Ástæður þess að Píratar hafa líklega traust fylgi.

Kjósendur sem eru stuðningsfólk Pírata mun vera að mestu leyti á aldrinum 18-28 ára.

Ég átti þess kost að komast svolítið inn í hugarheim þessa ágæta fólks á viku ráðstefnu í Brussel í vor um beint lýðræði netlýðræði og þátttöku almennings í stjórnmálum.

Ljóslega kom fram á ráðstefnunni hve miklir möguleikar eru á þessu sviði og hve nauðsynlegar tillögur stjórnlagaráðs um beint lýðræði eru.

Netið býður bæði upp á framfarir og hættur, kosti og galla. Það opnar alveg nýja möguleika, sem brýn nauðsyn er að aðrir stjórnmálaflokkar en Píratar kynni sér.

Gallarnir geta verið fólgnir í þeirri mótsögn, að auknu víðsýni og aukinni þekkingu geti fylgt ákveðin þröngsýni hjá þeim, sem hverfa alveg inn í netheima og eiga hættu á firringu frá raunverulegu lífi utan netheimanna.

Það er hægt að hafa gríðarlega gefandi samskipti á netinu en ekkert getur samt komið alveg í stað fyrir venjuleg mannleg samskipti, ekki einu sinni Skype eða réttnefndur "sýndarveruleiki."

Hópur þess fólks sem lifir og hrærist á netinu er ekki aðeins nokkuð stöðugur heldur fer stækkandi.

Ég spáði því í vor að Píratar myndu fá nokkuð stöðugt fylgi í kringum 7%  en það eina sem gæti komið í veg fyrir að það fylgi skilaði sér væri að fylgjendurnir nenntu ekki að nota gamla lagið til að fara á kjörstað.

Enginn vafi er á því að dæmið myndi snúast við ef kosningarnar væru komnar úr kjörklefunum inn á netið. Þá myndi stór hópur fólks, sem er seint til að tileinka sér nýja tækni, detta út.

Enginn skyldi vanmeta möguleika Pírata í sveitarstjórnarkosningunum frekar en í alþingiskosningum.

Miklu mun þó ráða málafylgja þeirra og mannskapur, sem boðinn er fram.  

 


mbl.is Píratar bjóða fram í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er nú ekki erfiðara að fara á kjörstað í Reykjavík, þar sem fylgi Pírata er mest, en í næstu matvöruverslun.

Og ekki veit ég til þess að íslenskir Píratar hafi minni samskipti við annað fólk en aðrir Íslendingar án þess að nota til þess tölvur eða farsíma.

Margir Íslendingar byrjuðu að nota Internetið fyrir
um tveimur áratugum, þar á meðal undirritaður.

Og ég var í námi í erlendum tölvuháskóla, þar sem nemendurnir höfðu einmitt mikil samskipti við annað fólk utan skólans, fóru til að mynda í heimsóknir, partí, á böll og veitingahús.

Þorsteinn Briem, 15.12.2013 kl. 03:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband