8.12.2018 | 11:58
Enn er von um friðsælan helgireit. Þetta er þjóðarmál.
Enn er von til þess að látið verði staðar numið í stanslausri ásókn til að hrúga hótelum og misfögrum steinkastölum niður í hina vinalegu byggð, sem hin forna miðja Reykjavíkur hefur verið.
Þegar staðið er á Austurvelli sést enn húsaröðin við Kirkjustræti vestur af Alþingishúsinu, húsaræð sem myndar fallega og friðsæla byggð.
Með byggingu enn eins hótelsins er þessari húsaröð drekkt á bakk við steinkastalann sem til stendur að reisa líkt og um aðför að Alþingishúsinu sé að ræða í stað þess að láta hinn forna helgistað, hugsanlega allt frá landnámi, standa sem gróðursæla og fallega vin í vestur frá Austurvelli.
Færð hafa verið sannfærandi rök fyrir því að í þessum reit, sem myndar fallega vin við bæjarstæði fyrsta landnámsmannsins, hafi hann haldið helgiathöfn með heimilisguðum sínum, öndvegissúlunum Þór og Frey, til þess að sættast og friðmælast við landvætti Íslands.
Svo helgar voru þessar súlur taldar að getið er um það í ritum þrjú hundruð árum síðar, að þær standi enn í eldhúsi í Reykjavík, þótt heiðnar séu að uppruna í landi, sem hefur þá verið kristið í nær tvær aldir.
Enn er von, enn gefst tækifæri til þess að koma þarna upp nettum skógarlundi og minningarreit um upphaf byggðar í Reykjavík á sameiginlegum helgistað tveggja trúarbragða.
Icelandair rær nú lífróður til þess að viðhalda rekstri sínum og vandséð er, þegar ferðamannastraumurinn eykst ekki lengur, hvers vegna félagið er að leggja fé í enn eitt hótelið þegar það bráðvantar fé í raunverulegan flugreksturinn, sem er auðvitað það sem tilvist fyrirtækisins byggist á.
Þetta er ekki aðeins mál þeirra Reykvíkinga, sem lásu á dögunum upp nöfn forfeðra og formæðra sinna sem hvíla þarna, heldur mál þjóðarinnar allrar, ekki síst Alþingis.
Icelandair þarf á viðskiptavild að halda erlendis, svo sem í byggðum Vestur-Íslendinga í Ameríku og myndi auka á þá viðskiptavild með því að standa fyrir varðveislu reits í Reykjavík, sem tengist landnámi, svipað og álíka reitir í Ameríku vitna um landnám Íslendinga þar.
Vigdís Finnbogadóttir benti á í ræðunni, sem hún sést halda á mynd í tengdri frétt á mbl.is, að sjálfsagt væri að þjóðin veitti þeim, sem hafa ætlað að byggja þarna hótel, aðstoð og fjárhagslegan styrk til að bjarga menningarverðmætum og aðstöðu til friðsællar útiveru, sem nauðsynlegt er að ganga ekki frekar á í hjarta Reykjavíkur.
Þetta er þjóðarmál, þjóðþrifamál.
Friðun á borði ráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það væri reisn yfir því ef hætt væri við þessa hótelbyggingu og gengið frá hinu gamla Landsímahúsi í stíl þess, í þeirri stærð sem það er nú. Einnig að tengja saman Víkurkirkjugarð og Austurvöll. Þannig myndi hið opna svæði stækka en ekki minnka eins og núverandi áform eru um. Reykvíkingum fjölgar og því er stækkun svæðisins rökréttari en minnkun þess. Að auki myndi sólar njóta lengur og betur við, andstætt því sem hótelbyggingin myndi gera. - Það er því fá rök með þessari fyrirhuguðu hótelbyggingu þarna en mörg á móti.
Arnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 8.12.2018 kl. 20:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.