Lentu í tveimur flugslysum með nokkurra klukkustunda millibili.

Að lenda í tveimur flugslysum upp á dag, með nákvæmlega tólf ára millibili, er vafalaust einstakt. Enn óvenjulegra hlýtur þó að vera að lenda í tveimur flugslysum með tveggja stunda millibili sama daginn.

En þetta gerðist 1979 að mig minnir þegar TF-EKK, fjögurra sæta einshreyfils flugvél,Cessna 172 Skyhawk, fórst í dimmu vetrarveðri austarlega á Mosfellsheið.

Flugvélin fannst ekki alveg strax en stór þyrla Varnarliðsins var send til að taka hið slasaða fólk og lenti hjá flakinu til að flytja það, en þetta voru fjórir útlendingar, tveir karlar og tvær konur.

Ég fór á vegum Sjónvarpsins á vettvang og gerði frétt um málið.  

En í flugtakinu kom eitthvað fyrir þyrluna sem skall til jarðar og skemmdist mjög mikið. Þar með höfðu sjúklingarnir lent í tveimur slysum á skammri síðdegisstund en sluppu án þess að við bættust alvarleg meiðsli. En nú voru hinir slösuðu orðnir alls ellefu!

Ég hef ekki rekist á hliðstætt atvik í flugsögunni. Útlendingarnir stigu síðar upp í flugvél til að fljúga frá Íslandi.

Einhver hefði hikað við það, hræddur við orðtakið "allt er þegar þrennt er" en hugsanlega hefiur verið hugsað sem svo að líkurnar á því að lenda í flugslysum í þremur flugferðum í röð væru alltof litlar til þess að það væri ástæða að óttast það.

 


mbl.is Lenti í flugslysi fyrir 12 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Líkurnar á að farþegi lendi í flugslysi minnka ekki við að hann hafi áður lent í slíku slysi eða fleirum með skömmu millibili.

Þorsteinn Briem, 8.8.2013 kl. 20:02

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nei, ekki frekar en sjóliðinn, sem stillti sér upp þar sem fyrsta sprengikúlan lenti á skipinu og sagði að það gerði hann vegna þess að líkurnar á að önnur sprengikúla lenti á sama stað væru 1:1000 !

Ómar Ragnarsson, 8.8.2013 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband