Ekki spurning um hvort heldur hvenær manntjón verður.

Hættulegustu eldstöðvar á Íslandi eru líklega Snæfellsjökull, Heimaey, Hekla og Öræfajökull ef miðað er við það hve margir gætu verið í hættu vegna eldsumbrota í þessum eldstöðvum, og það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær verður manntjón af völdum eldgoss á Íslandi.

Sem  betur fer líður langt á milli þess sem eldgos gætu orðið mönnum að bana vegna nálægðar hamfaragosa við þétta byggð sem gætu gert usla á borð við þau illskeyttustu  erlendis.

Stórhættuleg hamfaragos eru tiltölulega fá á Íslandi miðað við það að hér gýs að meðaltali á fjögurra ára fresti.

Frá 1961 hafa orðið fjögur Heklugos, níu Kröflugos 1975-84, fjögur Grimsvatnagos, tvö gos í Vestmannaeyjum og eitt gos í Öskju. Raunar er spurning hvort Kröflugosin eigi að teljast eitt níu ára langt eldgos með hléum.

Ef hugsanlegt smágos í Kötlu 1955 er ekki talið með, vegna vafans um hraunkvika hafi valdið hlaupi í Múlakvísl það ár, - ( að svipað hafi verið á seyði þar 19559 og 2011, smágos undir jökli, sjá athugasemd)  - var óvenjulega kyrrt hér á landi í 14 ár, frá Heklugosi 1947 til Öskjugossins 1961.

Sumir sögðu að Sigurður heitinn Þórarinsson, sá magnaði jarðfræðingur, hafi átt bágt að vera svo "óheppinn" að engin gos urðu á þeim hluta ævi hans, þegar eldgos hefðu gefið honum bestu tækifærin til rannsókna. Á móti kom að Surtseyjargosið og þeir Kröflueldar, sem urðu á hans tíð, gáfu alveg einstaklega mikið af sér í tímamótaniðurstöðum varðandi eðli jarðelda á Íslandi.

Þrír hafa farist í elgosum hér á landi síðan Kötlugosinu 1918, - einn varð fyrir eldingu í því gosi, Steinþór Sigurðsson jarðfræðingur varð fyrir glóandi hraungrjóti í Heklugosinu 1947 og einn maður dó úr gaseitrun á meðan á Heimaeyjargosinu stóð.

Snæfellsjökull og Öræfajökull gætu banað fjölda fólks ef þar kæmu gos á borð við þau sem urðu i Vesúvíusi árið 79 fyrir Krist og í Mount Pelee 1902, en í þeim gosum ruddist sjóðheit og eitruð aska niður fjallshlíðarnar og drap allt sem fyrir varð, alls um 30 þúsund manns í St Pierre Martinique. 

Snæfellsjökull hefur hins vegar verið hægt deyjandi eldfjall síðustu hundruð þúsund ár, enda færist eldvirkasti hluti Íslands ofurhægt í austur þótt sú færsla sé talin í milljónum ára og því afar ólíklegt að núlifandi fólk þurfi að hafa áhyggjur af þessu frægðarfjalli Jules Verne. En vaxandi byggð er allt í kringum fjallið og einnig aukin umferð ferðamanna á því og við það.

Ljóst er af minjum að bæir á Litla-Héraði, hinni blómlegu byggð sem var undir Öræfajökli til 1362, grófust í ösku í gosinu það ár og hugsanlega hefur fólk farist í þeim hamförum, sem gerði slíkan usla að veldi Svínfellinga var á enda og gróðulendið og byggðin hafa aldrei náð sér síðan.  .

Hekla er ólíkindatól og gæti verið að þróast í þá átt að springa einhvern tíma í loft upp eins og St. Helens í Bandaríkjunum 1980 en mesta hættan hlýtur þó að teljast vera fólgin í stóraukinni umferð fólks um fjallið, því að fyrirvarinn á gosi er ekki nema klukkustund í besta falli og ekki víst að allir séu með slíka farsímavakt að viðvörun berist til þeirra.

Heimaey er hættuleg eldstöð af augljósum ástæðum, byggðin þar stendur á eldfjalli, sem gaus síðast 1973. Heimaey er einfaldlega stærst Vestmannaeyja, vegna þess að undir henni er eldvirkasti hluti eyjanna.

Miðað við aðdraganda gossins 1973 verður þó að telja að stórbættar jarðskjálftamælingar gætu bjargað miklu.

Erfitt er að átta sig á hættunni af mörgum öðrum eldstöðvum sem fer þó vaxandi með auknum ferðamannastraumi.


mbl.is Ellefu létust í eldgosi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Bláfjöll nærtækust miðað við efni pistils.
Ekki hafði gosið í Heimaey í 5000 ár en
4500 frá gosi í Bláfjöllum.
Varlegt er að treysta á kenningar um kulnuð eldfjöll,
Heimaey er þar víti til varnaðar.

Húsari. (IP-tala skráð) 2.2.2014 kl. 16:10

2 identicon

Takk fyrir ágætan pistil. Mér er minnisstætt að snemma á níunda áratug síðustu aldar átti ég þess kost að "sitja við fótskör" merks jarðfræðings, sem ég vil ekki nafngreina að sinni, og mátti spyrja hann að vild eins og ég hafði vitið til, sem er að sjálfsögðu takmarkað hjá ómenntuðum manni. Meðal þess sem ég man að hann hafði orð á var, að hann sæi fyrir sér gos í samtímanum í Eyjafjallajökli. Að hans mati var í kvikuhólfi undir jöklinum orðin mikil hlutbráðnun, og stór hluti þess orðinn súr og ísúr og bræðslumark því a.m.k. ofan til í því miklu lægri en möttulbasalts. Þar af leiddi, að vegna þess að Kötlueldstöðin væri önnur kynslóð eldfjalla og í kvikuhólfi hennar væri miklu basískari kvika væri hætta á, að kvikuhlaup frá henni til vesturs myndu valda "uppkveikju" í kvikuhólfi Eyjafjallajökuls. Ef við yrðum heppin, yrði "aðeins" um öskugos að ræða, en væri kvikuhlaupið mikið og öflugt, gæti orðið hamfaragos sem ófyrirsjáanlegum afleiðingum, þ.m.t. svipuðu flóði og kom frá Mt.St.Helens og var öllum ofarlega í huga á þessum tíma. - Dr. Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur og nú prófessor emeritus við Long Island University, hefur í ræðu og riti varað við því að Snæfellsjökull sé ekki vaktaður. Úr honum gætu einmitt komið slík hamfaragos og merki væru um að slíkt gos hefði orðið í honum áður. Dr. Haraldur er mjög virtur á sínu sviði í vísindasamfélaginu, líklega mun virtari en við landar hans gerum okkur grein fyrir. Mér hefur skilist að hann sé einna fremstur í eldfjallafræðum á heimsvísu eftir að dr. Haroun Tazieff leið. Annars hef ég verið að pæla í gegnum afskaplega fróðlega bók, sem kom út á síðasta ári og heitir "Náttúruvá á Íslandi" og er í raun fróðleg og læsileg skýrsla okkar færustu vísindamanna um eldgos og landskjálfta. Vonandi hefur það ágæta fólk, sem skipuleggur almannavarnir á Íslandi tök á að tileinka sér það, sem þar er fram reitt.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 2.2.2014 kl. 17:23

3 identicon

Öhömmm.....
Katla, ef að hlaupið fer vestur um, - það er erfiður pakki. Og ef svo færi að það tækist að forða öllu fólki, þá yrði tjónið alveg gífurlegt, og gríðar fellir á fénaði.

Jón Logi (IP-tala skráð) 2.2.2014 kl. 18:34

4 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Hættunar eru reyndar fleiri. Það er gúll í Henglinum sem fór af stað árið 1995 og gæti í raun farið aftur af stað hvenær sem er og án mikils fyrirvara. Gúllin er líklega ísúr sem mundi þýða sprengigos í Henglinum. Þetta mundi hafa mest áhrif á Selfoss, Hveragerði og annað þéttbýli sem þarna er.

Síðan má nefna eldstöðvar eins Hofsjökull, eldstöðvanar í Langjökli svo fá dæmi séu nefnd. Það eru ennfremur fleiri eldstöðvar á Snæfellsnesi sem eru varasamar þó langt sé að eldgos hafi átt sér stað í þeim.

Sú kenning að Snæfellsjökull sé deyjandi eldstöð gengur ekki upp að mínu mati. Þar sem eldvirkni tók sig aftur upp á þessu svæði fyrir rúmlega 2 milljónum ára. Það er ekkert að mínu mati sem bendir til þess að eldvirkni sé deyjandi á þessu svæði. Ég sé reyndar frekar vísbendingar um hið gangstæða, að þarna sé eldvirkni að aukast aftur og muni halda að aukast þarna á næstu milljón árin ef ekki lengur. Ég veit ekki hvað veldur frekar en vísindamenn sem vinna við þetta.

Ég er bara áhugamaður á þessu sviði.

Hérna eru tvær ritgerðir sem ég fann um þetta málefni. Þetta eru ekki fræðigreinar sem slíkar.

http://skemman.is/stream/get/1946/15340/37266/1/BS_Gu%C3%B0n%C3%BD_Rut.pdf

https://notendur.hi.is/oi/Nemendaritgerdir/2008v%20-%20Snaefellsjokull.pdf

Síðasta smágos í Kötlu átti sér stað sumarið 2011 þegar hljóp í Múlakvísl. Það eldgos náði ekki upp úr jöklinum en var eldgos engu að síður þó lítið væri. Árið 2011 var merkilegt að því leiti að það ári áttu sér stað þrjú eldgos.

Eldgos í Grímsfjalli.

Eldgos í Kötlu (lítið).

Eldgos í Hamrinum (Bárðarbunga eldstöðvarkerfið). Þetta eldgos olli jökulflóði en það náði ekki upp úr Vatnajökli. Hérna er frétt mbl.is um það eldgos.

Jón Frímann Jónsson, 2.2.2014 kl. 22:11

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég nefni Snæfellsjökul viljandi fyrstan og hefði átt að minnast á "eldgosið" í Kötlu 2011, sem hugsanlega var álíka ræfill og "eldgosið" þar 1955. Bæti því kannski inn til að gæta samræmis, takk.

Ómar Ragnarsson, 2.2.2014 kl. 22:52

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þess má geta að mesta ræfilseldgos sem vitað er um á jörðinni, átti sér stað þegar eimyrja kom upp úr borholuröri í Bjarnarflagi og dreifðist sem litlar hraunslettur í kringum það, en að öðru leyti gaus ekki í þeirri umbrotahrinu og hún er ekki talin með sem eldgos.

Ómar Ragnarsson, 2.2.2014 kl. 22:55

7 identicon

Þakkir fyrir góða samantekt Ómar.

Það er hollt að minnast þess að ekki munaði nema 7° á halla sprungunnar að eldgosið í Eyjum 1973 kæmi upp undir miðbænum á Heimaey. Einskær tilviljun réð því að gosið kom upp austur á Urðum, þar sem hættan var minnst.

Ari Trausti hefur látið hafa það eftir sér að Eyjar séu hættulegasti staðurinn á Íslandi m.t.t. eldsumbrota.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 2.2.2014 kl. 23:22

8 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Óróinn sem var fylgjandi eldgosinu í Kötlu árið 2011 var meiri heldur en í eldgosinu á Fimmvörðuhálsi árið 2010 í Eyjafjallajökli. Eins og er nefnt í frétt hérna.

Mér finnast þessi litlu eldgos vera oft litin yfir og ekki álitin merkileg. Vegna þess að þau eru ekki stór og mikil um sig. Ég hef þó dregið þá ályktun frá þeim gögnum sem ég hef séð hingað til að lítil eldgos séu oft varasöm og hugsanlega viðvörun um það sem koma skal í stærri eldgosum. Þó oft sé langt á milli í þeim tíma sem fólk notar. Í jarðfræðilegum tíma er þetta auðvitað varla augnablik milli þessara atburða.

Jón Frímann Jónsson, 3.2.2014 kl. 00:02

9 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Björn Hróarsson jarðfræðingur hefur bent á að hættulegasta svæðið á Íslandi þegar kemur að eldgosum er líklega Reykjanesið. Jón Frímann nefnir gúl i Henglinum hér að ofan, en Reykjanesið allt er talið annað virkasta eldfjallasvæði í heimi, á eftir Grímsvötnum.

Á Reykjanesi gýs í hrinum, með um 800 ár milli hrina. Síðasta hrina hófst fyrir um 1000 árum (Svínafellshraun, þar sem Þrengslavegur hefst) og fram á 14. öld voru fjölmörg gos með tilheyrandi hraunrennsli. Gálgahraun, Selvogshraun, Ögmundarhraun eru öll frá sögulegum tíma og hafa náð í sjó fram.

Eldgos á Reykjanesi eru sprungugos sem veita oft stuttan fyrirvara. Hraun er þunnfljótandi og fer hratt yfir. Fyrr eða síðar hefst ný eldgosahrina á Reykjanesi, miðað við áætlaðan tíma milli goshrina þá má í sjálfu sér búast við eldgosi þarna hvenær sem er.

Grindavík stendur bókstaflega ofaná hinu virka eldgosasvæði, auk fjögurra stórra gufuaflsvirkjana.

Hættulegustu eldgos sem verða á Íslandi eru gríðarleg sprengigos, en þau eru til allrar hamingju mjög sjaldgæf. Það má rekja pýróklastískt jarðlag víða á Austfjörðum, t.d. Norðfirði og Reyðarfirði, eftir eitt slíkt gos. Tindfjöll eru einnig talin leifar af stórri eldstöð sem hafi splundrast í gosi sem hefur verið nokkuð mikið stærra en Sankti Helena gosið.

Brynjólfur Þorvarðsson, 3.2.2014 kl. 10:20

10 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Takk Ómar, ætla að legga smá inn í þessa umræðu þar sem þú nefdir ekki eina stór hættulega eldstöð það er Bárðarbunga og hlaup úr henni til norðus, það hlaup gæti hæglega skolað hundruð bæja á haf út eftir þvi í hvaða farveg það lendir.

Sigurður Haraldsson, 3.2.2014 kl. 10:40

11 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mikil fyrirhyggja getur það nú ekki kallast að þjappa saman á eldvirkt svæði mestum hluta Íslendinga.

Þegar eldgos hefst á Bláfjallasvæðinu er óþægileg tilfinning að ekki skuli vera nema ein flóttaleið frá Reykjavík og óvirk eftir 10 mínútur vegna umferðaröngþveitis. 

Árni Gunnarsson, 3.2.2014 kl. 10:51

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Veit ekki til þess að hætta sé á eldgosi vestan Kringlumýrarbrautar og allir Austurbæingar eru velkomnir hingað í Vesturbæinn í eldgosum í Austurbænum.

Mesta hættan er væntanlega á að hraun renni yfir Hafnarfjörð og Garðabæ, sem ætti nú að gleðja Hraunavini.

En harla ólíklegt að hraun næði að renna þangað á nokkrum klukkutímum.

Þorsteinn Briem, 3.2.2014 kl. 11:44

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Reykjaneskerfið (vestast) er um 35 km langt og 5-15 km breitt. Það nær frá Reykjanesi að Grindavíkursvæðinu og að svæði suðaustan við Voga á Vatnsleysuströnd í NA.

Síðasta eldgosahrina varð á fyrri hluta 13. aldar, þ.e. Reykjaneseldar, u.þ.b. 1211-1240.

Trölladyngjukerfið
er 40-50 km langt og 4-7 km breitt. Það teygir sig frá Krísuvík og norður í Mosfellsdal í NA-SV stefnu.

Síðustu gos eru talin hafa átt sér stað á 12. öld, í Krísuvíkureldum, u.þ.b. 1151-1180.

Brennisteinsfjallakerfið
er skilgreint 45 km langt og og 5-10 km breitt og teygir sig frá Geitahlíð í suðri, yfir Bláfjöll og að Mosfellsheiði í NA-SV stefnu.

Síðustu gos eru talin hafa orðið á 9.-10. öld (Bláfjallaeldar). Óstaðfestar heimildir greina einnig frá gosum á 13. og 14. öld sunnarlega í kerfinu.

Hengilskerfið
er um 100 km langt og 3-16 km á breidd. Síðustu eldgos eru talin vera frá fyrir 2000 árum, á gossprungu sem náði frá Sandey í Þingvallavatni og suður fyrir Skarðsmýrarfjall og er m.a. Gíghnúkur á þeirri sprungu."

Þorsteinn Briem, 3.2.2014 kl. 11:48

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bestu búsetuskilyrðin hér á Íslandi eru í Reykjavík og þar af leiðandi valdi Ingólfur Arnarson að setjast þar að.

Meðalhiti á Íslandi eftir mánuðum 1961-1990 - Kort


Meirihluti landsmanna býr við sunnanverðan Faxaflóa vegna þess að þar eru bestu fiskimiðin við landið og veðurskilyrði hagstæð.

Hver eru helstu fiskimiðin við Ísland?


Hver eru bestu fiskimiðin í Faxaflóa?


Í
Kvosinni þar sem Ingólfur bjó, og næsta nágrenni, 101 Reykjavík, eru mestu gjaldeyristekjurnar á landinu skapaðar en Landnám Ingólfs náði frá Ölfusá að Hvalfirði og töluverð kornrækt var stunduð á Reykjanesskaganum á Landnámsöld.

Ingólfur Arnarson var útrásarvíkingur, enda átti að reisa nýtt Landsbankahús þar sem hann kom að landi í Reykjavík.


Landnámabók, 6. kafli - Þá er Ingólfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndugissúlum sínum til heilla; hann mælti svo fyrir, að hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land. Ingólfur tók þar land er nú heitir Ingólfshöfði


Hitafar hérlendis frá landnámi (bls. 23) og hafstraumar hér við land (bls. 26) - Öndvegissúlur Ingólfs Arnarsonar gátu ekki borist með hafstraumum frá Ingólfshöfða til Reykjavíkur

Þorsteinn Briem, 3.2.2014 kl. 12:39

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Pistill minn fjallar eingöngu um hættu á manntjóni. Gríðarleg hamfaraflóð hafa fallið í norður frá Vatnajökli vegna eldsumbrota undir jöklinum, en það á að gefast ráðrúm til að flytja fólk af flóðasvæðum ef slíkt er skipulagt fyrirfram.

Ómar Ragnarsson, 3.2.2014 kl. 14:19

17 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Takk Ómar fyrir svarið, málið er nákvæmlega sem ég hef oft sinnis varað við það er skipulagið þegar flóðið fellur norðuraf landinu því það er ekki neitt skipulag til.

Sigurður Haraldsson, 3.2.2014 kl. 15:58

18 identicon

Það er þó a.m.k. til æfð áætlun ef Katla kellin fer af stað.
En rétt er þetta með Reykjanesið og nærumhverfi Reykjavíkur. Og að hopa til vesturs og niður á við? Rennur hraun ekki niðrí mót? Og eru ekki ríkjandi vindáttir austlægar??

Jón Logi (IP-tala skráð) 4.2.2014 kl. 14:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband