13.2.2018 | 18:46
Einn lítill límmiði getur valdið stórslysi.
Sagt er að prófdómari einn í meiraprófi bílstjóra hér margt fyrir löngu, hafi spurt nemendur:
"Hvað er að þegar ekkert er að en þó er ekki allt í lagi?"
Menn götuðu á þessari spurningu en þá svaraði prófdómarinn sjálfum sér og sagði:
"Þá er litla gatið á bensínlokinu stíflað."
Meðan bensíngeymirinn var fullur var ekkert að.
En í löngum samfelldum akstri verður ekki lengur allt í lagi, því að þá minnkar loftþrýstingurinn inni í geyminum þannig að stundum getur bensíndælan ekki haft á móti þessu þrýstingsfalli.
Já, það eru stundum atriði, sem sýnast svo smá, sem valda svo miklu þegar út af bregður.
Sem sagt: Lítil þúfa veldur þungu hlassi.
Á öllum flugvélum af öllu stærðum eru til dæmis tvö smáatriði, sem geta skipt öllu, utan á skrokk vélanna.
Annars vegar eru það litlar túbur, (pitot tube) sem eru oftast við vængbrúnir vélanna, þar sem loft fer inn í lítið gat og virkar með hraða sínum á mæli í mælaborði sem sýnir hraða vélarinnar í gegnum loftið.
Hins vegar örlítið gat á skrokki vélarinnar, sem sér um að sami loftþrýstingur sé í þeim hluta mælakerfisins sem sýnir loftþrýstinginn í loftmassanum, sem vélin flýgur í, en af því er lesin flughæð hennar.
Ef gleymist að setja á sérstakan hitara sem kemur í veg fyrir ísingu í ísingarskilyrðum, eða að þessi hitari bilar, geta þessi örlitlu op stíflast þannig að mælarnir gefa rangar upplýsingar.
Mannskætt flugslys varð eitt sinn í Suður-Ameríku vegna þess að starfsmaður á flugvelli, sem var að þrífa skrokk vélarinnar fyrir flugtak, límdi fyrst örlítinn límmiða utan um litla gatið á skrokknum til þess að koma í veg fyrir að vatn og hreinsiefni færu inn um gatið.
Hann gleymdi að taka límmiðann af eftir þrifin, og þegar flugvélinnni var klifrað upp í flughæð sem var með æ þynnra lofti, brenglaði stíflaða gatið virkni mælakerfis vélarinnar svo að flugstjórarnir gátu ekki flogið vélinni í réttri stöðu og hún steyptist í Kyrrhafið.
Ísing á hraðaskynjurum olli slysinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Átti lengi lítinn toyota disel jeppa loftgatið stíflaðist og díselolían sprautaðist út allt þegar hitnaði í veðri. Leysti það loks með því að bora gat á lokið
Grímur (IP-tala skráð) 13.2.2018 kl. 19:34
Hér fyrir neðan er tilvitnun í frétt þar er komið inn á að sjónarvottar hefðu séð eld í vélinni þegar hún hrapaði
,,BBC segir rannsakendur vera að skoða hvort veðuraðstæður, mannleg mistök eða bilun hafi valdið flugslysinu. Hryðjuverk hefur hins vegar ekki verið nefnt sem möguleg ástæða slyssins, en vélin var á leið til borgarinnar Orsk í Úralfjöllum.
Sjónarvottar hafa greint rússneskum fjölmiðlum frá því að eldur hafi verið í vélinni þegar hún hrapaði.''
Baldvin Nielsen
B.N. (IP-tala skráð) 13.2.2018 kl. 19:59
Það er viðurkennt atriði í þeim fræðum, sem snúa að vitnisburðum, að mikilli meirihluti sjónarvotta af flugslysum, þar sem mikill eldur og sprenging verða þegar flugvél skellur til jarðar, telur að eldurinn hafi kviknað áður en vélin brotlenti þótt aðrir sjónarvottar segi rétt frá og að rannsókn leiði í ljós að eldurinn kviknaði ekki meðan vélin var á lofti.
Bloggaði um þetta sérstaklega í fyrradag.
Ómar Ragnarsson, 14.2.2018 kl. 12:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.