Henry Ford, kostir og gallar.

Henry Ford var 63ja ára þegar hann stóð á hátindi frægðar sinnar og orðspors. 1913_Ford_Model_T_Touring_01_2012_DC_00476[1]

Hann hafði gerbylt bílaiðnaðinum með Ford T 1908 og síðan enn frekar 1913 þegar hann tók færibandið í notkun til þess að smíða "farartæki fyrir fjöldann." 

1927 höfðu 15 miljónir Ford T verið seldir, og á tímabili var framleitt meira af Ford T en öllum öðrum bílum til samans, einkum vegna þess að hægt var að lækka verð hans margfaldlega með færibandaframleiðslunni og einnig vegna þess hve bíllinn var sáraeinfaldur en þó léttur og sterkur.

Jafnframt því sem Ford margfaldaði framleiðsluna hækkaði hann laun verkamannanna og gerði þeim þannig betur kleyft að kaupa bílana. Henry Ford lyfti grettistökum á þessum tíma á mörgum sviðum.  

En 1927 urðu straumhvörf í lífi Fords. Árin tvö á undan hafði orðið sprenging í kaupmætti Bandaríkjamanna og fólk fór að kaupa dýrari bíla. Sumir þeirra voru aðeins örlítið dýrari en Ford T, en mun nýtískulegri og betri kaup. Salan á Ford T hrundi.

Ford hafði ekki fylgst nógu vel með og velgengni Ford T hafði stigið honum til höfuðs.  Hann neyddist til að loka verksmiðjunum í nokkra mánuði 1927 meðan hann var að ljúka hönnun á endurbættum bíl, Ford A, og koma honum í framleiðslu.

Á meðan prófuðu milljónir kaupenda aðrar og dýrari tegundir og nú kom sér illa fyrir Ford að hafa aðeins framleitt eina gerð af bílum en enga millistærð. Þótt hann keypti lúxusmerkið Lincoln var það tl lítils í kreppunni.

Ford A seldist að vísu mjög vel í byrjun, en þegar Chevrolet kom með frábæra sex strokka vél 1929, varð hann að metsölubíl, því að Ford A var með aflminni fjögurra strokka vél.

Í stað þess að svara strax með sex strokka vél rauk Ford í það að hanna V-8 vél, sem hann byrjaði að bjóða í Ford B árið 1932.

Það var að vísu djörf ákvörðun og vélin tímamótavél, en þá var kreppan skollin á og auk þess reyndust V-8 vélin vera með barnasjúkdóma vegna þess flýtis sem verið hafði við hönnun hennar.

Sex strokka vélin í Chevrolet var einfaldari og ódýrari en V-8 vél Fords og vegna þess að Ford neyddist út í verðkapphlaup minnkaði ágóðinn af framleiðslunni.

Það þótti vafasöm auglýsing fyrir V-8 vélina, þegar glæpamaðurinn Dillinger lýsti yfir hrifningu sinni á því hve vel hún skilaði sínu þegar hann var að stinga lögguna af sem "óvinur almennings númer eitt." 

Framundan var tími mikils veldis General Motors sem stóð óhaggað í meira en hálfa öld enda var boðið upp á fimm mismunandi stærðir bíla.

Það var aðeins árin 1937, 1957 og 1959 sem fleiri Bandaríkjamenn keyptu Ford en Chevrolet og auk þess bættust bílar Chrysler í hóp skæðra keppinauta. Þar á bæ voru boðnir fjórar mismunandi stórar gerðir bíla.  

Það var ekki fyrr en 1939 sem Ford kom fram með Mercury millistærðarbíl og ekki fyrr en tveimur árum eftir það sem boðið var upp á sex strokka Ford.

Bæði GM og Chrysler buðu upp á vökvahemla á mörgum árum á undan Ford og Ford hékk eins og hundur á roði á forneskulegri þverfjöðrun og heilum öxlum í heil 14 ár eftir að keppinautarnir buðu upp á sjálfstæða gormafjöðrun að framan.

Henry Ford breyttist á undra skömmum tíma úr brautryðjanda á undan sinni samtíð í íhaldssaman og þrjóska gamlan mann.

Hann barðist gegn verkalýðsfélögum og leyfði hrottanum Henry Bennett að ráðst gegn þeim með barsmíðum og ofbeldi.

Hann þótti auk þess hallur undir einvaldana í Þýskalandi og tók upp samvinnu við Rússa. 

Út öldina voru Rússajepparnir með drifum, sem voru af svipuðu tagi og í Ford A.

Ef stríðið hefði ekki skollið á hefðu Ford verksmiðjurnar orðið gjaldþrota. 1937_Ford_V8_Convertible[1]

Sonur Fords, Edsel, fékk að ráða útliti bílanna á árunum 1934-1943 og á þeim árum voru Fordarnir yfirleitt fallegustu bílarnir eins og myndin af Ford ´37 ber vitni um.

Hann fékk frábæran hönnuð, Tjaarda að nafni, til að láta gamminn geysa og Ford 1937 og Lincoln Zephyr 1938 voru nokkrum árum á undan samtíð sinni.

Roosevelt Bandaríkjaforseti, hreifst svo af Ford ´37 að hann hafði einn slíkan á búgarði sínum, Palm Springs.  

Ford ´37 var fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn með innfelldum framljósum.

Ford 1940, sá blái hér fyrir neðan,  Lincoln Zephyr 1936-1940 og Lincoln Continental 1941 þykja einhverjir fallegustu bílar þessara ára.

 

Lincoln Zephyr, sem sést hér á myndinni, var fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn sem var með láréttu grilli í stað lóðrétts. Lincoln_Zephyr_V12_4-D_Sedan_1938_2[1]

En rifrildið og átökin við föður hans fóru illa með hinn tilfinninganæma Edsel og hann lést fyrir aldur fram.

Það kom í hlut sonar hans, Fords yngri, að rétta verksmiðjurnar við eftir stríðið og sú viðreisn tók áratug. Ford  II tókst með bættri hönnun 1949 og verðlækkunarátaki, svonefndu "Ford blitz" og nýrri toppventla V-8 vél árið 1954 að skáka Chrysler og komast nær GM en fyrr.

En í framtíðinni verður afreka Henry Fords fram til ársins 1927 minnst þegar allir aðrir stjórnendur í bilaiðnaði Bandaríkjanna á síðustu öld verða gleymdir. Ford-Deluxe-Coupe-dark-blue-1939-04CLL580340018A[1]   1937_Ford_V8_Convertible[1]


mbl.is Ford fagnar aldarafmæli færibandsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"It is well enough that people of the nation do not understand our banking and monetary system, for if they did, I believe there would be a revolution before tomorrow morning."

Henry Ford

http://www.youtube.com/watch?v=0McsspLZYQE&feature=player_embedded

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 6.10.2013 kl. 05:45

2 identicon

Ford var það athyglisverður, að hans færibandavinna og kenningar fengu þungamiðju í snilldarverki Huxleys, - "Brave new World". Oh Ford!
Enn einn athyglisverður punktur um Ford var brölt hans í S-Ameríku. Kannast einhver við það?

Jón Logi (IP-tala skráð) 6.10.2013 kl. 13:43

3 Smámynd: Tryggvi Helgason

Þarna er sumt ekki rétt með farið. Eftir fyrra stríðið þá fóru amerískir kommúnistar að færa sig meira og meira upp á skaftið. Þeir fóru að mynda launþegafélög þar sem þeir heimtuðu að fá að ráða öllu, og svo fóru þeir að krefjast þess að þeir fengju að mynda launþegafélög í öllum stærri fyrirtækjum, og að sjálfsögðu þar sem þeir einir fengju að ráða öllu.

Þegar þeir reyndu að ráðast inn í Ford verksmíðjurnar þá sagði Henry Ford að meðan hann réði sínum eigin verksmiðjum, þá myndu engir kommúnistar fá þar inn að koma. Hann borgaði sýnu fólki tvöfalt kaup á við aðra og þyrfti enga kommúnista yfir öxlina á sér, og, ef þeir reyndu að komast inn í Ford verksmiðjurnar, þá myndi hann loka verksmiðjunum.

En þá reyndu kommúnistarnir aðrar leiðir. Tókst þeim um síðir að fá sett í reglugerðir að menn í verksmiðjum mættu sækja um að mynda launþegafélög. Þá ætluðu þeir enn á ný að ráðast inn í Ford verksmiðjurnar og stofna launþegafélag, en Henry skellti hurðinni á nefið á þeim. Í framhaldi af því þá ákvað hann, - eins og hann hafði áður margsinnis lýst yfir, - að loka verksmiðjunum fyrir fullt og allt og það gerði hann.

Allur vélbúnaður, færiböndin og allt annað í verksmiðjunum seldi hann í brotajárn.

Nokkru seinna fóru hans afkomendur hans, og önnur skyldmenni að reyna að hafa áhrif á ákvarðanir Henrys og að lokum þá gaf hann sínum skyldmennum allar byggingarnar, sem reyndar voru þá orðnar tómar. Afkomendurnir fengu svo að nota nafnið og byrjuðu að fikra sig áfram og koma framleiðslunni af stað aftur, en Henry Ford sjálfur kom þar hvergi nærri.

En eftir það, þá tókst kommúnistum að lokum að koma sér þar inn og stofna launþegafélög, en það tókst þeim líka hjá öllum hinum bílaverksmiðjunum. Afleiðingarnar eru svo komnar rækilega í ljós í Detroit-borg, sem kölluð var "Bílaborgin" eða "glæsileg miðstöð bílaiðnaðarins í heiminum", ... borgin var talin ein ríkasta borg Bandaríkjanna og allt var þar í blóma.

En kröfugerð og frekja kommúnista var með ólíkindum. Áratugum saman var stanslaust heimtað hærra kaup og meiri sposlur, meiri fríðindi og meiri uppbætur, styttri vinnutími og hærri eftirlaun, og verkföll voru daglegt brauð. Núna eru allar bílaverksmiðjurnar flúnar burt úr borginni og Detroit er orðin eins og ruslahrúga. Mörg hundruð þúsund manns eru fluttir burt úr borginni og 80 þúsund hús standa auð og yfirgefin og grotna niður á tugum ferkílómetra lands, sem komið er í eyði. Manni einum var nýlega boðið eitt af þessum yfirgefnu húsum til kaups, og var kaupverðið ákveðið einn dollar. Maðurinn hafnaði boðinu.

Og glæsiborgin Detroit neyddist til þess fyrir nokkrum vikum að lýsa sig gjaldþrota, ... ja, hvílík reysn yfir bílaborginni frægu. !

Eftir að Henry Ford lokaði verksmiðjunni þá kom hann ekki nálægt rekstrinum meir. En hatur kommúnista á Henry Ford átti sér engin takmörk. Þeir jusu á hann óhróðri, kölluðu hann öllum illum nöfnum og meðal annars lugu þeir því upp að Henry Ford væri nasisti.

Tryggvi Helgason, 6.10.2013 kl. 23:04

4 identicon

Eitthvað rímar pistill Tryggva illa við opinberar skýrslur og upplýsingar um Henry heitinn.  Þannig liggur alveg fyrir að Hitler sálugi hafði á honum miklar mætur og nefndi hann í sinni frægustu bók.  Eitthvað er líka málum blandið með lokun verksmiðja og brotajárnssölu.  Ekki var kommúnistavörðurinn sem Henry fékk sér heldur hvers manns hugljúfi og kaus að láta kylfurnar tala og fer ekki sögum af vanþóknun forstjórans á slíkum „viðræðum“. Og raunin er sú að stjórn verksmiðjanna varð að setja stofnandann af þegar hann hafði misst heilsuna vegna æðakölkunar og heilablæðinga og þekkti ekki sinn vitjunartíma.

Jamm.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 7.10.2013 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband