"Að detta í það..." "Að lenda á fylleríi.."

Orðavalið í ofangreindum tveimur orðtökum íslensks máls segir sína sögu um þær afsakanir og réttlætingar sem hefur verið lenska hér á landi að nota um það þegar fólk ræður ekki við víndrykkju sína.

Benda má við orðavali eins og "greyið, hann var fullur" þegar verið er að bera í bætifláka fyrir afleiðingar víndrykkju.

Emilíana Torrini lýsti vel fyrirbærinu "skyldudjamm"í útvarpsviðtali fyrir um 15 árum. Hún var spurð um gildi jólanna og sagði mesta gildi þeirra vera það, að þá félli niður ein helgi, sem ekki væri með "skyldudjammi" eins og allar hinar.

Jón Gnarr lýsir fyrirbæri, sem aðeins munaði hársbreidd að eyðilegði líf mitt.

Ég var 17 ára og staddur í frumsýningarpartíi í efri sal Iðnó eftir afar vel heppnaða Herranótt 1958.

Eftir nokkra stund bar svo við, að ég hafði af einhverjum ástæðum lent utan við hópinn, þar sem allir héldu á vínglösum og dreyptu á þeim, - eða svo fannst mér.

Á barborðinu stóð fullt vínglas sem mér fannst beinlínis æpa á mig að vera tekið í hönd, fyrst dreypt á því, síðan gengið með það inn í hópinn og dreypt á því þar aftur til þess að komast í samband við hina, vera maður með mönnum og falla í kramið.

Að þau hin myndu taka mér betur og líða betur ef ég yrði á þennan hátt einn af þeim.  

Enn þann dag í dag skil ég ekki af hverju ég hætti við að taka fyrsta áfengissopann þarna því að þetta virtist liggja svo beint við og vera svo sjálfsagt og svo hættulaust.

Síðar hef ég áttað mig á því að þetta var mín ögurstund, og að hefði ég byrjað að neyta áfengis á þessari stundu hefði það eyðilagt líf mitt og ég ekki orðið langlífur.

Ég gekk án glass inn í hópinn og ekki leið á löngu þar til ég var kominn inn í umræðuna í honum og að þörfin fyrir uppörvun með því að drekka vín hafði verið blekking.

Eftir þetta mikilvæga augnablik hefur það aldrei hvarflað að mér að hefja neyslu áfengis né neinna annarra fíkniefna, því að áfengið er svo sannarlega fíkniefni og veldur mestu samanlögðu tjóni af þeim öllum.   


mbl.is Fólk slakar á ef ég er með vínglas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eitt sinn var ég bílstjóri fyrir fjórar dömur á sveitaball.

Allt kvöldið dansaði ég við hinar og þessar og skemmti mér vel.

Þá er átti að keyra heim eftir ballið hófust miklar deilur á meðal drukkinna manna,

hvort rétt væri að leyfa mér svona ölvuðum að keyra.

Ofurhress+dansglaður=ölvaður.

Það tók dömurnar nokkurn tíma að koma mönnum í skilning um

að ég væri sin alco.

Skuggi (IP-tala skráð) 7.10.2013 kl. 20:52

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ærið margt í sveitum sukkið,
sumum um og einnig ó,
aldrei hefur Ómar drukkið,
ætíð hress er kallinn þó.

Þorsteinn Briem, 7.10.2013 kl. 21:19

3 identicon

FYLLERÍISHÁTÍÐIN MIKLA - OKTÓBERFEST

---Nú fer hún fram í München Oktoberfest sem er orðin 200 ára gömul en sú fyrsta var haldin 17.okt. 1810. - Um sex milljónir gesta koma til að þamba bjór. - Bjórþyrstir koma flúgandi úr öllum áttum t.d. frá Ítalíu, BNA, Japan og Ástralíu. -- Hvergi í heiminum er eins mikið ofurþamb og pissflæði og á Theresien-engi þar sem stóru bjórtjaldborgirnar eru (42 ha).

--- Fyrir utan fjölmörgu bjórtjöldin eru á Teresíu-enginu stóra líka tjöld þar sem menn geta lagt sig á bekki (eða eru lagðir til),gubbað í fötur og líka dáið í Bakkusi, bjórdauða. ---Það hefur líka hent að menn hafa hreinlega dáið Drottni sínum.

PS: Í tilefni af pistli Ó.R.

Örnólfur Hall (IP-tala skráð) 7.10.2013 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband