Blaut tuska framan í vitni.

Ásakanir um að verið sé að setja upp leiksýningar þegar teknar eru myndir á Landsspítalanum eru eins og blautar tuskur framan í þá mörgu sjúklinga sem hafa orðið vitni að því hvernig ástandið er. 

Þá er bara að þurrka bleytuna frá tuskunni framan úr sér og gefa vitnisburð. Það er ekki hægt að þegja við þessum síendurteknu ásökunum í garð okkar góða heilbrigðisstarfsfólks.  

Atvikin höguðu því þannig, að ég lemstraðist talsvert og beinbrotnaði í tveimur slysum í fyrravetur, fyrst 6. desember og síðan 14. apríl. 

Í bæði skiptin voru myndatökur nauðsynlegar, og í síðara skiptið ansi miklar, því að um var að ræða báða ökkla, bæði hné, hægri olnboga og hægri öxl. 

Í síðara skiptið var nauðsynlegt að ég gisti eina nótt og færi síðan heim. 

Eftir bæði slysin tóku við nauðsynlegar endurkomur og sjúkraþjálfunartímar. Endurkomurnar urðu alls fimm og sjúkraþjálfunarferðirnar á spítalann til að liðka fyrir endurhæfingu fimmtán. 

Sem sagt, ég varð vitni að ástandinu á spítalanum í Fossvogi alls 22 komudaga og engan þessara daga var um að ræða nein sérstök hálkuslys eða aðstæður, sem voru óvenjulegar vegna slysahættu. 

Bílastæði spítalans voru full eða yfirfull alla dagana og mörgum bílum oft lagt fyrir utan bílastæði, jafnvel úti í sköflum. 

Á Bráðadeildinni var alltaf sama ástandið, sem maður kynntist kannski best þegar beðið var á gangi innan við afgreiðsluna eftir því að gips harðnaði eða af öðrum sökum, starfsfólkið var á stanslausum þönum í kapphlaupi við tímann og dvöl sjúklinganna í biðröðum skipti oftast klukkustundum. 

Í slíkri streitu og óðeðlilegu ástandi eykst hættan á mistökum og því að ófullnægjandi tími gefist til að sinna hverjum sjúklingi. 

Í seinna tilfelli mínu þurfti að taka myndir út um allan líkamann því að beinbrotin gátu verið mörg, og svo óheppilega vildi til að ekki sást í þetta skipti að ég var ökklabrotinn hægra megin. Brotið sást ekki greinilega nema frá alveg sérstöku sjónarhorni og í kapphlaupinu við takmarkaðan tíma, aðstöðu og mannskap, voru teknar einar 12-15 myndir, en þær hefðu kannski þurft að vera eitthvað fleiri, kannski aðeins einni fleiri. 

Fyrir bragðið varð meðferðin á þesu svolítið fyndin:  Venjulega er fólk sett í gips í sex vikur og byrjar síðan að ganga. En í mínu tilfelli kom brotið ekki fram á mynd, fyrr en eftir að ég var búinn að ganga á beinbrotinu í sex vikur, og þá var ég auðvitað settur í gips, sem kom í ljós að þurfti aðeins í um tíu daga.  

Þegar ég heyri ráðist að starfsfólki spítalans með ásökunum um "leiksýningar" sárnar mér það mjög að ráðist skuli að ósekju að þessu góða fólki, sem við erfiðar aðstæður gerir allt sem í mannlegu valdi stendur til að líkna og þjóna sjúklingunum af einstaka ljúfmennsku og dugnaði og gerir svo sannarlega sitt besta.

Þetta er ekki það eina.

Í hitteðfyrrahaust fór ég á biðlista vegna nauðsynlegrar eftirmyndatöku eftir aðgerð við nýra, sem var þess eðlis, að ekki mætti líða meira en þrír mánuðir frá aðgerðinni, svo að hægt væri að ganga úr skugga um að ekki væri þar að taka sig upp krabbamein. 

Vinur minn, sem var með gáttaflökt, lenti líka á tveggja mánaða myndatökubiðlista, af því að fjárveitingin til þess var búin það árið!  Takið eftir, ekki vegna skorts á starfsfólki. 

Við fórum báðir í rússneska rúllettu, hann vegna hættu á heilablóðfalli og ég vegna hættu á krabbameini. 

Hann tapaði því áhættuspili sem hann neyddist til að spila, og fékk slæmt heilablóðfall sem kostaði margra mánaða spítalameðferð, þannig að sparnaðurinn af því hafa fjárveitinguna of litla fyrir myndatökurnar varð ekki einasta enginn, heldur varð kostnaðurinn í heild í peningum, þjáningum og skertri heilsu margfaldur miðað við "sparnaðinn".  

Ég beið í sjö mánuði í staðinn fyrir þrjá á mínum biðlista og reyndist heppinn í minni rússnesku rúllettu. 

Auðvitað dauðfeginn og ánægður með minn hlut, - en afsakið þótt ég fyllist depurð yfir því að ég veit að þarna úti eru einhverjir, sem voru ekki eins heppnir og ég. 

Ég er bara eitt vitni af mörgum. Konan beið og þjáðist í hálft annað ár á biðlista eftir því að fá mjaðmarlið, sem gerbreytti lífi hennar.  

Afsakið að vitni skuli segja frá í stað þess að þegja um meintar "leiksýningar" í heilbrigðiskerfinu og þurrka af sér bleytuna í andlitinu eftir blautar tuskur, enn og aftur, frá þeim sem ekki hafa séð og reynt, en kveða samt upp dóma í allar áttir. 


mbl.is Leiksýning á Landspítala?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég þurfti að sækja mér aðstoð í haust og að kvöldlagi á bráðavakt.

Læknir sá sem hafði mig til meðferðar tók mig tali eftir að meðferð lauk þarna á ganginum þar sem við lágum þrjú í röð.

Hann sagði að ég þyrfti eftirlit og nokkra umönnun í einhverja daga og nú væri spurning hvort við gætum samið:
Hann sagðist telja vænlegast að "taka greindina á þetta". Því tók ég vel því ég taldi að um hans greind væri að ræða og úr þessu gerðum við svo gaman.

En öllu gamni fylgir alvara og "greindin" snerist um hvort ég teldi ekki að besta lausnin væri að ég færi heim í kvöld og kæmi svo bara á göngudeildina á tilsettum tíma daglega þar til meðferðinni lyki. Þarna sagðist hann vera að vísa til þess ástands sem við öllum blasti þarna á spítalanum.
Auðvitað tókum við "greindina" á þetta og skildum kátir!

Árni Gunnarsson, 20.12.2016 kl. 16:43

2 identicon

Ásmundur Friðriksson er bara fífl, bara idiot. En hvað með það, "so what." Fífl eru allstaðar að finna, hjá öllum þjóðum, í öllum samfélögum, þorpsfíflið er og verður alltaf til. Hitt er svo annað mál, að senda fíflin á "Alþingi" þjóða. Slíkt er umhugsunarefni. 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 20.12.2016 kl. 17:00

3 identicon

Er þetta ekki kjarni málsins?

>Venjulega er fólk sett í gips í sex vikur

>og byrjar síðan að ganga. En í mínu

>tilfelli kom brotið ekki fram á mynd,

>fyrr en eftir að ég var búinn að ganga

>á beinbrotinu í sex vikur, og þá var ég

>settur í gips!

Magnús Þrándur Þórðarson (IP-tala skráð) 20.12.2016 kl. 17:16

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kjarni málsins er sá, að álagið er svo mikið vegna skorts á tíma, aðstöðu og starfsfólki, að það er ekki alltaf hægt að fullkanna öll tilfellin. 

Í þessu tilfelli þurfti mynd frá sérstöku sjónarhorni til að sjá þetta tiltekna brot og kannski hefði þurft að taka alls meira en 20 myndir alls í stað ca 12-15. 

Ómar Ragnarsson, 20.12.2016 kl. 17:24

5 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Gleymum ekki því að beinagrind heilbrigðiskerfisins er margbrotin.Hún hefur þurft að þola högg í 25 ár frá nautheimskum pólitíkusum sem markvisst hafa misþyrmt kerfinu með endalausum niðurskurði og lokunum.Ef að ekki væri fyrir góðvild líknarfélaga og einstaklinga og fjárframlögum og gjöfum til heilbrigðisstofnanna víða um land værum við búandi við enn verra ástand sem er handan við hornið. Það gefur augaleið að álagið á stóru spítalana í RVK hefur aukist til muna enda fæðandi konur,fólk sem hefur brotið sig, fólk með botlangakast og annað lítilræði miðað við alvarlega sjúkdoma,sent í höfuðborgina til að fá bót meina sinna. Allt aðgerðir sem hægt var að gera í heimabyggð hér á árum áður. Sá veruleiki sem blasir öllum við nema sauðblindum pólitíkusum minna mann á lympurnar sem bugta sig og beygja fyrir yfirboðurum sínum sem níðast á þegnum sínum .Fólk veit það,sér það en kýs að ganga erinda flokksmafíu og einkahagsmuna. Að detta í hug að halda því fram að Tómas Guðbjartsson einn af okkar færustu læknum skuli vera að setja upp sýningu  í göngum Landsspítalans eins og Ásmundur Friðriksson heldur fram er svo mikil firra að það nær ekki nokkurri átt. Enn meiri firra eru orð landlæknis sem telur ástandið ekkert verra nú en áður. En hvar er Kristján Þór Júlíusson? Var hann í kjálkaaðgerð í útlöndum þar sem hann má ekki tala í 6 vikur? Fjarvera hans er æpandi í þögninni.

Ragna Birgisdóttir, 20.12.2016 kl. 17:51

6 identicon

Þar hittirðu naglann á höfuðið.  Lélegur læknir skánar nefnilega ekki, þó hann fái 11% af þjóðarframleiðslunni.

>Í þessu tilfelli þurfti mynd frá sérstöku

>sjónarhorni til að sjá þetta tiltekna brot

>og kannski hefði þurft að taka alls meira

>en 20 myndir alls í stað ca 12-15.

Magnús Þrándur Þórðarson (IP-tala skráð) 20.12.2016 kl. 17:59

7 identicon

Sem betur fer hef ég ekki oft þurft að leita til Landspítalans, en þó hef ég séð fólk liggjandi í sjúkrarúmum á göngum og setustofum oftar en einu sinni og engar myndavélar í sjónmáli.

Dagný (IP-tala skráð) 21.12.2016 kl. 12:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband