Franskir bændur, áhrifamiklir langt út fyrir landsteinana.

Frakkland er áberandi dreifbýlla en Þýskaland, Ítalía, Bretland og fleiri nágrannalönd. Áhrifa þess hefur gætt á mörgum sviðum fransks þjóðlífs og menningar. 

Þegar Citroen 2CV og Renault 4 voru hannaðir, voru þarfir franskra bænda hafðir í huga, með því að hafa þessa bíla með mikla veghæð og langa, mjúka fjöðrun til að fara mjúklega yfir lélega malarvegi, slóða og akra. 

Citroen-bragginn átti að standast þær kröfur að hægt væri að aka yfir plægðan akur með glás af eggjum án þess að nokkurt þeirra brotnaði. 

Byltingarkennd vökva-loftfjöðrun Citroen DS var undramjúk og með stillanlegri veghæð. 

Franskir bændur hafa alla tíð verið harðir aðgerðarsinnar og öflugir í að halda hagsmunum sínum fram.

Rekja má gríðarlega ríkisstyrki allra Evrópulandanna til landbúnaðar til forystuhlutverks franskra bænda lungann úr síðustu öld og þar með til ábyrgðar þeirra á einhverju mesta óréttlætinu í heimsbúskapnum, sem felst í niðurgreiðslu- og styrkjakerfi vestræns landbúnaðar sem kemur í veg fyrir að suðrænni lönd geti nýtt sér landkosti sína.

Öll þróunarhjálp vestrænna landa er aðeins lítið brot af þeim fjármunum, sem með þessu er rænt frá fátækum landbúnaðarþjóðum utan Frakklands.

Og lítið stoðar að minnka styrkjakerfi landbúnaðarins í öðrum löndum Evrópu en Frakklandi á meðan franskir bændur eiga vélaherdeildir mörg þúsund traktora ( hugsanlega fengna á niðurgreiddu verði) til þess að sækja til Parísar í þeim mæli, að minnir helst á sóknir vélaherdeilda Rommels 1940 og Pattons 1944.    


mbl.is Bændurnir koma - til Parísar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Högni Elfar Gylfason

Það fer þér ekki vel að vera með svona sleggjudóma um vestrænan landbúnað Ómar.  Betur færi á því að þú kynntir þér ástæður vestrænna ríkja fyrir því að stuðla að því að landbúnaður í löndunum leggist ekki af.  Ég bendi þér á að lesa grein eftir framkvæmdastjóra Bústólpa í síðasta Bændablaði sem er að benda a tilurð "landbúnaðarstyrkja" hér á landi.  Svo ættir þú að geta séð fyrir þér hversu mikið t.a.m. mengun myndi aukast í heiminum ef landbúnaðarafurðir yrðu í miklu meira mæli en þegar er orðið yrði flutt fram og til baka um heiminn.

:-)

Högni Elfar Gylfason, 3.9.2015 kl. 08:48

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Um 45% af útgjöldum Evrópusambandsins renna til landbúnaðar í aðildarríkjunum og 39% til uppbyggingarsjóða."

"Sænskir bændur um 135 milljarða íslenskra króna á ári í styrki frá Evrópusambandinu, sem er hærri upphæð en nettótekjur bændanna."

Þorsteinn Briem, 3.9.2015 kl. 15:55

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég vona að þú hafir tekið eftir því að ég tala um að ekki sé hægt að krefjast styrkjalauss landbúnaðar á Íslandi í samkeppni við styrktan landbúnað í Evrópu. 

Þvert á móti tel ég, að vegna smæðar Íslands og ríkja eins og Noregs, sem styrkja landbúnað sinni ekki aðeins á forsendum þess að eiga eitthvert fæðuöryggi, heldur líka vegna menningarlegrar nauðsynjar og ímyndar landsbyggðarinnar, til dæmis vegna ferðamennsku, geti litlu löndin engu ráðið um heildarmyndina, sem er mótuð af stóru þjóðunum í Evrópu. 

Vestrænu ríkin hafa hingað til talið sig vera að berjast fyrir viðskiptafrelsi og frelsi til flutninga varnings og nauðsynja um heiminn svo að kostir markaðarins njóti sín, og það er mótsögn í því að segja að vegna mengunar eigi aðeins að takmarka flutning landbúnaðarvara en leyfa frjálsan flutning alls annars. 

Ómar Ragnarsson, 3.9.2015 kl. 15:55

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Skýrsla Evrópunefndar lögð fram af Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, í mars 2007:

"Evrópusambandið hefur í dag stærsta net viðskiptasamninga í heiminum og nýtur þess í sínum samningum að vera ekki aðeins stærsti einstaki viðskipaaðili heims, heldur einnig sá aðili sem hefur stærstan innri markað og sá aðili sem veitir meira en helming allrar þróunaraðstoðar í heiminum."

Þorsteinn Briem, 3.9.2015 kl. 15:56

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

16.4.2015:

"Þrátt fyrir gildistöku fríverslunarsamnings Íslands við Kína um mitt síðasta ár dróst útflutningur þangað saman um tæpan þriðjung milli áranna 2013 og 2014."

Um þriðjungi minni útflutningur héðan frá Íslandi til Kína þrátt fyrir fríverslunarsamning

Þorsteinn Briem, 3.9.2015 kl. 15:59

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Meðalaldur búfjáreigenda hér á Íslandi er 54 ár og margir þeirra eru með mjög lítil sauðfjárbú, þannig að þeir vinna einnig utan búanna, sem verða sumarbústaðir þegar þeir bregða búi.

Og fastur kostnaður meðalsauðfjárbús árið 2008 var 249 þúsund krónur á mánuði að meðtöldum launum eigendanna, samkvæmt Hagtölum landbúnaðarins árið 2010.

Þorsteinn Briem, 3.9.2015 kl. 16:20

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Heildarstuðningur við landbúnað hérlendis hefur verið talinn 12-13 milljarðar króna á ári undanfarin ár.

Tæpan helming greiða landsmenn í matarverði en rúman helming með sköttum.

Innflutningsverndin kemur beint við neytendur sem greiða hærra verð fyrir vöruna en ella.

Verndin felst einkum í tollum en innflutningsbann er nú eingöngu sett á af heilbrigðisástæðum.

Annar stuðningur er greiddur í gegnum skattkerfið og er því ekki jafn gegnsær fyrir neytendur.

Steini Briem, 21.7.2010

Þorsteinn Briem, 3.9.2015 kl. 16:26

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sjálfstæðisflokkurinn vill að tollar á íslenskum sjávarafurðum verði nú felldir niður í Evrópusambandsríkjunum fyrir íslenska útgerðarmenn.

En flokkurinn vill að sjálfsögðu ekki að tollar á landbúnaðarvörum frá Evrópusambandsríkjunum verði felldir niður fyrir íslenska neytendur.

Þorsteinn Briem, 3.9.2015 kl. 16:28

10 Smámynd: Högni Elfar Gylfason

Reyndar sá ég bara að þú skrifaðir að á meðan Fransmenn eigi mikið af dráttarvélum sem þú telur hugsanlega vera niðurgreidda stoði lítið að minnka styrkjakerfi" í öðrum Evrópulöndum.  Ertu þá á þeirri skoðun að ekki eigi að styðja við landbúnað í Evrópu ef franskir bændir missa samtakamátt sinn?  Ég hvet þig eindregið til að lesa greinina sem ég vísaði til í fyrri athugasemd minni þar sem sagt er frá raunverulegri ástæðu "landbúnaðarstyrkja hér á landi.  Og varðandi síðustu fullyrðingu þína um að ég hafi gerst sekur um mótsagnarkennd verð ég að mótmæla því.  Ég benti á hversu mikið mengun myndi aukast ef auknum flutningi matvæla milli landa.  Það er bara staðreynd sem þarf að hafa til hliðsjónar.  Svo er ég þeirrar skoðunar að þetta eigi alls ekki eingöngu við um matvæli heldur allan varning sem fluttur er milli landa.  Slow Food matarmenningin sem sífellt fleiri aðhyllast byggir að hluta á því að neyta fæðu sem varð til sem næst þeim stað sem þú ert staddur á.  Með því að fyljga því minnkar þú kolefnisspor þitt til mikilla muna og sama á við aðrar vörur sem þú þarft að brúka, sama hvaða nafni þær nefnast.

Högni Elfar Gylfason, 3.9.2015 kl. 19:57

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Með því að fylgja því minnkar þú kolefnisspor þitt til mikilla muna og sama á við aðrar vörur sem þú þarft að brúka, sama hvaða nafni þær nefnast."

Dráttarvélar, kjarnfóður, tilbúinn áburður, illgresis- og skordýraeitur, heyrúlluplast og olía er flutt hingað til Íslands frá Evrópu til að framleiða hér landbúnaðarvörur.

Og eitt svínabú í Danmörku getur framleitt allt svínakjöt sem við Íslendingar neytum.

Þorsteinn Briem, 3.9.2015 kl. 21:13

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Meirihlutinn af fatnaði og matvörum sem seldur er í verslunum hér á Íslandi er erlendur.

Þar að auki eru erlend aðföng notuð í langflestar "íslenskar" vörur, þar á meðal matvörur.

Erlend aðföng í landbúnaði hérlendis
eru til að mynda dráttarvélar, alls kyns aðrar búvélar, varahlutir, tilbúinn áburður, heyrúlluplast, illgresis- og skordýraeitur, kjarnfóður og olía.

"Íslensk" fiskiskip hafa langflest verið smíðuð í öðrum löndum Evrópska efnahagssvæðisins og þau nota að sjálfsögðu einnig olíu.

Og áður en vélvæðing hófst í landbúnaði hérlendis keyptu "Bjartur í Sumarhúsum" og hans kollegar innflutta ljái, lampaolíu, áfengi, kaffi, tóbak, sykur og hveiti.

Og hvaða hráefni er notað í "íslenskar" pönnukökur?

Kexverksmiðjan Frón
notaði eitt þúsund tonn af hveiti og sykri í framleiðslu sína árið 2000 en formaður Framsóknarflokksins heldur náttúrlega að það hafi allt verið ræktað hérlendis og "Bjartur í Sumarhúsum" hafi slegið grasið með berum höndunum.

Leggist allir flutningar af hingað til Íslands leggst því allur 
"íslenskur" landbúnaður einnig af.

Þorsteinn Briem, 3.9.2015 kl. 21:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband