Ótrúleg forsaga löngu, löngu tímabærs fréttamyndvers.

Ætli það hafi ekki verið fyrir um 15 árum sem fulltrúar frá BBC komu og skoðuðu Útvarpshúsið. 

Þeir áttu varla orð yfir því bruðli sem þeim sýndist vera í gangi varðandi aðalmyndverið og sögðust ekki vita um aðra sjónvarpsstöð í Evópu þar sem menn teldu sig hafa efni á því að fréttir væru sendar út úr aðalmyndverinu og þar með bruðlað stórlega með jafndýrt fyrirbæri og stórt myndver er. 

Þetta þýddi einfaldlega, eðli málsins samkvæmt, að nýting myndversins fyrir bæði fréttir og annað efni yrði miklu verri en ella. Það yrði að hætta í miðjumm klíðum við venjulegar en dýrar og flóknar upptökur af því að það væru að koma fréttir! 

Og það væri miklu dýrara og erfiðara, ef það væri þá hægt, að senda út fréttir með þyrftu að fara í loftið með mjög stuttum fyrirvara. 

Því að fréttir hafa þann óhentuga eiginleika að taka oft upp á því að gerast þegar þeim sýndist, en ekki þegar það hentaði bókunum á myndverum. 

Þeim var sagt, að allt væri þetta gert vegna sparnaðar og skorts á fjármagni. Aðalmyndverið hefði upphaflega átt að vera hljóðver í útvarpi og að húsið allt hefði upphaflega verið hannað bara fyrir útvarp og skrifstofur en ekki fyrir sjónvarp. 

Tvö önnur hús hefðu átt að rísa við hliðina, annars vegar fyrir sjónvarp og hins vegar fyrir tækjabúnað, en vegna sparnaðar og fjárskorts orðið að hætta við það. 

Sjónvarpið hefði sem sagt átt að vera í öðru sérstöku húsi með myndverum sem væru hönnuð fyrir fréttir annars vegar og annað sjónvarpsefni hins vegar. 

Ekki minnkaði undrun þeirra við að heyra þetta undarlega sparnaðartal notað um eindæma bruðl, og sömuleiðis það, að vegna sparnaðar og fjárskorts hefðu ekki verið til peningar til að hanna nýtt heildar útvarpshús upp á nýtt.

Hinir erlendu gestir hefðu orðið enn meira undrandi ef þeir hefðu vitað, að vegna sparnaðar yrði haldið áfram með þetta bruðl í fimmtán ár í viðbót. 

Og að ef að líkum léti, myndu ýmsir, í ljós fyrri reynslu, verða til að gagnrýna "bruðlið" sem fælist í því að gera sérstakt fréttamyndver eftir að sérstakt rými fyrir lítið hljóðver hafði beðið eftir því að vera gert að myndveri fyrir fréttir árum saman. 

Hvað um það, - nú er þessari stóru og langvinnu áratuga vitleysu lokið að mestu, en eftir stendur, að svonefnd aðalmyndver og fréttamyndver áttu upphaflega að vera hljóðver fyrir útvarp. 

Það verður sennilega ekki að veruleika hjá núlifandi mönnum að komist verði alla leið á þessari vegferð. 

Og öll þessi saga er afleiðing af þeirri ákvörðun fyrir um fjórum áratugum að láta hanna og reisa alltof stórar og dýrar byggingar við Efstaleiti yfir Ríkisútvarpið. 


mbl.is Nýtt myndver RÚV kostar 184 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband