Óljóst um samábyrgð.

Hvað eftir annað í stjórnmálasögu landsins hefur það gerst, að einstakir ráðherrar komist upp með ýmislegt umdeilanlegt, af því að samábyrgð annarra ráðherra í ríkisstjórn, er ekki skýr.

Þetta er mun meira áberandi hér á landi en í nágrannalöndunum og getur stundum verið bagalegt.

Í öðru lagi hefur samábyrgð Íslendinga með öðrum þjóðum í alþjóðlegu samstarfi stundum verið umdeilanleg.

Íslendingar gengu til dæmis ekki í Sameinuðu þjóðirnar fyrr en árið 1946 af því að við vildum ekki segja Öxulveldunum stríð á á hendur á meðan á stríðinu stóð.

Ýmis dæmi má nefna um það þegar einstakir ráðherrar hafa tekið sér vald, sem þeir ættu ekki að geta gert einir, heldur yrði viðkomandi ríkisstjórn að vera samábyrg um það.

Þannig tók Ólafur Jóhannesson sér býsna mikið vald í viðræðum við breska ráðamenn í deilunni um 50 mílna landhelgina.

Og hann samdi og lagði fram einn frumvarpið um verðtrygginguna á útmánuðum 1979, - lög, sem enn í dag vefjast fyrir stjórnvöldum.

2003 tóku tveir ráðherrar, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson af skarið varðandi það að Íslendingar yrðu á lista yfir "viljugar þjóðir" og hefur mikill meirihluti landsmanna verið ósáttur við það æ síðan.

2010 drógumst við inn í hernaðaraðgerðir gegn Gaddafi einræðisherra í Líbíu og um það réði Össur Skarphéðinsson þáverandi utanríkisráðherra mestu, en ráðherrar Vg fóru undan í flæmingi þegar gengið var á þá um aðild þeirra eða ábyrgð á þessu.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir að samábyrgð (kollektiv) ríki um svona ákvarðanir í ríkisstjórn, og að einstakir ráðherrar geti því aðeins sagt sig frá henni, að þeir láti bóka um það sérstaklega á ríkisstjórnarfundi. 

Þegar litið er til baka er ljóst að hin herlausa þjóð Ísland hefði betur látið það ógert að taka á sig ábyrgð á því sem gerðist í Írak 2003 og í "arbíska vorinu" 2010.

Komið hefur í ljós að hvað eftir annað bregst vestrænum leiðtogum bogalistin við að meta þjóðfélagsástandið hjá fjarlægum þjóðum við aðstæður og hugsunarhátt sem er gerólíkir því sem við þekkjum.   


mbl.is Studdi ekki hernaðaraðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þann 10. maí 1940 hernámu Bretar Ísland. 

Með hernámsliðinu kom maður að nafn  Lionel S. Fortesque. Hann var kennari við hinn fræga skóla, Eaton. Hann var vel kunnugur á Íslandi, hafði komið hingað árlega, a.m.k. frá því eftir fyrri heimsstyrjöldina og hafði tekið tvær ár á leigu, Vatnsdalsá og Fnjóská og hugðist rækta þar lax.

Hann þekkti marga fremstu stjórnmálamenn og aðra fyrirmenn hér á landi og vildi helst tala íslensku enda þótt hún væri dálítið bjöguð.

Í Lesbók Morgunblaðsins 15. sept. 1974 birtist stórfróðlegt viðtal við þennan mann, þar sem hann lýsir hernáminu, fundi með ríkisstjórninni og öðrum samskiptum við áhrifamenn þess tíma. 

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 2.12.2015 kl. 22:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband