Þetta með Danina kemur ekki á óvart. Og Albert þekkti sína menn.

Alveg óvart gerðu þrír Íslendingar könnun á áhrifum áfengisneyslu Dana í Kaupmannahöfn 1972, sem styður þá niðurstöðu rannsókna, að yfir 90 prósent dönsku þjóðarinnar, hæsta tala í heimi, drekkur áfengi að staðaldri.

Danir höfðu ákveðið að hjálpa Íslendingum í því að senda heim á hverjum morgni sem nýjast og ferskast sjónvarpsefni frá Ólympíuleikunum, en þá vorum við Íslendingar ekki komnir í gervihnattasamband. 

Fljótlega kom í ljós að í óefni stefndi. Dönsku tæknimennirnir, sem við þurftum að leita til með sérþarfir okkar, voru langflestir þeirrar gerðar, að þegar leið á daginn, urðu þeir æ sljórri, þreyttari og afundnari. 

Við tókum hins vegar eftir ákveðnu hegðunarmynstri hjá þeim, sem snerist í kringum það að drekka bjór til að halda sér gangandi. 

Draumur um þægilegt líf virtist snúast hjá þeim langflestum að fá sér öllara strax í upphafi vinnu og síðan með reglulegu millibili þannig að hægt væri að fara strax heim eftir dagvinnuna og vera ligeglad í afslöppun heima. 

Bjórinn var það sama fyrir þá og kaffi er fyrir marga á Íslandi. 

Þótt þeim stæði yfirvinna til boða, höfnuðu þeir henni, okkur til mikilla hrellingar, því að okkar erindi varð oftast að afgreiða eftir að þeirra höfðu verið kláruð og lentu því á yfirvinnutíma. 

Strax á öðrum degi varð að fara að gera einu ráðstafanirnar, sem virtust duga: Að bjóða þeim frían bjór á okkar kostnað, hæfilega mikinn til að halda þeim á floti.  

Læra smám saman á hvern einstakan hvað snerti þörf hans. 

En þetta hrökk skammt. Fæðispeningar okkar voru af skornum skammti og á þriðja degi kom í ljós að við réðum ekki við þetta á álagstímum fyrir vinnslu á okkar efni. 

Við tókum líka eftir því, að i heildina tekið, var í gangi áfengisböl á þessum vinnustað, sem fólst í því að starfsmennirnir voru í raun aldrei í fullu formi við vinnu sina, heldur stjórnaði öldrykkjan því hvenær þeir nálguðust fullt vinnuþrek. 

Haft var samband heim og ástandið útskýrt. Svo vel vildi til að á upphafsárum íslenska sjónvarpsins lærðu fyrstu starfsmenn þess fræði sín hjá danska sjónvarpinu og þekktu ástandið þar á bæ. 

Skrifstofustjórinn fann ráð til þess að skilgreina þannig og bókfæra sérstakan útgjaldalið til að bjarga Ólympíuleikunum fyrir íslenska áhorfendur, að það sæist ekki í bókhaldinu, að í raun var verið að eyða fé í að halda hópi af Dönum hálffullum. 

Nokkrum árum síðar var ég bílablaðamaður hjá Vísi og kynntist kollegum mínum erlendis, þeirra á meðal besta bílablaðamanni Norðurlanda á þeirri tíð, Roger Sögaard, sem stjórnaði bílaskrifum hjá blaðinu "Bilen og baaden". 

Hann var lunkinn við að nota viðmið sem almenningur skildi frekar en að birta þurrar tölur.

Sögaard var 1,83 á hæð og gerði sjálfan sig að mælistiku fyrir rými inni í bílnum. 

Nokkuð sem ég hef notað siðan fyrir mig. 

Og annað afrekaði hann, sem segir sína sögu. Í stað þess að nota svonefndann VDA-staðal fyrir rými fyrir farangur í hverjum bíl, með mælieiningunni lítrar, varð Bilen og Baaden eina bílablað heims sem notaði danskan staðal sem allur almenningur þar í landi skildi: Hvað hægt var að koma mörgum ölkössum í skottið! 

Of fáir ölkassar: Nei, kaupa bíl sem tók lágmarks fjölda.

Á þeim árum sem við Jón bróðir rölluðum á Renault þurfti að hafa samband við sérstakan tengilið hjá verksmiðjunum ytra vegna ýmissa sérmála. 

Með ólíkidum var hve var ómögulegt að ná sambandi við hann. 

Það var ekki fyrr en ég sagði Alberti Guðmundssyni frá þessu, og hann spurði mig, hvenær ég hringdi í þann franska. 

"Oftast eftir hádegi" var svarið hjá mér.

"Já, mig grunar hvaða fyrirbrigði er í gangi" sagði Albert. "Prófaðu að hringja eingöngu fyrir hádegi, helst við upphaf vinnu." 

Ég fór að ráðum hans og vandamálið leystist. 

Árið eftir fórum við bræður í ferð til Parísar í boði verksmiðjanna, sem undruðust gott gengi Renaultsins árið áður á Íslandi. 

Við hittum franska tengiliðinn rétt fyrir hádegi og hann bauð okkur að koma fyrst með sér í hádegismat og taka málið síðan fyrir á skrifstofu hans. 

Yfir hádegisverðarborðinu var skálað fyrir rallakstri á Renault á Íslandi og síðan ók sá franski okkur til baka á skrifstofuna, orðinn rauðeygður af léttvínsdrykkjunni. 

Var nú sest við borð til að fara yfir málin og pappíra þeim tengdum. 

Brá þá svo við að sá franski fór að missa athyglina, sofnað fljótlega sitjandi og seig í lokin fram á borðið svo að "fundurinn" lognaðist útaf í bókstaflegri merkingu. Við skildum hann hrjótandi eftir og litum hvor á annan.

Þarna blasti við okkur það sem Albert hafði sagt okkur.  

 

 


mbl.is Öruggast að drekka ekkert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

I have taken more out of alcohol than alcohol has taken out of me. 

Winston Churchill.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 24.8.2018 kl. 18:23

2 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

God saga Omar og skemmtileg.

Sigurður Kristján Hjaltested, 27.8.2018 kl. 05:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband