Ólöglegt er alltaf ólöglegt.

Þegar núgildandi lög um dýravernd voru í meðferð Alþingis fyrir meira en ári, voru dragbítar í landbúnaðarkerfinu búnir að gera allt sem þeir gátu til að koma nokkrum atriðum frumvarpsins fyrir kattarnef og höfðu meðal annars komið því í gegn að leyfilegt væri að gelda svín án deyfingar.

Þetta vakti mikinn kurr og sem betur fer áttaði meirihluti þingmanna á þessu og tókst að samþykkja lög með ýmsum umbótum í dýravernd, meðal annars því að ódeyfðar geldingar væru bannaðar.

Ljóst er af þessu að dragbítarnir á umbætur hafa ekki látið sér segjast, heldur halda bara áfram ári síðar hinu ólöglega athæfi, allir sem einn, en neita því samt að það brjóti við lög með því að halda því fram að það taki svo langan tíma að framkvæma breytingarnar.

Ef í lögunum hefði verið sett ákvæði um ákveðinn umþóttunartíma, til dæmis einhver ár, til breytinganna, hefði verið hægt að halda fram svona fullyrðingum.

En ekkert í tilkynningu svínabændanna gefur til kynna neitt annað en að þeir geldi svínin á ólöglegan hátt og meðan svo er er það athæfi auðvitað ólöglegt.

Andspyrnan við það að stunda mannúðlega meðferð á dýrum er rík víða um lönd og einnig hér á landi.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá var sett ákvæði um dýravernd, líklega það fyrsta í heiminum, og nýjustu fréttir af þeim málum sýna, að á því er full þörf að binda slíkt ákvæði í stjórnarskrá.


mbl.is Svínabændur hafna fullyrðingum um lögbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

" 16. gr. Aðgerðir og meðhöndlun."

" ... Við sársaukafulla aðgerð eða meðhöndlun skal ávallt deyfa eða svæfa dýr og veita því verkjastillandi meðhöndlun, nema við eyrnamörkun lamba og kiðlinga yngri en vikugamalla."

"45. gr. Refsiábyrgð.

Það varðar mann sektum eða fangelsi allt að einu ári ef:
"

"... h. hann brýtur ákvæði 16., 18.-28., 31. og 32. gr. eða gegn stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra."

"47. gr. Gildistaka.

Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2014.
"

Lög um velferð dýra nr. 55/2013

Þorsteinn Briem, 26.5.2014 kl. 01:19

2 identicon

Sæll Ómar.

Ég held að stjórnlagaráð hafi verið staðdeyfing
sem heppnaðist strax og jafnframt sá leikur í
pólitískri refskák íslenskri sem hvað snjallastur hefur
nokkru sinni verið leikinn frá hruni.

En rétt að láta staðar numið við svo búið.

Húsari. (IP-tala skráð) 26.5.2014 kl. 10:57

3 identicon

Dýravendunarsambandið hefur hvatt til að sniðganga svínakjöt. Það er ekkert mál. Ég vil upplýsa, að ég og fjölskylda mín höfum ekki lagt okkur þetta helvítis óþverrakjöt til munns sl. 30 ár. Ekki bara vegna bágra aðstæðna svínanna, geldingu án deyfingar og halal-slátrunar, heldur er alisvínakjöt almennt fullt af þvagsýru, salmonellu, listeria-bakteríu og penicillíni.

Það næsta sem Dýraverndunarsamtökin ættu að beita sér fyrir, er að láta banna búrhænsnahald. Á meginlandi Evrópu var áralang barátta gegn því dýraníði, sem búrhænur þurfa að líða, og nú í dag er þar búið að afleggja búrhænsnahald, m.a. vegna upplýsinga evrópskra dýraverndunarsamtaka til neytenda, sem brugðust við. Algjört bann þarf líka að koma hér á landi frá Alþingi. Það þarf að hreinsa rækilega út í þessum dýrapyntingaverksmiðjum og á sama tíma hreinsa duglega út í starfsliði Matvælastofnunar.

Íslenzkir neytendur hafa hingað til ráfað um í algjörri fáfræði um þessi mál vegna þöggunar yfirvalda og gríðarlegu dugleysi starfsmanna Matvælastofnunar. En nú er mál að linni.

Pétur D. (IP-tala skráð) 26.5.2014 kl. 15:41

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Afi Ebbi og amma Sigurlaug buðu okkur upp á svínakjöt á hverju aðfangadagkvöldi meðan þeirra naut við. Sjaldgæft var þá að gera slíkt um jólin, því að hangikjöt, lambakjöt eða rjúpur voru vinsælastar.

Ég samþykki því ekki að þetta sé "helvítis óþverrakjöt". En ég er sammála Pétri D. að of lengi hefur skeytingarleysi um meðferð dýra ríkt hér á landi og löngu mál að linni.  

Ómar Ragnarsson, 26.5.2014 kl. 17:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband