000. Kerran myndi kosta 900 þúsund í dag.

Alls eru þetta um 2,9 milljónir en ég þekki ekki vel hvernig þessir hlutir lækka í verði eftir aldri og notkun en giska á að heildarsöluverð gæti orðið 2,3 milljónir og að tæpur helmingur næmi um 1,1 millj.

Ef kaupandi telur nauðsynlegt að hafa stærri mótor á bátnum yrði samið um það.

Það eina sem ég þyrfti tryggja fyrir mig væri að fara í þessar siglingar fyrir austan og fara þá með bátinn austur á kerrunni og strax aftur til baka, þannig að heimahöfnin yrði fastur staður hans.

Ég myndi á móti samþykkja að meðeigandi hefði forgang um aðrar siglingar ef það rækist eitthvað á.

Og ég myndi vilja hafa ákvæði um forkaupsrétt á bátnum, ef hann væri til sölu eða ef ég hefði ráð á að kaupa hlut meðeigandans.

Ómar Ragnarsson, 8.8.2013 kl. 22:25

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Að öðru leyti er ég að sjálfsögðu opinn fyrir hverjum þeim tillögum sem áhugasamir hefðu.

Ómar Ragnarsson, 8.8.2013 kl. 22:26

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þakka góðar og drengilegar óskir, Gunnar, og kann að meta þær.

Ómar Ragnarsson, 8.8.2013 kl. 23:11

6 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þakka upplýsingarnar.Þetta eru afbragðs bátar.

Sigurgeir Jónsson, 9.8.2013 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband