Hrunið heldur áfram.

Sú var tíðin á dögum Agnars Koefoed-Hansen, Björns Pálssonar og fleiri frumherja í íslenskum flugmálum, sem sprottnir voru úr grasrót flugsins, að viðurkenndir lendingarstaðir á Íslandi voru allt að tvöfalt til þrefalt fleiri en nú og það á þeim tíma þegar fjárráð þjóðfélagsins, umsvif og tekjur af flugi voru aðeins brot af því sem nú er.

Svo að aðeins sé svipast um í norður frá Reykjavík um Vesturland til Vesturbyggðar voru viðurkenndir og skráðir lendingarstaðir á Hálsnesi í Kjós, norðan við Akranes, Narfastaðamelum, Stóra-Kroppi, Refsstaðamelum, Kaldármelum, Dagverðará og Gufuskálum, í Grundarfirði, við Stykkishólm, sunnan við Búðardal, á Fellsströnd, Stóra-Holti í Saurbæ, við Króksfjarðarnes, í Flatey, við Skálmarnesmúla, Hrífunes, Hvallátur, Patreksfjörð, Tálknafjorð og Bíldudal.

Ég lenti margsinnis á öllum þessum flugvöllum og minnir að það hafi verið braut á Skógarströnd, sem ég lenti aldrei á.  

Hvað um það, þetta eru alls 20 flugvellir hið minnsta. Með niðurlagningu Patreksfjarðarflugvallar og vallanna við Dagverðará og á Kaldármelum síðustu þrjú árin eru aðeins þriðjungurinn af þessum völlum, 5 vellir eftir, en 15 eru aflagðir.

Þegjandi hafa menn tekið þessu hruni, en einhvers staðar hlýtur línan að liggja, þar sem of langt hefur verið gengið.

Hrunið er of stórt til þess að hægt sé að afsaka það með því að stórbatnandi vegakerfi geri flugið óþarft. Þar að auki er árlegur kostnaður við að valta lendingarbraut og viðhalda lögboðnum merkingum á henni hlálega lítill miðað við veltu Isavia, þótt hann geti verið dýr fyrir einstakling.

Það þekki ég vel, sem auk þess að halda úti fimm brauta flugvelli í lengstu mögulegu fjarlægð frá heimili mínu með samtals 4,7 kílómetrum af flugbrautum, þarf að inna af hendi gjöld til Flugmálastjórnar fyrir að sinna þeirri hugsjón, að á hálendi Íslands sé einn flugvöllur sem allar flugvélar í innanlandsflugi svo og stærstu erlendu björgunarflugvélar geti notað ef þörf eða neyð krefur.

Dæmi sýna að til þess getur komið hvenær sem er. 

Flugbrautirnar á Sauðárflugvelli (BISA) eru jafnlangar og á samtals fimm af hinum aflögðu flugvöllum á vestanverðu landinu og ég á afar erfitt með að skilja þessa ásókn í að fækka stöðugt lendingarstöðunum.  

Frumherjar flugsins höfðu skilning á grasrótarstarfinu, sem er undirstaða flugsins og menntunar sífjölgandi flugverja eins og mótmæli flugskólanna bera vitni um, og ég veit að margt gott fólk vinnur enn hjá flugmálayfirvöldum, sem vill sinna grasrótinni vel og ég hef átt mjög góð samskipti við.

En hrunið í flugvallarmálunum heldur samt áfram. Asakið, en ég skil þetta bara ekki.        

 

 


mbl.is Mikill missir fyrir flugnema
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ef kostnaður vegna viðhalds þessara flugvalla er mjög lítill ættu viðkomandi sveitarfélög að geta sinnt viðhaldinu ef þau hafa einhvern áhuga á því.

Þorsteinn Briem, 24.6.2014 kl. 20:54

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Flugskólarnir á höfuðborgarsvæðinu ættu að geta greitt kostnaðinn við lendingarstaðinn á Kaldármelum, ef hann er svona lítill. 

Þorsteinn Briem, 24.6.2014 kl. 21:07

3 identicon

Sveitastjórnarpólítíkin (inklusiv er borgarstjórnarpólítík!) hefur nú ekki verið þekkt fyrir framsýni eða víðsýni í þessum málum. Auðveldara er fyrir skammtímasjónarmið að forða sér frá ákvarðanatöku, og vera svo stikkfrí þegar allt fer upp í loft.
Það er flugmannaskortur í heiminum, og ótrúleg "verksmiðjuframleiðsla" víða um heim á atvinnuflugmönnum með lágmarksmenntun og lágmarksreynslu í flugi við misjafnar aðstæður, svo og reynslu í almennu "aerobatic" og "bushplaining".
Pöpulnum er svo sossum sama, ef að bara er ódýrara flug. Einu hrekkirnir eru þegar farþegavélar fara niður fyrir algeran aulaskap. Nóg til að dæmum. Og sem betur fer líka dæmi þegar gamlir refir með breiða þekkingu á flugi hafa komist hjá stórslysum með snörum viðbrögðum og víðtækari þekkingu en á sér stað í hermi eingöngu og með lágmarks reynslu til sparnaðar.
Bara svona hugleiðsluefni....

Jón Logi (IP-tala skráð) 24.6.2014 kl. 22:26

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Skattgreiðendur og neytendur greiða allan kostnað við flug, til að mynda vegna þjálfunar flugmanna.

Þorsteinn Briem, 24.6.2014 kl. 22:45

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Skattgreiðendur og neytendur greiða einnig allan kostnað vegna landbúnaðar.

Skattgreiðendur greiða stóran hluta af kostnaði við sauðfjárrækt, enda þótt þeir kaupi aldrei lambakjöt, og greiða einnig stóran hluta af kostnaði við flug, enda þótt þeir fljúgi aldrei.

Og þótt flugnemar greiði sjálfir kostnað vegna námsins geta flugmenn fengið há laun hjá flugfélögunum, meðal annars vegna mikils kostnaðar við námið.

Flugfarþegar og skattgreiðendur greiða þennan launakostnað, ríkisstyrki vegna flugsins og kostnað við rekstur flugvallanna.

Þorsteinn Briem, 24.6.2014 kl. 23:11

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ríkið sér um gerð hafna landsins. Það sér um gerð og viðhald vega. En síðan mega sumir ekki heyra nefnt að það sjái um gerð og viðhald flugvalla.  

Ómar Ragnarsson, 24.6.2014 kl. 23:27

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki veit ég til þess að nokkur maður sé á móti flugi og flugvöllum.

Nema þá Isavia.

Þorsteinn Briem, 24.6.2014 kl. 23:54

8 identicon

Án þess að ég geti nokkuð um það fullyrt (enda hef ég ekki séð þær forsendur sem notaðar voru við útreikningana), þá hljómar þetta engu að síður eins og sparnaður í fáeinum krónum og aurum vegi þyngra en raunverulegt gildi þessara gæða. Það virðist því miður vanta of oft í þessi reiknilíkön hver fórnarkostnaðurinn er gagnvart meintum skammtímasparnaði.

Það þarf líklega ekki að vera með einkaflugmannspróf til að fá vinnu hjá Isavia - en það dugar skammt að kunna á töflureikni ef æfa þarf lendingar við tiltekin skilyrði, hvað þá ef skima þarf eftir lendingarstað í neyð.

Allt er þetta þó spurning um skilgreiningu þarfa og forgangsröðun og flug virðist liggja vel við höggi þessi misserin.

TJ (IP-tala skráð) 25.6.2014 kl. 00:07

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Veit ekki betur en að að íslenska ríkið sé að spara á flestum eða öllum sviðum, til að mynda á Landspítalanum, hvort sem kostnaðurinn er mikill eða lítill.

Og flugskólarnir á höfuðborgarsvæðinu ættu sjálfir að geta greitt kostnaðinn við lendingarstaðinn á Kaldármelum, ef hann er svona lítill. 

Þorsteinn Briem, 25.6.2014 kl. 00:20

11 identicon

Það er til lítils að spara aurinn og kasta krónunni.

Jón Logi (IP-tala skráð) 25.6.2014 kl. 09:01

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það eru margir "aurar" í eitt þúsund og fimm hundruð milljörðum króna og margra milljarða króna vextir greiddir árlega af þeirri skuld, sem þar að auki fara til erlendra aðila.

Margt smátt gerir eitt stórt, safnast þegar saman kemur og dýrt að vera fátækur.

Þorsteinn Briem, 25.6.2014 kl. 10:46

13 identicon

Ég var nú bara að minna á að margur svokallaður sparnaður hefur komið út sem kostnaðarauki. Og sá tommar neikvætt á móti skuldum.
Oft hefur Ómar nefnt niðurstöður í nískupúkagangi við vegakerfið, og fleira má nefna í því sambandi, t.d. með samgöngur og heilbrigðiskerfið.
Það varð enginn sparnaður við að leggja niður fæðingadeild & skurðdeild í Vestmannaeyjum, því þyrluflugið varð fljótt dýrt.
Samskonar aðgerð var hálfstöðvuð á Selfossi, þar sem að í ljós kom að þar var aðstaða sem dýrari varð í Reykjavík, og varla í boði.
Alltaf er þó verið að slá fram hlutum sem falla á rökum, - stundum þó ekki, og komast í gegn, verða til tjóns, og enginn er ábyrgur.
Þetta heitir að kasta krónunni til að hirða aurinn.

Jón Logi (IP-tala skráð) 25.6.2014 kl. 16:21

14 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Ómar, er sammála þér um skammsýni þessa niðurskurðar. Í stóra samhenginu þá er stöðugur niðurskurður á öllum sviðum þjóðfélagsins. Hann er auk þess vaxandi. Hvers vegna? Það er vaxandi kostnaður í þjóðfélaginu sem er skuldin sem bremsar af athafnafrelsi okkar og að auki er sóknin í gróða skaðleg. Megin ástæða þessa er að bankarnir búa til peninga sem skuld.

Gunnar Skúli Ármannsson, 25.6.2014 kl. 20:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband