Áhrifaríkar og eftirminnilegar stundir.

Þótt það sé hægt að fljúga meðfram ströndum landsins og njóta landssýnar, jafnast ekkert á við að sigla meðfram þeim. Sumir hlutar strandarinnar bjóða upp á sérlega áhrifaríkar stundir og sigling alla leið í kringum landið nýtur þess kannski mest, hve ólík landssýnin er.

Á leiðinni frá Reykjavík til Grundarfjarðar ræður Snæfellsjökull ríkjum mest allan þann áfanga, en eftir að komið er að Látrabjargi á leið til Ísafjarðar eru það brött Vestfjarðafjöllin sem njóta sín.

Það er einstakt að sigla meðfram Látrabjargi, ekki aðeins vegna gnæfandi bjargsins yfir skipinu, heldur ekki síður við það að sjá að helmingurinn af öllu þessu fuglageri er neðansjávar hverju sinni.  

Eftir að siglt er frá Ísafirði er einhver mesta dýrðin eftir, siglingin fyrir Hornastrandir, sem er alveg ólýsanlega tignarleg og eftirminnileg. Sigling fyrir Kögur, Hælavíkurbjarg og Hornbjarg finnst mér hámarkið á þeim siglingum meðfram ströndum landsins sem ég hef átt kost á að fara í.

Það er einnig afar gaman að sigla inn og út Eyjafjörð og ég get ímyndað mér að sigling meðfram Austfjörðum gefi siglingu meðfram Hornsströndum lítið eftir.

Í lok siglingar sólarsinni í kringum Ísland er síðan siglingin meðfram suðurströndinni gerólík strandsiglingum í öðrum landshlutum. Þá er gefur hið mikla víðsýni og fjarlægðin til stóru jöklanna, Vatnajökuls, Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls alveg nýja vídd.

Ég ætla að enda þessar hugleiðingar með textanum "Að sigla inn Eyjafjörðinn" sem Ragnar Bjarnason söng fyrir mig á diskinum "Ómar lands og þjóðar" - Kóróna landsins með aldeilis sérlega vel heppnuðu undirspili Grétars Örvarssonar.

 

AÐ SIGLA´ INN EYJAFJÖRÐINN.  (Lag: Cruising down the river)     

 

Að sigla´inn Eyjafjörðinn

það er yndislegt um vor

í björtu veðri er býr sig fugl

við bjarg og klettaskor. '

 

Er sólin heit í heiði

baðar haf og dal og fjöll.

Í háum hamraskörðum

heilsa okkur landsfræg tröll.

 

Hrísey, fjarðardjásnið frítt

mót fagurgrænum dal.

Við Múlann vaggar bátur blítt

við bjargsins hamrasal.

 

Um háreist hamraskörðin

hoppa lömb í ró og spekt.

Að sigla´inn Eyjafjörðinn

það er óviðjafnanlegt.

 

Allir hérna afar vel

nú una sínum hag

á skemmtiferðaskipunum,

sem skríða inn í dag.

 

Þar ferðamannahjörðin

kyrjar hátt í ró og spekt:

Að sigla´inn Eyjafjörðinn

það er óviðjafnanlegt.  

 


mbl.is Ætla að sigla umhverfis Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband